Ég brá mér á áheyrendapalla í Alþingi í dag til að hlusta á umræðu utan dagskrár um Ríkisútvarpið. Þegar ég kom til leiks var Þuríður Backman að mæla fyrir tillögu um eflingu lífrænnar ræktunar í landbúnaði. Ísólfur Gylfi stjórnaði fundi, Guðni ráðherra hlýddi á og Gísli S. Einarsson bjóst til ræðuhalda. Fleiri voru ekki viðstaddir. Óneitanlega kunnuglegt yfirbragð í þingsalnum. Svo fjölgaði smám saman og umræður urðu líflegar.
Umræðan um Ríkisútvarpið staðfesti allar verstu grunsemdir okkar sem viljum efla hag þess. Það hefur raunar lengi verið ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hefur unnið markvisst að því að hafa öll tögl og hagldir í þessari stofnun og svo hart hefur verið gengið fram að hún stendur varla lengur undir þeirri gamalkunnu einkunn að hún sé stofnun allra landsmanna. Svo rækilega hefur sjálfstæðismönnum verið plantað í hverja stjórnunarstöðuna af annarri innan RÚV að menn rak í rogastans á dögunum þegar ráðinn var nýr fjármálastjóri sem ekki mun hafa flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum. Skýringin er reyndar sú að sá hinn sami tengist framsóknarmönnum og nú ríður á að hafa þá góða.
Það kom líka í ljós í umræðunni í dag að framsóknarmenn láta ekki af þeim vana að snúast eins og vindhani á burst. Þeir ætla greinilega að styðja vini sína í Sjálfstæðisflokknum í því að breyta RÚV í hlutafélag. Einn þeirra gaf það beinlínis til kynna að sala Rásar 2 væri þeim ekki ógeðfelld. Það voru helstu tíðindi eða öllu heldur ótíðindi þessarar umræðu því sannast sagna hélt ég að það yrði eitthvert hald í framsóknarmönnum í baráttunni gegn einkavæðingu RÚV. Það verður greinilega ekki og ómögulegt að vita hvaða stefnu Samfylkingin tekur þegar til kastanna kemur. Það verða þá rétt eina ferðina aðeins vinstri grænir sem standa í ístaðinu.
Það var merkilegt að hlusta á stjórnarliða og þó einkum sjálfstæðismenn tala um kosti þess að breyta rekstrarformi RÚV í hlutafélag. Í rauninni hefði mátt spila aftur upptökur af þingfundum veturinn 1995-96 þegar menn rökræddu um framtíð Pósts og síma. Þá eins og nú voru rökin þau að tækninni fleygði fram og samkeppnin væri sívaxandi og í slíku umhverfi þyrfti stofnunin að geta brugðist skjótt við hvers konar samkeppni og tæknibreytingum og til þess væri hlutafélagsformið svo dæmalaust hentugt. Hins vegar væri ekkert verið að hugsa um að selja stofnunina einkaaðilum, sei, sei, nei, það væri ekkert inni í myndinni. Sú margendurtekna fullyrðing stóð svo auðvitað ekki lengi því eins og allir vita á nú að selja Símann hæstbjóðanda og það sem fyrst að sögn samgönguráðherra. Sporin hræða þegar kemur að Ríkisútvarpinu.
Ríkisútvarpið er í úlfakreppu. Verði það einkavætt verður sú aðgerð ekki aftur tekin og er deginum ljósara að það hefði í för með sér gjörbreytta þjónustu við landsmenn. Vafamál er að nokkur treysti sér til að reka Rás 1 með sama sniði og nú og yrði heldur betur sjónarsviptir að þeirri merku menningardagskrá sem þar er flutt. Rás 2 yrði hugsanlega gerð að enn einni gargstöðinni með síbyljutónlist og sjálfhverfu bulli ef henni yrði ekki bara einfaldlega slátrað til að losna við samkeppnina. Dagskrá sjónvarpsins yrði vafalaust rugluð og seld í áskrift sem yrði a.m.k. tvöfalt hærri en afnotagjald RÚV er nú. Ólíklegt er að elli- og örorkulífeyrisfólk nyti áfram 30% afsláttar. Sá hópur kynni því að verða allstór sem ekki hefði efni á neinni áskrift. Þjónusta við afskekkta staði leggðist trúlega af og bættist þar með enn í hóp þeirra sem ættu ekki möguleika á að njóta íslensks sjónvarps. Er það þetta sem menn vilja? Eða hafa menn ekki hugsað málið til enda?