Enn í skotgröfum

Enn einn átakafundurinn um Fljótsdalsvirkjun var haldinn í gær, í þetta sinn á vegum umhverfis- og byggingarverkfræðiskorar Háskóla Íslands. Þar skiptust á skoðunum Halldór Ásgrímsson, Þuríður Backman, Kristinn Haukur Skarphéðinsson fuglafræðingur og fulltrúar Landsvirkjunar þeir Helgi Bjarnason og Þorsteinn Hilmarsson. Salurinn var þéttsetinn háskólanemum og utanaðkomandi áhugafólki eins og undirritaðri.

Erindin voru, svo sem búast mátti við, sterklega lituð af skoðunum flytjenda á réttmæti virkjana á þessu merka svæði og pallborðsumræður leiddu út af fyrir sig ekkert nýtt í ljós. Því miður er umræðan læst í eins konar skotgröfum og þokast ekki áfram. Það er mikið áhyggjuefni því hér er um að ræða eitt mikilvægasta málefnið sem við er að fást í samtímanum og sem skiptir svo miklu til framtíðar.

Framganga Halldórs Ásgrímssonar í þessu máli er einkar óviðkunnanleg eins og berlega kom fram á fundinum í gær. Hún einkennist af yfirlæti og valdhroka og svör við spurningum markast af ólund og aulafyndni. Allur hans málflutningur byggist á því sem hann setur fram sem byggðaleg rök og vísar snúðugt til hagvaxtar sem allir vilji. Hann ansar ekki athugasemdum um nauðsyn grænna þjóðhagsreikninga og hann talar eins og nýting orku til stóriðju sé það eina sem rétt geti hag Austfirðinga. Undir lok fundarins var hann spurður hvort hugarfarsbreyting meðal þjóðarinnar á sviði umhverfis- og náttúruverndar hefði ekki haft nein áhrif á hann. Svar hans var á þá leið að hann hefði ekki heyrt nein þau rök í málinu sem gæfu honum tilefni til að skipta um skoðun. Annað hafði hann ekki um það að segja og sjálfsagt hefur ekki nokkur viðstaddra í raun og veru búist við ítarlegra svari.

Maður veltir fyrir sér hvernig hægt er að koma þessari umræðu á vitrænt plan. Það hafa reyndar ýmsir reynt og er í því efni rétt að benda á mjög góða grein Guðmundar Sigvaldasonar jarðfræðings í Degi 29. september sl. þar sem hann dregur fram röksemdir með og á móti á forsendum ábyrgrar framtíðarsýnar sem hafnar auðveldum skammtímalausnum. Gjarna vildi ég sjá og heyra þá Halldór og Guðmund ræða á skipulegan hátt og lið fyrir lið þær röksemdir sem settar eru fram í grein Guðmundar. Það yrði örugglega fróðleg umræða ef henni yrði stjórnað á þann hátt að menn kæmust ekki undan því að svara. Ef til vill væri þó betra að hafa ekki stjórnmálamann öndvert Guðmundi, a.m.k. hvorki Halldór né Finn sem hljóma alltaf eins og þeir haldi að þeir séu þátttakendur í ræðukeppni framhaldsskólanema þegar þeir tjá sig um þetta mál.