Skipulagsstofnun birti úrskurð sinn um Norðlingaöldumiðlun í gær, 13. ágúst, og er óhætt að segja að niðurstaðan kom sem þruma úr heiðskíru lofti. Ljóst er að hvers kyns rask á þessum slóðum er hættulegt lífríki Þjórsárvera sem er alþjóðlega mikilvægt votlendi á Ramsarskrá og lýst friðland síðan 1981. Bæði Þjórsárveranefnd og Náttúruvernd ríkisins höfðu í ítarlega rökstuddum umsögnum hafnað öllum hugmyndum Landsvirkjunar um miðlunarlón sem gengju á Þjórsárverin og því bjuggust flestir við að Skipulagsstofnun kæmist að sömu niðurstöðu. Í úrskurðinum fellst hins vegar stofnunin á tvo kosti miðlunar, annars vegar með lónshæð í 575 metrum og hins vegar í 578 metrum, að uppfylltum vissum skilyrðum. Reyndar var síðari kosturinn ekki settur fram í matsskýrslu Landsvirkjunar öðru vísi en til viðmiðunar og kemur því sérstaklega á óvart að Skipulagsstofnun skuli tiltaka þann kost í niðurstöðu sinni.
Eins og vænta mátti vekur úrskurður Skipulagsstofnunar misjöfn viðbrögð. Náttúruverndarsinnar eru undrandi og vonsviknir, en virkjanasinnar telja sig þess umkomna að hrósa happi. Ekki er þó útséð um málið á þessu stigi og rétt að hafa í huga að bæði Náttúruvernd ríkisins og sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps þurfa að veita leyfi fyrir framkvæmdum. Verður að vona í lengstu lög að til þessara framkvæmda komi ekki. Svo alvarleg atlaga að friðlandinu í Þjórsárverum væri áfall fyrir náttúruvernd í landinu og mundi skaða orðstír lands og þjóðar.
Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sendi í dag frá sér eftirfarandi ályktun:
“Þjórsárverum ógnað
Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lýsir mikilli undrun og vonbrigðum með úrskurð Skipulagsstofnunar um Norðlingaöldumiðlun. Niðurstaðan er í raun óskiljanleg með tillliti til allrar umfjöllunar í úrskurðinum þar sem ítrekað kemur fram að framkvæmdir við Norðlingaöldumiðlun muni hafa í för með sér veruleg óafturkræf umhverfisáhrif. Það er einnig álit Þjórsárveranefndar og Náttúruverndar ríkisins sem Skipulagsstofnun ber að styðjast við.
Það vekur ugg að Þjórsárverum, einni mestu gersemi í íslenskri náttúru, skuli nú enn og aftur ógnað af ásælni virkjanasinna. Þjórsárverin eru einstök gróðurvin í hálendi Íslands. Þau voru lýst friðland árið 1981 og tekin á Ramsarskrá árið 1990 sem alþjóðlega mikilvægt votlendi. Það er mat þingflokks Vg að ekki komi til álita að fórna Þjórsárverum, enda væri slíkt sannarlega skref aftur á bak. Verin hafa notið friðlýsingar í rúm 20 ár og nær væri að viðhalda framsýni þeirra sem að því stóðu og stækka friðlandið svo að umfang þess verði í samræmi við landfræðilegar og vistfræðilegar forsendur. Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur lagt sitt af mörkum í þeim efnum með því að flytja tillögu til þingsályktunar um stækkun friðlandsins og er það í samræmi við vilja heimananna, sem hafa í drögum að aðalskipulagi Gnúpverjahrepps lagt til slíka stækkun.
Þá vill þingflokkurinn minna á bráðabirgðaniðurstöðu tilraunamats rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, en þar er náttúruverndargildi Þjórsárvera staðfest og svæðið lýst eitt mikilvægasta náttúruverndarsvæði hálendisins. Þessi niðurstaða kemur heim og saman við umsögn Náttúruverndar ríkisins um fyrirhugaðar framkvæmdir og vill þingflokkur Vg lýsa yfir nauðsyn þess að stjórnvöld hraði gerð náttúruverndaráætlunar og slái öllum framkvæmdaáformum á hálendi Íslands á frest þar til slík áætlun liggur fyrir ásamt fullbúinni rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.
Þingflokkur Vg minnir á að þessu máli er ekki lokið og hvetur alla náttúruverndarsinna til að láta til sín taka. Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun berjast fyrir verndun Þjórsárvera og stækkun friðlandsins þar af öllu afli bæði utan þings og innan.
Sú þjóð sem ekki hefur efni á að varðveita Þjórsárver til framtíðar er illa stödd.”