Edda og auglýsingar

Edduverðlaunin voru afhent með pomp og pragt 19. nóvember. Athöfnin fór fram í Þjóðleikhúsinu og var send út beint í “Þjóðarsjónvarpinu”, þ.e.a.s. sjónvarpi Ríkisútvarpsins. Gaf nú aldeilis á að líta þegar konur og karlar svifu í salinn í sínu besta pússi og virtist reynt að gera þennan viðburð sem líkastan slíkum hátíðum úti í heimi. Því miður voru aðfarir of oft harla klaufalegar, jafnvel hallærislegar, einkum viðtöl í upphafi við líklega verðlaunahafa.

Enga skoðun ætla ég að hafa á réttmæti verðlaunaveitinga að þessu sinni, en auðvitað eru úrslit tiltölulega fyrirsjáanleg á okkar litla markaði. Hins vegar get ég rétt ímyndað mér að mörgum áhorfenda víðs vegar um landið hafi fundist þeir eitthvað utanveltu þegar kallaðir voru til leiks sjónvarpsmaður ársins annars vegar og Egill hinn silfraði hins vegar, menn sem tiltölulega lítill hluti þjóðarinnar hefur yfirleitt séð í vinnunni sinni. Hvað sem um það má segja mátti hafa gaman af þessari útsendingu og ánægjulegt að RÚV skyldi annast hana, en ekki Stöð 2 í læstri dagskrá eins og í fyrra.

Eitt setti þó afspyrnu ljótan blett á þennan dagskrárlið og það voru innskot auglýsinga. Tvívegis var dagskráin rofin til að koma að auglýsingum sem áhorfendur máttu sitja undir þar til beina útsendingin datt inn aftur og þá í miðju skemmtiatriði. Í annað skipti var klippt af söngatriði, í hitt skipti var eyðilagt leikatriði. Að mínum dómi var hér um að ræða hreint brot á lögum og reglum um flutning auglýsinga í útvarpi og sjónvarpi. Um það má vísa til 4. greinar útvarpslaga þar sem meginreglan er að auglýsingar séu skýrt afmarkaðar frá öðru dagskrárefni og fluttar í sérstökum almennum auglýsingatímum á milli dagskrárliða. Þó er sagt heimilt að rjúfa einstaka dagskrárliði með auglýsingatíma, “…enda leiði það ekki til afbökunar á dagskrárefni eða verulegrar röskunar á samfelldum flutningi…”.

Ef það er ekki “afbökun” og “röskun” að skera framan af dagskráratriðum eins og þarna átti sér stað þá kann ég ekki að skilgreina þau hugtök. Enn einu sinni hafa því ráðamenn RÚV sýnt undirlægjuhátt sinn gagnvart markaðsöflunum. Rétt er að taka fram að þetta einstaka mál hefur ekki verið til umfjöllunar í útvarpsráði, en kostun af ýmsu tagi hefur oft verið rædd. Þar sýnist sitt hverjum og hef ég reynt að standa í ístaðinu eftir föngum. Þá er þess skemmst að minnast að á síðasta fundi útvarpsráðs var felld tillaga um innskot auglýsinga í kvikmyndasýningar um helgar. Ég mun taka ofangreint mál til umfjöllunar á næsta fundi.