Skammsýni Sivjar

Íslands óhamingju verður allt að vopni. Þvert ofan í tillögur og ráð hinna færustu vísindamanna og flestra lögboðinna ráðgjafa sinna hefur Siv Friðleifsdóttir umhverfisráherra heimilað áframhaldandi kísilgúrnám úr Mývatni og leyfir nú töku úr Syðriflóa. Þar með er talið að framhald kísilgúrnámsins sé tryggt til a.m.k. næstu 20 ára. Starfsmenn Kísiliðju brugðust við fregninni með því að slá upp sigurveislu og raða í sig góðgæti við píanóundirleik.

Þvílík skammsýni! Hvað er þetta fólk að hugsa? Á þetta að ganga svona til að eilífu? Á að halda áfram þar til skaðinn er orðinn bersýnilegur og óbætanlegur með öllu? Það er ekkert annað en ósvífinn útúrsnúningur iðjusinna á hinni vel þekktu varúðarreglu að telja sig í fullum rétti vegna þess að ekki liggi fyrir órækar sannanir fyrir skaðsemi kísilgúrnámsins. Það er framkvæmdaraðilans að sýna fram á skaðleysi athafna sinna á náttúru Mývatns og það hefur hann ekki gert.

Það hefur verið deginum ljósara allt frá upphafi kísilgúrnámsins að hér væri um tímabundna iðju að ræða af þeirri einföldu ástæðu að hún er fjarri því að vera sjálfbær þar sem nýmyndun er miklum mun hægari en brottnámið. Hvað halda menn að gerist eftir 20 ár? Ef að líkum lætur heldur áfram söngurinn um atvinnuhagsmuni kísiliðjumanna og yfirvofandi dauða samfélagsins ef þeir fái ekki að halda mokstrinum áfram. Síðast var með samkomulagi Náttúruverndarráðs, umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra gefinn 15 ára frestur til að búa sig undir endalok kísilgúrvinnslunnar. Það samkomulag hefur nú verið svikið og ekkert raunverulegt hefur heldur verið aðhafst til að draga úr neikvæðum áhrifum af lokun Kísiliðjunnar.

Það er sorglegt hlutskipti sem Siv Friðleifsdóttir hefur kosið sér í embætti umhverfisráðherra. Í hverju embættisverkinu á fætur öðru tekur hún skammtíma hagsmuni atvinnurekstrar fram yfir langtíma hagsmuni þeirrar náttúru sem hún er sett til þess að gæta. Náttúran er aldrei í fyrsta sæti hjá umhverfisráðherra.