Snemma árs 2000 lagði ég það til á fundi í útvarpsráði að leitað yrði álits Lagastofnunar Háskóla Íslands á réttmæti vinnubragða útvarpsstjóra við gerð samnings um árangursstjórnun. Tillagan var samþykkt en ekki var sopið kálið þótt í ausuna væri komið því álitið lét á sér standa. Þau undur og stórmerki gerðust svo loks í febrúar sl. að álitið barst rúmum tveimur árum eftir samþykkt útvarpsráðs. Álitið olli mér vonbrigðum af ýmsum ástæðum, enda þótt tekið væri í megindráttum undir þá gagnrýni sem fram hafði komið á sínum tíma. Um álitið var svo fjallað á fundi ráðsins 19. mars sl. Formaður ráðsins lýsti ánægju með það, en nokkrir ráðsmanna höfðu ýmislegt við það að athuga. Ásamt Önnu K. Gunnarsdóttur og Merði Árnasyni lagði ég fram eftirfarandi bókun um málið.
“Í byrjun árs 2000 lagði útvarpsstjóri fram á fundi útvarpsráðs samning um árangursstjórnun sem hann hafði gert við menntamálaráðherra og undirritað 30. desember 1999. Ekkert samráð var haft um gerð samningsins við útvarpsráð sem hefur þó það hlutverk lögum samkvæmt að taka „ákvarðanir um hversu útvarpsefni skuli haga í höfuðdráttum innan marka fjárhagsáætlunar“. Með tilliti til þessa þótti sumum ráðsmanna sem útvarpsstjóri hefði farið út fyrir valdsvið sitt og á fundi útvarpsráðs 18. janúar árið 2000 var samþykkt að leita álits Lagastofnunar Háskóla Íslands á því hvort samningurinn væri í samræmi við útvarpslög þar sem útvarpsráð kom þar hvergi nærri. Af ýmsum ástæðum lítur umbeðin álitsgerð nú loksins dagsins ljós, að rúmlega 2 árum liðnum og þegar samningurinn sem um ræðir er runninn út. Þá hefur sú breyting orðið á að í stað Lagastofnunar H.Í. tók fyrrverandi lagaprófessor, Sigurður Líndal, að sér verkið og kom þannig aðeins einn að álitsgerðinni en ekki tveir eins og reglur Lagastofnunar kveða á um. Rétt er þó að fram komi að útvarpsráð samþykkti þá ráðstöfun þar eð það virtist eina leiðin til að fá einhverja niðurstöðu. Þessi atriði rýra hins vegar gildi álitsgerðarinnar.
Álitsgjafi bendir ítrekað á að markmið árangurssamningsins séu í samræmi við lög um Ríkisútvarpið. Um það var ekki spurt og aldrei um það deilt. Rétt er að minna á að sú gagnrýni sem fram kom vegna samningsins snerist ekki um efni hans einkum, heldur hvernig að honum var unnið. Undir þá gagnrýni er tekið í lokaorðum álitsins. Niðurstaða álitsgjafa er að útvarpsstjóri hafi haft fulla heimild til að gera samninginn, en að það hefði verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti að kynna samninginn fyrir útvarpsráði og fá álit þess. Niðurstaðan er þannig í veigamiklum atriðum samhljóma áliti og gagnrýni meirihluta ráðsmanna þegar málið var kynnt á sínum tíma. Þó vekur undrun hversu vægt er til orða tekið í ljósi erindis um stöðu Ríkisútvarpsins innan stjórnkerfisins sem álitsgjafi, Sigurður Líndal, flutti á starfsmannaþingi Ríkisútvarpsins í apríl 1993. Í því erindi kom skýrt fram að stjórnsýsla Ríkisútvarpsins væri tvíþætt, annars vegar dagskrárstjórnin þar sem fulltrúum löggjafarvaldsins, útvarpsráði kjörnu á Alþingi, hefur verið tryggð yfirstjórn og hins vegar annar rekstur sem lýtur yfirstjórn útvarpsstjóra sem fulltrúi framkvæmdavaldsins, menntamálaráðherra, skipar. Útvarpsráð hefði bæði úrskurðarvald og reglusetningarvald sem væri til marks um að það hefði með höndum stjórnvald. Í ljósi þess hefði mátt ætla að niðurstaða álitsgjafa væri skýrt og afdráttarlaust sú að útvarpsráð hefði átt að koma með afgerandi hætti að gerð fyrrnefnds samnings útvarpsstjóra og menntamálaráðherra sem fjallar að stórum hluta frá ýmsum hliðum um framboð dagskrárefnis.
Við teljum enn sem áður að útvarpsstjóra beri skylda til að leggja samning eins og þann sem hér um ræðir undir útvarpsráð.
Í báðum skýringartextum álitsgjafa, bæði frá 1993 og 2002, kemur fram að valdmörk útvarpsstjóra og útvarpsráðs eru á ýmsan hátt óljós. Sú staða leggur aðilum á herðar þá skyldu að taka mjög tillit hvor til annars við yfirstjórn Ríkisútvarpsins. Það er von okkar að útvarpsstjóri gæti þessa í framtíðinni.”