Mikið fár greip skyndilega um sig víða í Evrópu vegna frétta af hinum banvæna Kreutsfeldt Jacobs sjúkdómi sem fólk getur smitast af við neyslu sýkts nautakjöts. Og ekki að undra. Þessi sjúkdómur er einkar óhugnanlegur, fólk veslast upp á löngum tíma og á sér enga lífsvon. Það skelfilega er að hefðu bresk stjórnvöld brugðist við á réttan hátt fyrir nokkrum árum þegar vísindamenn bentu á hættuna og tengslin við nautakjötsneyslu hefði mátt koma í veg fyrir mrgan harmleikinn. En eins og svo oft áður voru skammtíma hagsmunir atvinnu og efnahags teknir fram yfir heilsu og velferð fólksins. Stjórnmálamenn hugsa sjaldnast lengra en til næstu kosninga, hvort sem þeir heita Thatcher eða Davíð.
Viðbrögð Þjóðverja við þessum fréttum voru bann við notkun alls dýramjöls að meðtöldu fiskimjöli, enda þótt engin rök liggi til þess að fiskimjöl komi við þessa sögu. Með harðfylgi tókst að bjarga málum fyrir horn í ESB og getum við þar fyrst og fremst þakkað hinni harðsnúnu Ritt Bjerregard sem þurfti að gæta hagsmuna Dana í þessu máli.
Nú varpa ýmsir hér öndinni léttar eftir þessi málalok. Það skrýtna er að fáir hafa orðið til að ræða hinar jákvæðu hliðar málsins hvað okkur varðar og hvað af því má læra. Og hver skyldi nú boðskapurinn vera? Jú, hann er auðvitað sá að við erum einstaklega lánsöm þjóð. Við búum við þær aðstæður að hér er tiltölulega lítil mengun, hér er vatnið tært og loftið hreint, og við höfum að mestu komist hjá alvarlegum sjúkdómum í eldisdýrum. Það getum við þakkað nokkrum framsýnum vísindamönnum sem höfðu vit fyrir okkur og tryggðu nægilega varfærni við fóðurnotkun og aðra umhirðu. Við getum líka þakkað það einangrun landsins sem fer þó æ minna fyrir. Miklar varúðarráðstafanir gegn innflutningi dýra og smitberandi afurða voru kannski ekki síður settar fyrir margt löngu til þess að vernda framleiðendur, en vernduðu okkur í raun gegn margs konar óáran í dýraeldi. Það er oft gott að vera fámenn þjóð í eylandi.
Við höfum sem sagt verið lánsöm. Og nú gefst gullið færi á að efla heilsusamlega framleiðslu til manneldis og koma henni á framfæri á mörkuðum þar sem sífellt strangari kröfur eru gerðar til heilbrigðis og annarra gæða. Við eigum að sjá og meta þá auðlegð sem býr í tiltölulega mengunarfríu umhverfi og náttúru landsins og kunna að nýta þá auðlegð án þess að skemma hana. Það er lærdómurinn.