Forseti Kína er á leiðinni til Íslands í opinbera heimsókn. Og forseti lands okkar og ríkisstjórn eru gengin af göflunum. Í því liði sér enginn út fyrir sinn fílabeinsturn. Nýbúin að taka á móti hernaðarsinnum ýmissa þjóða, girða í kringum þá og stinga byssum í belti íslenskra lögregluþjóna og guma af því hvað það hafi nú allt gengið vel þrátt fyrir 300 manna mótmælafund hinum megin við girðinguna, þá treysta þessi vösku stjórnvöld sér ekki til að hafa hemil á friðsamlegum mótmælendum undir fána Falun Gong ef þeir kynnu að fara yfir hundraðið.
Eftir því sem þessu máli vindur fram veit maður ekki hvort furðan eða hneykslunin, þykkjan eða jafnvel vorkunnsemin ber hæst í huganum. Þau sem neyðast til að verja þessi ósköp eru í sífelldri mótsögn við sig sjálf, fullyrða í einu orðinu að þetta sé friðsamt fólk og í hinu að þeir hafi ekki mannskap til að hafa hemil á því!
Út af fyrir sig getur maður vel skilið að þetta fólk gæti hugsað sér að taka í lurginn á þessum forseta, því hann ber m.a. ábyrgð á hryllilegum pyntingum á fylgjendum Falun Gong, heilaþvotti, niðurlægingu og alls konar annarri grimmd. Þessum glæpamanni hefði aldrei átt að bjóða hingað. En fylgjendur Falun Gong eru friðsamt fólk og ekki þekkt fyrir ólæti þegar það kemur skoðunum sínum á framfæri. Aðeins þeir sem vita upp á sig sökina óttast fólk af þessu tagi.
Þvílíkt endemis klúður! Maður skammast sín hreinlega niður í hrúgu. Og það gera sem betur fer fjölmargir landsmenn. Þessu máli er hreint ekki lokið.
Þingflokkur VG samþykkti eftirfarandi ályktun vegna heimsóknar forseta Kína á fundi sínum 10. júní:
Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggur áherslu á að gestkomandi fólk til Íslands verði ekki flokkað eftir skoðunum á stjórnmálum eða lífsviðhorfum og að ekki verði settar skorður við friðsamlegum aðgerðum í landinu. Ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að meina andófsmönnum gegn kínverskum stjórnvöldum að heimsækja Ísland vegna heimsóknar forseta Kína er ekki í samræmi við íslenskar hefðir um opna og lýðræðislega stjórnarhætti.
Á undanförnum mánuðum og misserum hefur verið hert margvísleg löggjöf sem lýtur að meintu öryggi íslenska ríkisins, m.a. í tengslum við Schengen samkomlagið um sameiginleg landamæri okkar og Evrópusambandsríkja.
Ástæða er til að vara við því að hert öryggiseftirlit af þessu tagi snúist upp í andhverfu sína á kostnað lýðræðis og mannréttinda.
Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboð telur mikilvægt að skýrar reglur verði settar um komu fólks til landsins og allt sem lýtur að öryggisbúnaði og öryggisgæslu í landinu, þar á meðal vopnabúnað erlendra lífvarðasveita. Þá er mikilvægt að erlendum gestum verði jafnan gerð grein fyrir því að hingað komi þeir á forsendum Íslendinga.”