Bókun í útvarpsráði

Af einhverjum ástæðum virðast margir halda að fulltrúar í útvarpsráði séu stöðugt með hökuna á herðum starfsmanna og skipti sér af hverju smáatriði jafnt í fréttaöflun sem dagskrárgerð. Þetta er vitanlega alrangt enda er hlutverk ráðsins skilgreint svo í stuttu máli að það skuli taka “…ákvarðanir um hversu útvarpsefni skuli haga í höfuðdráttum innan marka fjárhagsáætlunar”. Þannig er ráðinu sem sagt ætlað að leggja línur en dagskrárgerð er að sjálfsögðu algjörlega á ábyrgð viðkomandi deilda og án beinna afskipta útvarpsráðs.

Hins vegar reyna ráðsmenn eftir föngum að fylgjast með dagskrá útvarps og sjónvarps og koma því til skila sem þeim þykir vel fara jafnt og því sem miður fer, ekki síst með tilliti til 3. gr. laga um Ríkisútvarpið þar sem hlutverki þess er lýst í alllöngu máli. M.a. er þar kveðið á um að það skuli “… gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð”.

Á fundi útvarpsráðs 10. október sl. ræddum við að venju nokkur atriði úr dagskrám útvarps og sjónvarp. M.a. ræddum við skemmtiþáttinn sem hóf göngu sína 7. október og fannst mörgum hann lofa góðu. Ég hlaut þó að gagnrýna harðlega kvikindislega umfjöllun þáttastýru og gests hennar um fjarstadda manneskju sem mér fannst ekki samrýmast því ákvæði laganna sem vitnað er til hér að ofan. Hafi sú umfjöllun átt að teljast skemmtiefni þá er víst að sú fyndni var einfaldlega lágkúruleg. Því lagði ég fram eftirfarandi bókun:

“Undirrituð gagnrýnir harðlega þann hluta skemmtiþáttarins “Milli himins og jarðar” sl. laugardag þar sem þáttastjórnandi Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og gestur hennar Jónína Benediktsdóttir sameinuðust í niðrandi umtali um fjarstadda manneskju Súsönnu Svavarsdóttur. Undirrituð beinir því til forsvarsmanna að Súsanna Svavarsdóttir verði beðin afsökunar á þessum afglöpum og séð til þess að þvílíkt gerist ekki aftur”.