Stjórnmálastarfsemi er margþætt og margvísleg og hreint ekki eingöngu fólgin í fundahöldum, átökum og málamiðlunum eins og margir virðast halda. Hún er líka fólgin í samstarfi og samskiptum skoðanasystkina, ræktun kunningsskapar og vináttu.
Sumarferðir stjórnmálaflokkanna eru dæmi um slíkt.
Vinstri grænir hafa frá upphafi boðið upp á sumarferðir og hafa af því góða reynslu. Þótt aðaltilgangurinn sé að stefna saman fólki til aukinna kynna og ánægjulegrar samveru hafa þessar ferðir oftast tengst ákveðnum þáttum í stefnu VG. Þannig var eitt sinn efnt til ferðar um Eyjabakkana og svæðið kringum Kárahnjúka til þess að kynnast þeim svæðum sem best. Í fyrrasumar fór stór hópur í ferðalag um Þjórsárverin og hélt þar áhrifamikinn fund undir berum himni sem þátttakendum gleymist áreiðanlega seint. Sú stund rifjast væntanlega rækilega upp fyrir þátttakendum um þessar mundir þegar furðufregnir berast af úrskurði Skipulagsstofnunar um Norðlingaölduveitu.
Sumarferð VG nú í ár var 9. – 11. ágúst sl. Fyrir valinu að þessu sinni varð Skagafjörður þar sem félagar okkar gerðu garðinn frægan í sveitarstjórnarkosningunum í vor og enn frekar festu þeir sig á spjöld sögunnar eftir kosningar þegar þeir í félagi við Sjálfstæðismenn lýstu sig andvíga áformum um virkjun við Villinganes.
Ferð Vinstri-grænna tókst í alla staði einkar vel og áttu heimamenn ríkan þátt í því að hún mun lengi lifa í minni þátttakenda. Gist var í Lauftúni hjá sómahjónunum Indiríði og Jósafat, ýmist í tjöldum eða undir þaki. Þangað komu félagar víða að og áttu saman góðar stundir við náttúruskoðun og aðra afþreyingu. Heimamenn fylgdu okkur um héraðið og sátu veislu með okkur um kvöldið í hlöðunni í Lauftúni, þar sem margt var skrafað og enn meira sungið.
Laugardeginum var varið í stórbrotinni náttúru héraðsins, m.a. í mögnuðu umhverfinu að Merkigili sem sker sig austur úr Austurdalnum. Þar eru aðstæður slíkar að maður veltir því fyrir sér í undrun hvernig fólk hefur tekist á við lífsbaráttuna á þessum slóðum þar sem búið var til skamms tíma. Þá skoðuðum við svæði hinnar áformuðu Villinganesvirkjunar og sannfærðumst endanlega um réttmæti þeirrar afstöðu sveitarstjórnar Skagafjarðar að leggjast gegn þeim framkvæmdum. Og enn frekar sannfærðumst við sem fórum í flúðasiglingu síðar um daginn, en það er fullkomlega ólýsanleg reynsla og afar skemmtileg þrátt fyrir nokkra vosbúð. Glíman við kraftinn í ánni er einstök tilfinning og stórkostlegt að skoða gilið frá þessu sjónarhorni. Hrollinum var bægt frá í heita pottinum að lokinni siglingu og svo endanlega í söng og dansi um kvöldið.
Margt situr eftir í huganum að lokinni þessari skemmtilegu heimsókn í Skagafjörðinn og víst er að marga fýsir að koma þangað aftur og dvelja lengur við allt það fjölmarga sem sjá má og reyna á þessum slóðum. Skagfirðingar eru sem óðast að efla ferðaþjónustu í héraðinu og eiga þar marga góða kosti, þar er mikil og fjölbreytileg náttúrufegurð og söguleg minni á nánast hverri þúfu. Og þar er margt í boði til afþreyingar. Nægir að nefna Drangeyjarferðir, veiðiferðir, hestaferðir, vélsleðaferðir, skíðaferðir og gönguferðir, að því ógleymdu að líklega eru hvergi betri aðstæður til flúðasiglinga en í jökulsánum tveimur sem eiga báðar upptök sín í Hofsjökli og brjóta sér leið gegnum tilkomumikil gljúfur Austurdals og Vesturdals. Flúðasiglingar hafa slegið í gegn á síðustu árum sem afþreyingarkostur í ferðaþjónustu, og allt um það sérstaka fyrirbæri gátu lesendur Morgunblaðsins lesið í sunnudagsblaðinu 11. ágúst sl. Þar kom skýrt fram að sú ákvörðun nýrrar sveitarstjórnar Skagafjarðar að koma í veg fyrir virkjun við Villinganes á sér dygga fylgjendur innan ferðaþjónustunnar, ekki aðeins í Skagafirði, heldur um land allt.
Þeir sem völdu að ferðast saman í rútu norður Kjöl á föstudag og suður Sprengisand á sunnudag fengu extra skemmtun og reynslu. Á leið norður Kjöl nutum við m.a leiðsagnar Þorsteins Ólafssonar og Steingríms J. Sigfússonar og erum nú ekki aðeins fróðari um landslagið og söguna, heldur einnig um landbúnaðarmál bæði sunnan og norðan jökla. Ekki fékkst þó niðurstaða í það mikilvæga ágreiningsmál hvort sunnlenskt eða norðlenskt sauðfé væri hvítara og vænna.
Stórkostlegt var að aka fram Vesturdalinn á sunnudaginn og þaðan upp á Sprengisand, bregða sér í laugina í Laugafelli, æja í Nýjadal, virða fyrir sér útsýnið af Kistuöldu til Hágöngufjallanna á aðra hlið og Hofsjökuls á hina þar sem Arnarfell hið mikla vakir yfir Þjórsárverum. Leiðin þaðan niður í byggð er vörðuð virkjunum og stjórnaði sú staðreynd umræðum það sem eftir lifði ferðar.