Flest bendir nú til þess að Siv Friðleifsdóttur umhverfisráðherra takist að losa sig við Náttúruverndarráð, sem hefur verið henni þyrnir í augum allt frá upphafi hennar ráðherratíðar. Frumvarp þess efnis að ráðið verði lagt niður er nú til meðferðar í umhverfisnefnd Alþingis og virðist eiga sér fáa til varnar. Það á sér sínar skýringar. M.a. ræður vafalaust nokkru að bæði frjáls félagasamtök og aðrir aðilar á sviði náttúruverndarmála renna hýru auga til þessara örfáu milljóna sem ráðið hefur haft til umráða og vonast eftir einhverjum molum á sitt borð, enda hefur það verið gefið í skyn. Hætt er þó við að hverjum og einum finnist lítið koma í sinn hlut þegar upp verður staðið.
Aðdragandi þessa máls er sá að þegar Náttúruvernd ríkisins var sett á stofn tók hún yfir stóran hluta af verkefnum Náttúruverndarráðs, en ráðið fékk nýtt hlutverk og var þá fyrst og fremst ætlað, eins og fram kemur í heiti þess, að vera umhverfisráðherra, Náttúruvernd ríkisins og öðrum til ráðgjafar um málefni náttúruverndar. Þá hefur ráðið m.a. haft með höndum undirbúning og umsjón Náttúruverndarþings, umsjón Friðlýsingarsjóðs o.fl.
Reyndar finnst mörgum sem ástæða væri til að skerpa og skýra hlutverk og verkefni Náttúruverndarráðs og m.a. að tryggja skilvirkari tengsl milli ráðsins og Náttúruverndar ríkisins. Náttúruverndarráð hefur rætt það atriði sérstaklega og telur að skýrt skilgreint samstarf milli ráðsins og Náttúruverndar ríkisins yrði til þess að styrkja náttúruvernd á Íslandi. Í leiðinni mætti svo velta vöngum yfir heiti Náttúruverndar ríkisins sem gjarna hefði mátt nefna öðru nafni vegna þess ruglings sem oft á sér stað í umfjöllun um náttúruverndarmál.
Minna hefur orðið úr starfi ráðsins en að var stefnt með lagabreytingunum. Ástæða þess er fyrst og fremst sú hversu illa hefur verið að ráðinu búið, rekstrarfé og allur aðbúnaður af skornum skammti. Mestu ræður afstaða umhverfisráðherra sem hefur lengst af haft horn í síðu ráðsins og tekið alla gagnrýni þess á störf hennar óstinnt upp.
Upp úr sauð þegar ráðinu varð það á sumarið 1999 að senda mjög gagnrýnið álit til fjölmiðla áður en ráðherra hafði gefist kostur á að kynna sér það. Hefur sú uppákoma vafalaust átt sinn þátt í því að á Náttúruverndarþingi 28. – 29. janúar 2000 varpaði ráðherra því inn í umræðuna að frjáls félagasamtök hefðu í raun tekið við hlutverki Náttúruverndarráðs og spurning hvort ráðið væri ekki orðið óþarft.
Sérstakur umræðuhópur fjallaði um þetta álitaefni og komst að niðurstöðu sem staðfest var í ályktun Náttúruverndarþings þar sem sagði m.a.:
“Náttúruverndarþing telur að Náttúruverndarráð hafi gegnt veigamiklu hlutverki í umhverfis- og náttúruverndarmálum og þrátt fyrir ýmsar breytingar í stjórnskipan þessa málaflokks eigi ráðið að starfa áfram. Helstu verkefni ráðsins eigi að vera stefnumörkun og umfjöllun um grundvallaratriði í umhverfis- og náttúruvernd sbr. 4. og 9. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999. Núverandi skipan ráðsins er heppileg þar sem saman fara tilnefning stofnana og kosning á Náttúruverndarþingi. Til að treysta góð tengsl ráðsins við stjórnvöld er heppilegt að umhverfisráðherra skipi formann. Mjög brýnt er að ráðinu séu tryggð örugg starfsskilyrði og fjármagn.”
Jafnframt lagði þingið áherslu á nauðsyn þess að styrkja stöðu frjálsra félagasamtaka og fylgja alþjóðlegum samþykktum um þau efni eftir í íslenskri löggjöf.
Frumvarp umhverfisráðherra gengur þannig þvert gegn skýrum vilja Náttúruverndarþings varðandi hlutverk og stöðu Náttúruverndarráðs. Það hefur raunar lengi verið ljóst að Siv Friðleifsdóttir vill ráðið feigt og hennar er mátturinn! Hún fetar dyggilega í fótspor þeirra samráðherra sinna sem bregðast þannig við gagnrýni eða afstöðu sem þeim er ekki þóknanleg að slíkur ráðgjafi sé ófaglegur og megi af leggjast. Siv gengur hins vegar lengra en fyrirmyndirnar, enda kannski ekki verið að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur.
Að mínu mati er það til skaða ef Náttúruverndarráð verður lagt niður og þar með þaggað niður í einni þeirra radda sem nú mynda kór til varnar íslenskri náttúru. Umræðan hér á landi um náttúruvernd er ekki svo langt á veg komin að við megum við slíku. Frjáls félagasamtök eru nauðsynleg og brýnt að styrkja þau og styðja, en þau geta ekki komið í stað stjórnskipaðs ráðs með skilgreint hlutverk og skyldur.