Í ályktun landsfundar VG um menningarmál má lesa eftirfarandi setningu: “Landsfundurinn lýsir eindreginni andstöðu við fram komnar hugmyndir um að leggja niður Rás 2 undir því yfirskini að hún skuli flutt til Akureyrar.” Setningin endurspeglar áhyggjur margra vegna yfirlýsingar menntamálaráðherra á Alþingi þess efnis að rétt væri að breyta Rás 2 í miðstöð svæðisútvarpa með aðsetri á Akureyri. Sjálfstæðismenn hafa árum saman haft horn í síðu Rásar 2 og ályktað við hvert tækifæri að hana skuli selja, en vinir þeirra í Framsókn hafa þvælst fyrir framgangi þess baráttumáls. Ýmsir gruna því ráðherra um græsku og að hann sé nú að freista þess að snúa á vini sína í Framsókn með því að senda Rásina til Akureyrar og fá henni þar nýtt hlutverk.
Þannig eru málefni Ríkisútvarpsins enn eina ferðina í brennidepli. Þessi ein helsta menningarstofnun þjóðarinnar á við stórfelldan vanda að etja og það á fleiru en einu sviði. Fjárhagsvandinn er bæði alvarlegur og sýnilegur og stafar af þrennu:
Í fyrsta lagi hafa afnotagjöld ekki fengist hækkuð nema óverulega á undanförnum árum og eru nú ekki einu sinni helmingur á við áskriftargjöld að Stöð 2. Hafa menntamálaráðherra og meirihluti Alþingis staðið gegn eðlilegum hækkunum afnotagjalda í takt við þróun verðlags og launa og bera þannig ábyrgð á veigamestu orsök þess fjárhagsvanda sem stofnunin á við að glíma.
Í öðru lagi var Ríkisútvarpinu gert að taka á sig kostnað vegna lífeyrisskuldbindinga á sínum tíma og hefur það í för með sér allt að 200 milljón kr. útgjöld árlega.
Loks er tilfinnanlegur samdráttur í tekjum af auglýsingum sem hefur í för með sér a.m.k. 100 millj. kr. samdrátt tekna á þessu ári. Þannig stefndi í a.m.k. 300 millj. króna halla í árslok og í ljósi þess sáu stjórnendur sig knúna til niðurskurðar í dagskrá og þjónustu.
Útvarpsráði er fyrst og fremst ætlað að leggja línur í dagskrá og hafa síðasta orðið um þau efni. Það verður því að taka ábyrgð á aðgerðum sem hafa í för með sér breytingar á dagskrá t.d. vegna fjárskorts, en tillögur að slíku koma frá stjórnendum. Það var ekki skemmtiverk að standa að þessum aðgerðum sem komu niður á öllum deildum Ríkisútvarpsins, og eins og vænta mátti þótti aðstandendum hverrar deildar fyrir sig sinn hlutur sýnu verstur.
Mesti hvellurinn varð þó út af niðurskurði til svæðisstöðvanna sem varð til þess að leggja varð niður morgunútsendingar þeirra. Síðar kom svo í ljós að sú ráðstöfun leiddi ekki af sér þann sparnað sem ætlaður var vegna þess að þar með töpuðust staðbundnar auglýsingar sem hafa að miklu leyti staðið undir kostnaði, en ráðsmönnum var ekki gerð grein fyrir þeim þætti málsins fyrr en síðar. Varð því að ráði að taka morgunútsendingar stöðvanna upp aftur frá 1. desember nk.
Steingrímur J. Sigfússon tók málið upp utan dagskrár á Alþingi og deildi hart á menntamálaráðherra fyrir að standa þannig að málum að uppbyggingarstarf svæðisstöðvanna væri að koðna niður. Ráðherra þóttist hins vegar vilja þeim allt hið besta og varpaði fram þeirri hugmynd að flytja Rás 2 norður til Akureyrar og breyta henni í miðstöð svæðisstöðvanna. Nokkrir þingmanna lýstu sig jákvæða gagnvart hugmyndinni. Og þar með var boltinn rúllaður af stað og ráðherra sendi útvarpsráði bréf og bauð því að skoða málið og skila áliti fyrir 1. desember á þessu ári. Þau tímamörk ein og sér segja sitt um viðhorf ráðherrans til samráðs og góðra vinnubragða.
