Aðeins tvö ár eru liðin frá því náttúruverndarsinnar unnu hörðum höndum að verndun Eyjabakkanna sem meirihluti Alþingis og aðrir stórvirkjanasinnar hugðust sökkva undir vatn sem einn lið í svokallaðri Fljótsdalsvirkjun. Með henni skyldi framleiða nægilegt afl til þess að knýja fyrsta hluta risaálvers í Reyðarfirði og ljóst að í framhaldi af því yrði stefnt að enn frekari náttúruspjöllum á hálendinu norðan Vatnajökuls og víðar til þess að sækja meira afl til álvinnslunnar.
Baráttan fyrir verndun Eyjabakkanna vannst að lokum þótt stjórnvöld vilji að sjálfsögðu ekki viðurkenna að það sé fyrir áhrif náttúruverndarsinna sem þessu mikilvæga svæði er hlíft að mestu leyti í þeim áformum sem nú eru á borðinu. Náttúruverndarsinnar gátu ekki lengi andað léttar, því ekki var verndun Eyjabakkanna fyrr í höfn en farið var að vinna að útfærslu hrikalegri virkjanahugmynda en nokkru sinni fyrr, svonefndri Kárahnjúkavirkjun. Um þau virkjanaáform vísast til fyrri greina minna í minnisbók, m.a. athugasemda við matsskýrslu Landsvirkjunar 7. júní sl., og í greinasafni, þar sem finna má greinina “Skýrslan er áfellisdómur” frá 8. 6. sl. Með tilliti til skýrslu Landsvirkjunar þurfti engum að koma á óvart að Skipulagsstofnun gaf þessum hugmyndum algjöra falleinkunn í úrskurði sínum 1. ágúst sl.
Svo sem vænta mátti varð úrskurður Skipulagsstofnunar ríkisstjórninni, meirihluta Alþingis og öðrum stórvirkjanasinnum tilefni hneykslunar og stóryrða. En þeim brá ekki öllum jafn mikið. Þeir vita hvar valdið liggur og víla ekki fyrir sér að nota það. “Það er stefna stjórnvalda að þessi virkjun verði byggð og þessi úrskurður Skipulagsstofnunar breytir engu þar um,” sagði Halldór Ásgrímsson í DV 3. ágúst sl. Í þeim orðum birtist valdhrokinn grímulaus og það var deginum ljósara að nú yrði Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra að finna “fagmenn” til að snúa við úrskurði Skipulagsstofnunar. Og það gekk eftir.
Úrskurður ráðherrans var kynntur 20. desember sl. og var svo sem búast mátti við. Umhverfisráðherra fellst á fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir með nokkrum skilyrðum sem vissulega skipta máli, en vega þó ákaflega létt í svo stórkarlalegu samhengi. Nokkur þeirra atriða voru jafnframt þess eðlis að þau virtust í rauninni ekki sett fram í fullri alvöru, heldur fremur sem eins konar skiptimynt svo að umhverfisráðherra gæti hafnað þeim og með því slegið um sig sem talsmaður verndarsjónarmiða.
Sérstaka athygli vekur að umhverfisráðherra hafnar því að vega þjóðhagsleg áhrif upp á móti neikvæðum umhverfisáhrifum. Landsvirkjun dró ekki dul á það í sinni skýrslu að framkvæmdirnar hefðu í för með sér veruleg umhverfisáhrif, en taldi þau “..innan viðunandi marka í ljósi þess efnahagslega ávinnings sem væntanleg virkjun mun skila þjóðinni…” Skipulagsstofnun tók þannig á þessari fullyrðingu að fyrir henni skorti bæði gögn og röksemdir. Umhverfisráðherra setur ofan í við báða aðila.
Ég er sammála túlkun umhverfisráðherra á þessu atriði. En jafnframt vekur hún alvarlega umhugsun og ugg. Þrátt fyrir fáeina agnúa sem ráðherra sníður af tillögum Landsvirkjunar í úrskurði sínum þá er hún með honum að fallast á virkjun sem ein og sér hefði í för með sér meiri umhverfisspjöll, jarðrask og óafturkræfar breytingar á landslagi og náttúrufari en nokkru sinni hefur verið efnt til hér á landi og þó víðar væri leitað. Með framkvæmdunum væri stærsta ósnortna víðerni Evrópu raskað og möguleikum til annars konar nýtingar spillt. Verði ráðist í framkvæmdirnar verður sú ákvörðun aldrei aftur tekin, svæðið norðan Vatnajökuls verður aldrei samt. Á þetta fellst umhverfisráðherra án þess einu sinni að reyna að réttlæta það með efnahagslegum og þjóðhagslegum ávinningi.
Við hljótum því að spyrja: Hvað er þá til varnar íslenskri náttúru? Um hvað telur umhverfisráðherra sér skylt að standa vörð, ef ekki “náttúruundur á landsmælikvarða og fágæt á heimsmælikvarða” að mati Náttúruverndar ríkisins? Er eitthvað á hálendi Íslands eða láglendi sem umhverfisráðherra vill fyrir hvern mun varðveita? Hvers konar umhverfisspjöll eru svo stór í augum umhverfisráðherra að þeim beri að hafna?
Hér sem oft áður leitar á hugann kvæði Steins Steinarr, Landsýn:
“Ísland, minn draumur, mín þjáning, mín þrá,
mitt þróttleysi og viðnám í senn.
Þessi vængjaða auðn með sín víðerni blá,
Hún vakir og lifir þó enn.
Sjá, hér er minn staður, mitt líf og mitt lán,
Og ég lýt þér, mín ætt og mín þjóð.
Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán,
Mín skömm og mín tár og mitt blóð.”