Það er skammt stórra högga á milli í stóriðjubransanum. Nú vilja forsvarsmenn Norðuráls byggja meira á Grundartanga og stækka álverksmiðjuna þar svo að hún ráði við framleiðslu 300 þúsund tonna af áli. Það slagar upp í áformin í Reyðarfirði svo að nú neistar heldur betur á milli landshorna.
Og hver eru viðbrögðin við hugmyndum Norðuráls? Jú, iðnaðarráðherra tekur vel í erindi Norðurálsmanna og býst til fundahalda með þeim, en minnir í leiðinni á álverksmiðjuna stóru í Reyðarfirði, þó nú væri! Gleymum ekki að verksmiðjan sú er í kjördæmi flokksformannsins hennar og reyndar hennar eigin líka eftir kjördæmabreytinguna. Þjóðhagsspámenn eru farnir að reikna þenslu og hagvöxt með bros á vör. Forsvarsmenn Landsvirkjunar eru strax með á nótunum og farnir að bollaleggja næstu virkjanir til að þjóna Norðuráli. Náttúruverndarsamtök Íslands og Sól í Hvalfirði eru ein um varnaðarorðin.
Viðbrögð fjölmiðla eru vægast sagt undarleg og valda vonbrigðum. Þeir flytja fréttirnar eins og hér sé eingöngu um atvinnumál að ræða og enn eina vítamínsprautuna inn í efnahagslíf landsins. Ekki orð um umhverfisáhrif. Ekkert rætt við umhverfisráðherra. Ekkert minnst á verkefni starfshóps um forgangsröðun virkjana. Ekkert spurt um stóraukna losun gróðurhúsalofttegunda. Er þó nýlokið kynningu á skýrslu um þau efni og framundan fundur um Kyotobókunina þar sem Íslendingar ætla rétt eina ferðina að reyna að komast undan ábyrgri þátttöku í því risaverkefni að draga úr mengun í lofti.
Enn einn ganginn fá náttúruverndarsinnar högg í andlitið. Enn einu sinni erum við minnt á stóriðjufrekjuna sem hefur kostað óbætanlegt rask í náttúru landsins. Ætla menn aldrei að læra og vitkast?