Í gær fékk ég kærkomið bréf frá konu sem er búsett í Mývatnssveit. Ég þekki hana ekki persónulega, en við deilum sömu skoðunum og tilfinningum vegna þess hernaðar sem rekinn er gegn þeirri einstæðu náttúrugersemi sem Mývatn og umhverfi þess er. Þessi góða kona er sannarlega ekki sú eina sem brugðist hefur við grein minni sem birtist í Morgunblaðinu 9. nóvember sl. undir fyrirsögninni “Áfram skal gramsað í Mývatni”. M.a. stöðvaði kona ein mig í Kringlunni sama dag og greinin birtist, og þótt við værum báðar á hraðferð ætluðum við seint að geta slegið botninn í samtal okkar. Hún þekkir einnig vel til í Mývatnssveit og hefur miklar áhyggjur út af þróun mála.
Þegar starfsmenn Kísiliðjunnar slógu upp veislu í tilefni af þeim úrskurði Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra að þeim væri óhætt að gramsa áfram í botni Mývatns þá er ljóst að þeir voru margir sem ekki sáu ástæðu til veisluhalda. Þeir hafa smám saman verið að láta til sín heyra að undanförnu, í einkasamtölum, með.greinaskrifum og ályktunum. Það er þungt í náttúruverndarsinnum og þeir hafa ekki sagt sitt síðasta. Þeim svíður hvað mest hvernig fagleg ráðgjöf er sniðgengin og lítilsvirt í þessu máli.
Á síðasta fundi Náttúruverndarráðs voru nýlegir úrskurðir umhverfisráðherra til umræðu og var mörgum heitt í hamsi. Ráðherra sat hluta þess fundar og var ekki hlíft við gagnrýni né áleitnum spurningum. Því miður komu þau skoðanaskipti ekki að miklu gagni. Ráðherra svaraði að miklu leyti með því einu að hafna allri gagnrýni og kom sér hjá því að svara óþægilegum spurningum jafnvel þótt ítrekað væri leitað svara. Á henni var ekki iðrunarmerki að sjá. Það er því miður deginum ljósara að náttúra Íslands á sér ekki málsvara í umhverfisráðherra.