Tjáningarfrelsið er vandmeðfarið. Þeim sem fá frelsi til þess að tjá sig í beinni útsendingu dagskrár í hljóðvarpi eða sjónvarpi er sýnt mikið traust. Þeim er treyst til þess að fara rétt með og vega ekki að heiðri annarra. Þótt þeir hafi frelsi til að lýsa eigin skoðunum hljóta þeir að lúta almennum siðareglum. Þeir fá vettvang út af fyrir sig sem öðrum gefst ekki á sama hátt til þess að svara fyrir sig ef á þá er ráðist, eins og t.d. gefst í dagblöðum, þar sem algengt er að menn skiptist á greinum og vegist oft hart á með orðum.
Tilefni til umræðna um þessi efni gefast stöku sinnum í útvarpsráði. Sem betur fer ekki oft. Á fundi útvarpsráðs 18. desember síðastliðinn fannst mér ástæða til að vekja máls á tveimur slíkum. Það vakti reyndar athygli og jafnvel kátínu sumra viðstaddra að fórnarlömbin í tilvitnuðum dæmum eru þekktir einstaklingar úr Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Mig skiptir það engu, hér er um prinsipmál að ræða.
Guðni
Karl Th. Birgisson hefur verið fastur pistlahöfundur Spegilsins alllengi og tekið margt til umfjöllunar, stundum á snjallan hátt, en stundum farist miður eins og gengur. Þriðjudaginn 11. desember var Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra skotspónn hans á einkar ósmekklegan hátt og hreint ekki fyndinn sem auðheyrilega var þó ætlunin. Pistlahöfundi var greinilega í mun að koma því inn hjá hlustendum að Guðni væri haldinn þjóðernishyggju af verstu sort og sagði m.a.: “Þjóðernishyggja Guðna Ágústssonar kom til umræðu fyrir fáeinum árum þegar hann kærði þrjá blaðamenn fyrir siðanefnd Blaðamannafélagsins, en þeir höfðu vakið athygli á fullyrðingum um að hann væri félagi í miður geðslegum samtökum sem heita Norrænt mannkyn. Guðni hefur sjálfur í kjölfarið séð fyrir nægum staðfestingum á þjóðernishyggju sinni með yfirlýsingum um “Ísland fyrir Íslendinga”, margítrekaðri og sérstaklega ógeðfelldri rembu yfir öllu því sem íslenzkt er, hvort sem það er fólk eða fénaður, og ekki þurfti að koma á óvart sú skoðun hans um helgina að rithöfundarhæfileikar “ræktist” – já, að rithöfundarhæfileikar “ræktist” frá föður til sonar.”
Hér vantar mikilvægt atriði í málflutning Karls Th., nefnilega það að úrskurður siðanefndar féll Guðna í vil. En það passaði auðvitað ekki inn í þá mynd sem Karl Th. vildi festa í minni hlustenda. Ég lét bóka gagnrýni mína á pistlahöfund og einnig að mér þætti óeðlilegt að pistlahöfundur væri mjög lengi samfleytt í þætti.
Hannes
Hitt málið var nýlega í fréttum þegar upplýst var að deildarstjóri tónlistardeildar RÚV hefði ákveðið að útvarpa ekki beint frá árlegum tónleikum Bubba Morthens á Þorláksmessu vegna ósæmilegra ummæla Bubba um einstakling á tónleikum hans fyrir ári. Ég óskaði eftir því að þessi ákvörðun yrði rökstudd með dæmum og Óskar Ingólfsson deildarstjóri lék fyrir okkur útvarpsráðsmenn hluta af upptökunni. Ég held að engum hafi dulist að Bubbi fór þar yfir strikið í ummælum sínum um Hannes Hólmstein Gissurarson og hefði verið eðlilegt að ræða málið við hann sem fyrst að tónleikunum loknum. Það var hins vegar ekki gert og á fundi útvarpsráðs 18. desember kom í ljós, að deildarstjórinn hafði ekki einu sinni hlustað á upptökuna fyrr en mörgum mánuðum síðar þótt tilefni hefði sannarlega gefist. Það var því ekki fyrr en nýlega sem Bubbi fékk þá orðsendingu í tölvupósti að um beina útsendingu frá tónleikum hans gæti ekki orðið að ræða í ár þar sem hann hefði tjáð sig á ósæmilegan hátt fyrir ellefu mánuðum.
Mín skoðun er sú að Bubbi hafi brugðist trausti og unnið til áminningar. En fyrst og fremst geri ég alvarlega athugasemd við þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í málinu og lét bóka það í fundargerð útvarpsráðs.
Frelsi eins takmarkast af rétti annars
Frelsi til orðs og æðis er sannarlega mikilvægt, og að minnsta kosti í hinum vestræna heimi er mikil áhersla lögð á rétt hvers manns til slíks frelsis. Á stundum er áherslan slík að jaðrar við ofstæki þannig að ekkert megi takmarka þetta frelsi. Það getur þó aldrei verið svo. Frelsi eins hlýtur að takmarkast af rétti annars til eigin æru.