Ýmsir hafa tjáð sig um þessa hugmynd ráðherra í fjölmiðlum og manna á meðal og þá einkum þeir sem vinna að dægurtónlist á einhvern hátt. Er ljóst að þeir líta á Rás 2 sem einu frjálsu útvarpsstöðina, sem sinnir að einhverju marki flutningi dægurtónlistar og þeim hinum sömu líst ekki á flutninginn og telja að þar með væri í rauninni verið að leggja Rásina niður og afhenda einkastöðvunum fánann. Þær eru hins vegar að margra dómi allar meira og minna rammflæktar í hagsmunatengsl og mundu aldrei sinna flutningi dægurtónlistar af þeim metnaði sem Rás 2 hefur gert.
Ekki er að undra þótt fólk bregðist við á þennan hátt þegar litið er til þess sem menntamálaráðherra sagði í umræðum á Alþingi, og ítrekaði síðar í bréfi til útvarpsráðs, að hann teldi eðlilegt að hugað yrði að nýjum úrræðum til að efla starf RÚV á landsbyggðinni og m. a. á þann veg “…að Rás 2 verði breytt í miðstöð svæðisútvarpa með aðsetri á Akureyri.” Og fólk spyr: Hvernig á að breyta? Hvað á að flytja? Á að skáka til starfsfólki og flytja norður allt plötusafnið sem á ekki sinn líka? Er dægurtónlistarhlutverk Rásar 2 í uppnámi?
Útvarpsráð hefur þegar fjallað um málið á 2 fundum. Á hinum fyrri var lögð fram greinargerð frá útvarpsstjóra um þróun Rásar 2 og álitsgerð forstöðumanna svæðisstöðvanna þriggja, á Akureyri, Ísafirði og Egilsstöðum. Greinargerð útvarpsstjóra leiðir m.a. í ljós vinsældir svæðisútsendinga og jafnframt að svæðisstöðvarnar leggja drjúgt til dagskrár á landsrásunum. Hins vegar hefur þrengt að þeim að undanförnu og starfsmönnum m.a. fækkað úr tíu í sex á Akureyri, sem rímar ekki beinlínis við skyndilegan áhuga æðsta yfirmanns RÚV á eflingu svæðisstöðvanna.
Forstöðumenn svæðisstöðvanna gera sér augljóslega grein fyrir því að hugmynd menntamálaráðherra gengur ekki upp. Þeir sjá hins vegar tækifærið sem nú gefst til að endurnýja og efla svæðisstöðvarnar og Rás 2 með aukinni samvinnu og betri tengingu. “Að mati forstöðumanna svæðisstöðva er þungamiðja þessa máls ekki að flytja Rás tvö norður til Akureyrar, heldur að auka hlut svæðisstöðvanna í dagskrá rásarinnar”, segir í áliti þeirra og skal tekið undir það.
Á fundi útvarpsráðs 6. nóv. sl. kom fram að formaður, Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, hafði að beiðni ráðsins átt fund með menntamálaráðherra til að freista þess að fá eitthvað nánar um hugmyndir hans í þessu efni. Ekkert var á þeirri frásögn að græða, en formaður lagði til að útvarpsstjóri setti á laggirnar nefnd til að skoða málið og móta tillögur og að fulltrúi Framsóknarflokksins, Gissur Pétursson, yrði fulltrúi ráðsins í nefndinni. Undirrituð lagði til að fulltrúar ráðsins yrðu tveir og reyndar var Mörður Árnason snöggur að bjóða sig fram til þess, en meiri hluti ráðsins hafnaði því og studdi tillögu formanns.
Vonandi verður hægt að nýta þetta tækifæri til að efla bæði Rás 2 og svæðisstöðvarnar, en vitlausasta leiðin til þess væri að þrengja Rás 2 niður í það að vera bara miðstöð svæðisstöðvanna eins og augljóslega felst í hugmynd menntamálaráðherra.
Þess ber svo að geta að í þessu máli sem endranær hef ég lagt megináherslu á að málin séu skoðuð í víðtæku samráði og allar breytingar gerðar í nánu samstarfi við þá sem best þekkja til, þ.e. almennt starfsfólk Ríkisútvarpsins. Því miður er hætta á hinu gagnstæða. Mikill misbrestur í samskiptum stjórnenda og almenns starfsfólks er einmitt það mein sem er að naga stofnunina innan frá og hættulegri framtíð hennar en fjárhagsvandinn sem lýst var í upphafi máls.