Ofbeldi virkjanasinna

Notalegt páskafrí er að renna sitt skeið og við tekur hversdagurinn með öllu sínu amstri. Þingfundir hefjast að nýju á miðvikudag og nú ætlar ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn að beita afli sínu og freista þess að troða lagaheimild til Kárahnjúkavirkjunar í gegnum þingið. Og nú lítur út fyrir að stuðningurinn verði enn breiðari á Alþingi en áður var talið. Samfylkingin kyssir á tær stjórnarherranna og býður upp á obbolítinn þjóðgarð í skiptum fyrir víðáttumestu náttúruspjöll af mannavöldum sem nokkru sinni hefur verið efnt til.

Ofurkapp öfgafullra stórvirkjana- og stóriðjusinna, stjórnmálamanna sem framkvæmdaraðila, virðist eiga sér lítil takmörk. Þeir þrjóskast við og þverskallast, þeir hagræða sannleikanum, neita að svara spurningum um forsendur og arðsemi og ljúga jafnvel blygðunarlaust ef þeim býður svo við að horfa. Þeir moka peningum í undirbúning, samningaferli og beinar framkvæmdir og láta alla gagnrýni sem vind um eyru þjóta, enda munar um minna en stuðning heillar ríkisstjórnar og flokka hennar.

Ofbeldi er rétta orðið yfir þessi ósköp. Ofbeldi af hálfu andstæðinga íslenskrar náttúru, ofbeldi framkvæmdaóðra verkfræðinga og vinnuvélafíkla, ofbeldi valdasjúkra stjórnmálamanna og meðvitundarlítilla aftaníossa þeirra.

Jafnvel þegar álversdraumurinn bíður hnekki er bitið í skjaldarrendur sem aldrei fyrr. Eftir allt bröltið og stóru orðin, loforðin og fullyrðingarnar er ekkert fast í hendi með orkusölu frá þessu virkjanaskrímsli. Norskir stóriðjufíklar reyndust ekki áhugasamari en svo eftir allar undirskriftirnar og alla fundina og ferðalögin fram og aftur, að allt í einu hættu þeir við og voru svo ekki almennilegri í garð “frænda” sinna en svo að formlega yfirlýsingu þurfti að draga út úr þeim með töngum. Og þá finnst nú ærið mörgum út í hött að ætla að þröngva Alþingi til að samþykkja heimild fyrir risavirkjun meðan enginn kaupandi er að orkunni. En Halldór og Valgerður og Arnbjörg og Einar Már þurfa á því að halda að geta veifað einhverjum árangri framan í kjósendur sína, og þá er jú eitt stykki virkjunarheimild í lögum skárri en ekkert.

Þess vegna lítur út fyrir að lagafrumvarpið um heimild til Kárahnjúkavirkjunar og reyndar einnig til virkjunar í Bjarnarflagi og til stækkunar Kröfluvirkjunar verði samþykkt og lögfest fyrir þinglok í þessum mánuði, enda engir til varnar í þinginu aðrir en þingmenn vinstri grænna. Málflutningur þeirra er ljósið í myrkrinu. Þeir berjast hetjulega með rökin öll á hreinu. En röksemdir hrína ekki á Halldóri og félögum, og Valgerður ypptir bara öxlum og andvarpar yfir ræðuhöldum vinstri grænna. Hún telur sig hafa efni á því og hlustar hvorki á rök né áskoranir samtaka náttúruverndar í landinu.