Óður til íslenskrar náttúru

Bókin sem margir hafa beðið eftir er komin út: “Hálendið í náttúru Íslands” eftir Guðmund Pál Ólafsson. Mér til mikillar gleði fékk ég hana í hendur nýútkomna og nýti nú marga lausa stund til að gæða mér á henni. Þessi merkilega bók er engin léttavara sem hægt er að taka með sér í rúmið. Hún er stór og þung og telur 439 blaðsíður. Hver einasta opna er prýdd myndum úr náttúru landsins sem höfundur hefur tekið flestar. Meginmálið er fleygað afmörkuðum tilvitnunum og ljóðum sem hæfa efninu. Þetta er listaverk sem hægt er að fletta aftur og aftur, skoða þessar stórkostlegu myndir, lesa fræðandi textann og ylja sér við ljóðin.

Ágúst H. Bjarnason gagnrýnir bók Guðmundar í Morgunblaðinu 25. október sl. Gagnrýni hans er svolítið sérkennileg og allt að því ólundarleg hvernig sem á því stendur. Ef til vill er þar um að kenna fullkomnunaráráttu fræðimanns sem finnur ekki nákvæmlega það sem hann helst vildi. Aðfinnslur einkennast sumar af smámunasemi og hann viðurkennir hálfpartinn treglega að hér sé á þrykk út kominn veglegur gripur. Kannski fer í taugarnar á honum grímulaus ást höfundar á landinu og óttinn við skemmdarverk stórvirkjana- og stóriðjusinnanna sem gengur eins og rauður þráður í gegnum allt verkið. Eða kannski hefur hann lagt sig fram um að láta enga hrifningu trufla gagnrýnina og það tekst honum sannarlega.

Sjálfri finnst mér það hljóti að vera dauður maður sem getur stillt sig um að láta í ljósi aðdáun og hrifningu á þessu verki sem er enn ein perlan í dagsverki Guðmundar Páls, sannkallaður óður til íslenskrar náttúru. “Hálendið í náttúru Íslands” ætti að vera skyldulesning allra sem vilja beisla öfl náttúrunnar, hrúga upp risastíflum, breyta árfarvegum og sökkva landi. Ef til vill rynni upp fyrir þeim hverju okkur hefur verið trúað fyrir.