Dansað í kringum gullkálfinn

Gullsólgna þjóð við gömul afreksminni

Geturðu unað sátt við örlög slík

að vera fátæk þegar þú ert rík

þú sem varst áður rík í fátækt þinni.

Ég vona að ég muni rétt þetta vers úr einu af kvæðum frænda míns, Braga Sigurjónssonar. Versið það arna hefur sótt á huga minn að undanförnu vegna sífelldra áfloga um stofnfjárhluti og stofnfjáreigendur, hlutabréf, fjárfestingar og valdatauma í fjármálastofnunum. Maður hefur svo sem oft áður fylgst agndofa með átökum á milli fjármagnseigenda, átökum um hluti sem eru líklegir til að skila gróða, átökum um yfirráð í hinu og þessu fyrirtækinu. Nú tekur þó út yfir allan þjófabálk. Og það er einkennilegt að upplifa vandræðaganginn í viðskiptaráðherra sem situr með hendur í skauti og horfir ráðalaus á atganginn í þeim sem skilmast um SPRON.

Oft eru þessir fjármálabraskarar sömu mennirnir og þeir sem spyrja með þjósti “Á hverju á þjóðin eiginlega að lifa?”, þegar fólk leyfir sér að andæfa gegn hernaðinum í náttúru landsins. Allt þarf að vera stórt og mikið og dýrt og auðvitað umfram allt strax, annars tekur einhver annar bitann frá þjóðinni eða hún hrökklast aftur inn í torfbæina. Málflutningurinn er ekki rismikill. Og peningavaldinu er blygðunarlaust beitt til að koma sínu fram.

Baráttan um SPRON minnir náttúrlega helst á margtilvitnaðan dans í kringum gullkálf og aðalpersónurnar verka dálítið eins og grínistar. Það hvarflar jafnvel að manni að þeir hafi af skömmum sínum hrundið þessari atburðarás af stað, þeir hafi velt fyrir sér veikleikanum í nýsettum lögum um sparisjóðina og ákveðið að hafa sem flesta að fíflum, ráðherra, alþingismenn, sparisjóðsstjóra og allt heila gillið og spila í leiðinni á peningafíkn stofnfjáreigenda. Skítt með hugsjónir. Ef málið væri ekki í raun grafalvarlegt væri oft og lengi hægt að hlæja að leikverkinu.

Það ku vera mikil kúnst að láta fjármagnið vinna fyrir sig. Blessunarlega eru margir óttalega gamaldags og langar ekki að læra þá kúnst. Síaukin peningahyggja í þessu litla samfélagi okkar er að skekkja kúrsinn á þjóðarskútunni. Og reyndar ekki bara peningahyggjan, heldur einnig sívaxandi einstaklingshyggja og yfirborðsmennska á kostnað samkenndar og samhjálpar. Verðmætamatið er brenglað, lífsgildin á leið út í móa. Þjóðin kann ekki að vera rík, hún sem var áður rík í fátækt sinni.