Landsfundur Samfylkingarinnar kom þannig fyrir sjónir utanaðkomandi að þar hafi farið fram býsna vel heppnuð hópefling. Fundurinn var greinilega vel sóttur, formaðurinn fékk mikinn stuðning og styrk, fundargestir virðast hafa lagt sig fram um að sýna samheldni og eindrægni, palestínski heiðursgesturinn vakti mikla athygli og samúð. Þannig leit þetta mjög þokkalega út utan frá séð. Þegar dýpra er skyggnst er þó margt umhugsunarvert. Formaðurinn talaði um í ræðu sinni að landsfundur stjórnmálaflokks væri í senn “samstilling, mannfagnaður og átakamiðja”. Samstillingin virðist hafa tekist á þessum landsfundi, mannfagnaður var þetta sennilega góður, en átakamiðjan var greinilega send út í móa.
Ekkert kom á óvart í ræðu formanns sem virtist hönnuð og flutt til þess að laða fram klapp á réttum stöðum. Það tókst út af fyrir sig þokkalega að því er virtist af fréttamyndum, og nú hef ég mannað mig upp í að lesa alla ræðuna á heimasíðu Samfylkingarinnar og þótt Össur sé ágætur ræðumaður er ég sannfærð um að ekki hefur hann verið einn í ráðum við ræðusmíðina.
En þótt mikið væri klappað á ég bágt með að trúa að allir hafi fagnað af heilum hug, t.d. þegar formaðurinn ítrekaði stuðninginn við utanríkisráðherra með tilliti til aðgerðanna í Afganistan. Sú afstaða hugnast ekki öllum á þeim bæ, svo mikið veit ég.
Þá var nálgun foringjans að umhverfismálum ótrúlega aumleg þar sem þeim var einfaldlega sópað til hliðar. Og enn aumlegra var þegar nýkjörinn formaður framkvæmdastjórnar reyndi í sjónvarpsviðtali að verja það sem formaðurinn sagði í ræðu sinni um afstöðuna til Kárahnjúkavirkjunar: “Varðandi virkjun við Kárahnjúka eru uppi ýmis sjónarmið í samfélaginu öllu. Nú er það að mínu mati meginmálið að láta feril umhverfismats ganga sinn gang og skila niðurstöðum sem hægt er að byggja á hina pólitísku afstöðu. Þetta var sameiginleg og einróma ákvörðun þingflokks og framkvæmdastjórnar á fundi 9.september. Ég veit að hjá þeim félögum okkar sem láta sig Kárahnjúkavirkjun mestu varða er sátt um þessa leið.” Á að trúa þessu? Hafa flokksmenn og foringjar þeirra ekki lesið matsskýrslu Landsvirkjunar og niðurstöður Skipulagsstofnunar? Halda menn virkilega að umhverfisráðherra muni leggja fram einhver þau rök sem réttlæti þau hrikalegu náttúruspjöll sem lýst er í þessum gögnum? Og hvað svo ef umhverfisráðherra finnur að eigin mati boðleg rök hjá þeim fagmönnum, erlendum og innlendum, sem ég veit að eru nú í vinnu hjá henni að leita þeirra? Ætla Össur, Þórunn Sveinbjarnar og Stefán Jón að kyngja þeim? Af landsfundinum bárust engar fréttir af heitum umræðum um þessi mál.
Menn virðast heldur ekki hafa kippt sér áberandi upp við mótsagnir í málflutningi formannsins, eins og þær að tala fyrir skattalækkunum samtímis því að krefjast aukinna fjárframlaga til menntunar- og velferðarmála og aukins aðhalds í ríkisfjármálum án þess að skýra það á nokkurn hátt hvar það aðhald ætti að koma fram.
Þannig var ýmislegt gamalkunnugt í ræðu formanns og ekki allt jafn gott og fagurt og sumt jafnvel hlægilegt, eins og þegar hann talaði um hinn “gullna þríhyrning” sem ætti að vera myndaður af kröftugri menntastefnu, framsýnni efnahagsstefnu og góðri velferðarþjónustu. Skyldi þeim fundargestum ekki hafa brugðið sem vita að þetta heiti “gullni þríhyrningurinn” er notað um eiturlyfjahringa í Suðaustur-Asíu?
Fundarmenn létu sér hins vegar allt þetta vel líka og þannig var tónninn sleginn fyrir þennan átakalitla mannfagnað. Ef upp komu ágreiningsmál var þeim einfaldlega vísað til frekari umfjöllunar og síðari tíma afgreiðslu. Ekki ætla ég þó að gagnrýna þann farveg sem Evrópumálin voru sett í, hann er auðvitað afskaplega lýðræðislegur. Og ég hef fulla samúð með fylkingarfólki í nafnamálinu. Nafn stjórnmálaflokks skiptir nefnilega heilmiklu máli og betra að það segi til um innihaldið. Eðlilegast væri t.d. í þessu tilviki að viðurkenna staðreyndir og samþykkja tillögu Guðmundar Árna og Lúðvíks. Krötum hefur nefnilega tekist bærilega það sem þeir ætluðu sér frá upphafi, þ.e. að stækka gamla Alþýðuflokkinn. Því fyrr sem menn gangast við eigin innræti þeim mun betra.