Auglýsingar og kostun í RÚV

Mikið hefur verið rætt um auglýsingar og kostun á fundum útvarpsráðs að undanförnu, enda brjótast nú starfsmenn markaðsdeildar um fast í leit að auknum tekjum. Þær eru ekki auðsóttar í greipar ríkisstjórnarinnar og þess sem mesta ábyrgð ber á rekstri Ríkisútvarpsins, þ.e. Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra. M.a. hefur markaðsdeildin sótt það fast að fá að skjóta auglýsingum inn í kvikmyndasýningar um helgar. Á síðasta fundi útvarpsráðs þriðjudaginn 14. nóvember gerðust hins vegar þau tíðindi að meiri hluti ráðsins hafnaði tillögu formanns um það efni. Við sem skipum minni hluta ráðsins, sem að þessu sinni voru auk mín þær Anna Kristín Gunnarsdóttir og Ása Richards, fengum óvænt liðsinni frá Þórunni Gestsdóttur, sem er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Áhorfendur geta því vonandi varpað öndinni léttar og horft í friði á kvikmyndir í sjónvarpi RÚV.

Þá tók ég einnig til umræðu kostun þáttanna um sjávarútveg sem nú eru sýndir í sjónvarpinu og lagði fram eftirfarandi bókun:

“Þáttaröðin um sjávarúveg á tímamótum undir heitinu “Aldahvörf” í umsjón Páls Benediktssonar hefur þegar vakið sterk viðbrögð í þjóðfélaginu. Sýndir hafa verið fimm þættir af átta og ekki enn tímabært að leggja dóm á efnisval eða efnistök þótt glöggt megi heyra að sitt sýnist hverjum í hópi áheyrenda. Hins vegar hljóta útvarpsráðsmenn að taka eftir og íhuga þessi viðbrögð sem opinbera með skýrum hætti þá miklu annmarka sem eru á því að fá hagsmunaaðila til að leggja fé til þáttagerðar í Ríkisútvarpinu.

Í 3. grein laga um Ríkisútvarpið er fjallað um markmið þess, hlutverk og skyldur. Þar er m.a. kveðið á um að það skuli “…gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð” og jafnframt er kveðið á um að það skuli “…veita almenna fræðslu og gera sjálfstæða dagskrárþætti er snerta Ísland og Íslendinga sérstaklega.”

Undirrituð er þeirrar skoðunar að kostun þátta í útvarpi og sjónvarpi Ríkisútvarpsins vegi að ofangreindum markmiðum og telur að við gerð þáttanna um sjávarútveg hafi gallar kostunar komið ótvírætt í ljós. Með því er ekki að svo stöddu verið að taka undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á efni þáttanna og efnistök heldur skal undirstrikuð sú staðreynd að kostun hagsmunaaðila veldur tortryggni og grunsemdum sem Ríkisútvarpið á ekki að þurfa að sitja undir. Þeim mun alvarlegri verða ágallarnir þegar því er eindregið hafnað af hálfu Ríkisútvarpsins að gefa upp kostnaðartölur og hvernig þær skiptast á milli kostenda. Ríkisútvarpið er sameign allra landsmanna og þeir eiga rétt á vitneskju um þessa þætti. Allir reikningar vegna þáttagerðar af þessu tagi eiga að vera opnir eigendum stofnunarinnar.

Upplýst hefur verið að settir hafi verið þeir sjálfsögðu varnaglar í samninga við einstaka kostendur “Aldahvarfa” að þeir hefðu engin afskipti af gerð þáttanna. Það breytir ekki þeirri staðreynd að kostun fjársterkra hagsmunaaðila býður heim efasemdum og tortryggni af því tagi sem fram hefur komið að undanförnu. Sú staðreynd ætti að sýna stjórnendum Ríkisútvarpsins að þeir eru á rangri leið við fjármögnun dagskrárgerðar. Í stað þess að fara sífellt lengra inn á braut kostunar verður að knýja menntamálaráðherra sem æðsta yfirmann stofnunarinnar til þess að tryggja henni fjármagn til rekstursins svo að hún geti staðið við þau markmið sem henni eru sett með lögum.”

Auk mín skrifuðu fulltrúar Samfylkingarinnar, Anna Kristín Gunnarsdóttir og Ása Rishards, undir þessa bókun.