Flokkarnir skoða sig í spegli

Stjórnmálaflokkarnir efna einn af öðrum til landsfundar þetta haustið. Sjálfstæðisflokkurinn hóf leikinn í Laugardalshöllinni um miðjan október, Vinstri grænir héldu sinn fund í Borgartúni 6 skömmu síðar og Samfylkingin heldur sinn landsfund nú um helgina og dugir ekki minna en Hótel Saga með ýmsum sölum. Er býsna fróðlegt að bera þessa landsfundi saman, umgjörð þeirra, uppsetningu og innihald. Það þarf hvorki mikinn speking né spákonu til að lesa sitt af hverju út úr þessum þáttum um flokkana sjálfa, störf þeirra og stefnu, og kannski ekki síst hvernig þeir sjálfir líta á sig. Segja má að þeir séu að skoða sig í spegli. Og ég varð þess mjög vör að þátttakendum í landsfundi VG líkaði það sem þeir sáu.

Vinstri grænir héldu annan landsfundinn á sinni stuttu en viðburðaríku ævi dagana 19. – 21. október sl. Sá fyrsti var haldinn á Akureyri í október 1999 og var afar skemmtilegur og vel heppnaður, enda glatt yfir fólki vegna góðs árangurs í kosningunum þá um vorið. Gaman er að bera þessa tvo fyrstu landsfundi saman og skynja þann aukna kraft og sjálfstraust sem einkenndi síðari fundinn. Gleðin var engu minni en í upphafi, enda hefur hreyfingunni sífellt aukist máttur og megin og stuðningur vaxið meðal kjósenda.

Síðustu vikurnar fyrir fundinn 19. – 21. október sl. minntu helst á ærlega síldarsöltunartörn hjá okkur sem stóðum í undirbúningnum, en allt small saman á síðustu stundu eins og venjan er hjá okkur Frónbúum, hvort sem um er að ræða eitt stykki Smáralind eða landsfund Vinstri grænna, án þess að ég sé nú að bera slíkt saman. Fundurinn sjálfur heppnaðist með miklum ágætum að allra dómi, var starfsamur og skemmtilegur og skilaði baráttunni fram á veginn, eins og til var ætlast.

Salurinn í gömlu Rúgbrauðsgerðinni kom landsfundargestum þægilega á óvart, hafði gjörbreytt um svip og öllu þar við snúið. Glæsilegir borðar með merki VG prýddu súlur, veggi og ræðupúlt, og að baki því var breiðtjald með stórfallegri mynd af Langasjó. Konurnar í Vox feminae undir stjórn Margrétar Pálmadóttur slóu tóninn þegar þær gengu syngjandi inn í salinn og dreifðu blómblöðum á borðin. Allt yfirbragð sýndi og sannaði hvað hægt er að gera þegar hugmyndaríkar konur og laghentir karlar leggja saman krafta sína.

Kjörnir fulltrúar með atkvæðisrétt voru nær 160 talsins, en auk þeirra sóttu fjölmargir aðrir fundinn sem var öllum opinn. Það vakti athygli margra að Styrmir Gunnarsson ritstjóri Morgunblaðsins var viðstaddur setningarathöfnina og fylgdist síðan með almennum umræðum langt fram eftir kvöldi. Daginn eftir voru leiðari blaðsins og miðopna helguð vinstri grænum.

Sérstök dagskrá á laugardaginn um þema landsfundarins, “Byggjum framtíð á fjölbreytni”, laðaði einnig að sér marga gesti. Þar sátu 6 gestir á palli og lögðu fjölbreytt viðhorf í púkkið svo að úr varð mjög skemmtileg umræða. Þá má ekki gleyma Kristínu Halvorsen formanni SV í Noregi, sem heillaði bæði landsfundargesti og fjölmiðla.

Áhrifin af þessum fundi eru svona enn að gerjast í kollinum á mér og ég velti því fyrir mér hverjar eru helstu ástæður þess að Vinstri grænum vegnar svo vel. Menn hafa óneitanlega misjafnar væntingar til stjórnmálastarfsemi og misjafnar skoðanir á því hvað skiptir máli. Eru það stefnumálin eða eru það talsmenn þeirra?

Umfjöllun fjölmiðla um stjórnmál markast býsna mikið af áhuga þeirra á ágreiningi og átökum, og líklega er nokkuð til í því að það sé vænlegast til að vekja athygli. Slíkt finna þeir reyndar ekki innan raða Vinstri grænna, en þeim mun meira af hörðum skoðanaskiptum þeirra við fulltrúa annarra flokka.

Sama er að segja um eindregna kröfu fjölmiðla og fjöldans um sterka foringja, og er það mat margra að sterkur leiðtogi Vinstri grænna eigi stóran hlut í velgengni VG. Ég viðurkenni þá staðreynd, en um leið veldur hún mér nokkru angri. Mér finnst þessi krafa og fullyrðingar um að flokkurinn byggist bara á einum manni eða kannski tveimur bæði ósannar og ósanngjarnar. Góður leiðtogi skiptir miklu, en flokkur getur ekki átt allt sitt undir einum manni. Vinstri grænir eiga því láni að fagna að hafa góðan leiðtoga sem nýtur einróma trausts og stuðnings, en sama er að segja um aðra fulltrúa flokksins á Alþingi og annars staðar. Um allt land er áhugasamt og gott fólk að vinna að málefnum flokksins. Á landsfundinum var unnið í hverju horni og mikil þátttaka bæði í starfshópum og almennum umræðum. Það er í rauninni lítilsvirðing við alla þá fjölmörgu áhugasömu og virku einstaklinga innan hreyfingarinnar að halda því fram að hún byggist á einum manni. Hún byggist ekki síður á skýrri málefnastöðu og baráttugleði almennra félagsmanna.

Vinstri grænir sigla góðan byr þessa dagana og ég held að þeir hafi enn bætt stöðu sína með þessum góða landsfundi. Þar voru engin átök um menn eða málefni og ágreiningsefni leyst með góðum vilja og samstarfsanda. Mín skoðun er sú að mikill meirihluti þeirra sem kjósa að starfa með Vinstri grænum geri það vegna þess að þeir hafa hugsjónir og einlægan vilja til að vinna saman að réttlátu þjóðfélagi í gjöfulu landi.