“Fúlir á móti” Vinstri grænum

Þingmenn Vinstri grænna hafa alveg frá upphafi haldið uppi harðri en málefnalegri stjórnarandstöðu og óneitanlega oft gert stjórnarflokkunum lífið leitt. Ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna hafa í raun ekki átt önnur svör en þau að reyna að hæða þingmenn VG, leita leiða til að gera málflutning þeirra tortryggilegan og jafnvel hlægilegan, eins og þreyttir brandarar Framsóknarmanna um fjallagrös og hundasúrur eru til vitnis um. Síbyljan um að Vinstri grænir séu á móti öllu, jafnvel “fúlir á móti” þegar menn vilja vera alveg sérstaklega fyndnir, er þó hvað lífseigust og væntanlega notuð á þeirri gamalkunnu forsendu að ef eitthvað er endurtekið nógu oft verði því trúað.

Við þennan málflutning er býsna margt og mikið að athuga og þá fyrst og fremst það hversu röng sú staðhæfing er að Vinstri grænir séu á móti öllu. Staðhæfingunni mætti allt eins og jafnvel með meiri rétti snúa algjörlega við og fullyrða að einkum og sér í lagi stjórnarflokkarnir séu nánast í einu og öllu á móti hverju því sem Vinstri grænir hafa fram að færa.

Staðreyndin er auðvitað sú að á Alþingi Íslendinga er unnið að mörgum málum í fullkomnu bróðerni og þau mál líklega nokkru fleiri en hin sem ágreiningur er um. Um það vitna málalok og niðurstöður undanfarinna þinga. Þingmenn Vinstri grænna hafa lagt slíkum málum lið eins og aðrir. En skárra væri nú ef ekki skærist alloft í odda með flokkum með svo gjörólíka stefnu og sýn á samfélagið sem raunin er með Vinstrihreyfinguna – grænt framboð annars vegar og stjórnarflokkana hins vegar. Það væri nú meiri lufsuhátturinn ef þingmenn Vinstri grænna létu það möglunarlítið yfir sig og aðra ganga þegar ráðist er að náttúru landsins, leikreglur lýðræðisins vanvirtar, upplýsingum haldið frá Alþingi, vegið að rótum samhjálpar í íslensku samfélagi eða gagnrýnislaust lapið upp hvaðeina sem vestrænum þjóðarleiðtogum dettur í hug að segja og gera þegar alþjóðamálin eru annars vegar. Í slíkum málum m.a. hafa þingmenn VG haldið uppi hörðu andófi með kröftugum málflutningi sem stjórnarsinna svíður undan. Oft eiga þeir ekki önnur viðbrögð í handraðanum en fullyrðingarnar um að Vinstri grænir séu á móti öllu.

En hvað um þá sjálfa? Það vantar ekki að í hita umræðna kalla stjórnarliðar eftir hugmyndum Vinstri grænna og segja þá engar hafa og er þá harla augljóst að þeir leggja sig lítið eftir því að kynna sér þingmál annarra en sín eigin. Þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram fjölda þingmála um hin ólíkustu efni, umhverfis- og náttúruvernd, menntamál, heilbrigðismál og önnur velferðarmál, byggðamál, atvinnumál, utanríkismál, skattamál, samgöngumál og þannig mætti áfram telja. Mörg þessara mála eru til vitnis um ítarlega unna heildarsýn í viðkomandi málaflokki, s.s. um atvinnuþróun á grundvelli sjálfbærrar þróunar og uppbyggingu velferðarþjónustu svo að dæmi séu nefnd. Það hentar hins vegar ekki þingmönnum annarra flokka að ræða tillögur Vinstri grænna á málefnalegan hátt, heldur stökkva þeir viðstöðulaust í þá fúlu pytti að gera nákvæmlega það sem þeir saka aðra um. Þeir eru einfaldlega á móti öllu sem Vinstri grænir hafa til málanna að leggja.