“Ríðum, ríðum, rekum yfir sandinn”

Ekki get ég ímyndað mér betra ráð en hestaferð til að gleyma öllum heimsins vandamálum, smáum og stórum. Allur fréttaþorsti hverfur út í buskann, hljóðvarp, sjónvarp og blöð tilheyra annarri veröld. Jafnvel skammsýni stjórnmálamanna og skemmdarverk á hálendinu að þeirra undirlagi víkur burt úr huganum meðan þeyst er um grundir, fetað eftir hraungötum og flogið eftir fjörusöndum. Í áningarstað er rætt um hesta og hestaferðir, rifjuð upp atvik dagsins, brandararnir fljúga og söngvarnir hljóma við gítarundirspil. Áhyggjur og leiðindi eru víðs fjarri.

Dagana 23. – 31. ágúst fórum við 20 saman hina árlegu haustferð með Bjarna Eiríki Sigurðssyni, margreyndum hestamanni og skólastjóra reiðskólans Þyrils í Víðidal. Þetta mun vera sjötta ferð okkar hjóna með Bjarna á þessar sömu slóðir, þ.e. Löngufjörurnar á Snæfellsnesi. Leiðin er orðin kunnugleg, en þó hefur hver ferð sitt svipmót, sem markast af veðri, ferðafélögum og uppákomum af ýmsu tagi. Og alltaf eru einhverjir nýliðar í hópnum sem skila sinni eigin upplifun til okkar hinna sem þykjumst orðin nokkuð roskin og reynd. Við köllum þetta “Rökkurreið á Löngufjörum” og hópurinn nefnist “Vanir menn”, þótt því fari reyndar fjarri að allir séu “vanir” í upphafi ferðar. Þeir eru hins vegar orðnir það í ferðalok, sjálfum sér til undrunar og ánægju.

Veðrið var okkur hliðhollt að mestu þvert á allar spár. Reyndar rigndi víst upp á hvern dag, en sjaldnast þegar við vorum á ferð, og svo var hlýtt að vætan gerði okkur ekkert. Einn dag þurftum við þó að vera um kjurt vegna veðurhæðar þar sem við vildum ekki hætta á að léttustu knaparnir fykju af fákum sínum, auk þess sem það getur verið allerfitt að tjónka við lausu hrossin í miklum vindi. Er það í fyrsta skipti í öllum mínum hestaferðum sem veður hefur sett slíkt strik í reikninginn.

Alltaf má búast við einhverjum háska í svona ferðum og því er svolítil spenna í þátttakendum við vissar aðstæður. Sjálfri er mér alltaf hálfilla við að fara yfir gömlu bogabrúna yfir Hvítá og fegin þegar sá háski er að baki. Þá er ekki alveg hættulaust að fara yfir þjóðveg eitt sem við þurfum að gera einu sinni og verðum þá að reiða okkur á tillitssemi bílstjóra sem eru ekki allir jafn velviljaðir í garð hestamanna. Á mótum lands og fjöru leynast einnig víða hættur, sandbleytur og drullupyttir, auk þess sem sæta þarf sjávarföllum til að komast hjá sundreið yfir árnar sem renna þarna í sjó fram.

Mörgum finnst reyndar spennandi að sundríða, en það er ekki skynsamlegt með fjölda lausra hrossa í för. Í þetta sinn lentum við fimm okkar óvart á hrokasund í Búðarósnum og sluppum þokkalega frá því þrátt fyrir árekstra og óðagot. Það hefði verið gott að geta stansað og a.m.k. hellt úr stígvélunum og undið vettlingana, en til þess gafst ekki tóm þar sem lausu hrossin komu á fullri ferð yfir ósinn og beint niður á fjörurnar. Þeim urðum við að fylgja og stýra rétta leið heim að Görðum. Þar fór ca. hálfur lítri af sjó úr hvoru stígvéli á hlaðið hjá Svövu og Símoni. Allt fór þetta vel og gott var í dagslok að liggja vel og lengi í heita pottinum á Lýsuhóli.

Þetta reyndist síðasti dagurinn á hestbaki að þessu sinni. Veðrið magnaðist upp um kvöldið, það hvessti bæði og kólnaði. Vindurinn gnauðaði, regnið lamdi rúður og hestarnir röðuðu sér undir skjólgarðinn meðan knapar hentu gaman hver að öðrum fyrir óvænta sundreið, fall af baki, eltingaleik við óþæga hesta og annað í þeim dúr. Við sungum hvert lagið af öðru og ekki alltaf einum rómi. En í miðju kafi birtist Svava, húsfreyjan í Görðum, og sagði okkur að Ítalir sem sætu að snæðingi í borðstofunni væru hinir ánægðustu með “dinnermúsíkina”. Við færðumst í aukana við hólið og tókum “Volare” fyrir aðdáendur okkar sem birtust þá í gættinni og klöppuðu okkur lof í lófa. Daginn eftir leituðu þeir ráða hjá húsráðendum hvar þeir gætu nálgast geisladisk með eitt af þessum skemmtilegu lögum sem “kórinn” hefði sungið, og það var að sjálfsögðu “Ríðum, ríðum, rekum yfir sandinn”.