Sjálfstæðisflokkurinn er skrýtin skepna og seint mun ég skilja hvers vegna þessi skepna er svo stór sem hún er. Helsta skýringin er sú að fólk skynji eitthvert skjól og öryggi í Sjálfstæðisflokknum af því að hann er svona stór og af því að hann hefur svo oft og lengi verið við völd og af því að menn óttast að ganga gegn eigin hagsmunum, ef þeir halda sig ekki þeim megin sem vald fjármagns og samtryggingar er vísast.
Reyndar skynja ég aldrei Sjálfstæðisflokkinn sem flokk, heldur sem regnhlífarsamtök eða kannski miklu fremur eiginhagsmunabandalag. Vissulega eru sameiginlegar áherslur meðal fulltrúa þessa bandalags og þær þá helstar að tryggja einstaklingum sem mest frelsi til athafna. Sú stefna er sett ofar öflugri samhjálp og eðlilegri forsjá, sem miðar að því að tryggja heilbrigði og öryggi einstaklingsins og farsæld samfélagsins í heild.
Eitt virðist þó ofar öllu í stefnu og starfi Sjálfstæðisflokksins og það er vald til að stjórna og ráða. Ráðamönnum í flokknum líður óskaplega illa ef þeir hafa ekki völd. Renni þeim valdataumar úr höndum leggjast þeir í krampakennda baráttu til að ná þeim aftur og spara hvorki fé né fyrirhöfn. Það sjáum við best þessa dagana þegar reykvískir sjálfstæðismenn fara hamförum til þess að reyna að endurheimta borgina úr greipum Reykjavíkurlistans. Auglýsingar og myndbönd bera þess glögg merki að yfir þeim hafa legið ímyndarsmiðir, auglýsingahönnuðir og sérfræðingar í gerð myndbanda.
Margt sérkennilegt ber fyrir augu og eyru í þessari baráttu, og sumt af því virðist “gera sig” eins og sagt er. Þó ekki myndbandið um borgarstjóraefnið, áhorfendur fá það á tilfinninguna að Björn sé ekki með hugann við aksturinn og hljóti að vera lélegur stjórnandi. Hins vegar hefur myndasagan um fljúgandi torfuna slegið í gegn hjá mörgum, sem súpa hveljur þegar þeir sjá hvers Reykjavíkurlistinn er megnugur og hvernig hann hyggst nota vald sitt. Hamingjan góða, þetta er bara stærðar torfa af vænum jarðvegi sem Ingibjörg Sólrún & Co ætla að slíta upp af Geldinganesinu og demba í sjóinn við Ánanaustin til þess eins að stækka Vesturbæinn og búa til sparkvöll handa KR-ingum! Þvílíkt og annað eins!
Nú er ég ekki meðal aðdáenda uppfyllinga af einu eða öðru tagi og held að R-listafólk hefði átt að horfa til annarra lausna en að flytja skóflustungur milli staða, þó að ég sé fullkomlega sammála um nauðsyn þess að tryggja hafnaraðstöðu til framtíðar við Geldinganesið. Hins vegar finnst mér heldur verra ef Sjálfstæðismenn skora mark í þessu máli, því þeirra hlutur er með eindæmum kjánalegur og ótrúverðugur. Þetta eru fulltrúar þess flokks sem ásamt Framsókn vill efna til stórkostlegustu óafturkræfu náttúruspjalla á hálendi Íslands fyrr og síðar. Það er sko sitt hvað Geldinganesið og Kárahnjúkar með stórkostleg víðernin norðan Vatnajökuls. Að tala um náttúruspjöll á Geldinganesi er bara rugl og öfugmæli í samanburði við þau ósköp sem þessir flokkar standa fyrir á þeim forsendum að uppbygging atvinnulífs – og vel að merkja atvinnulífs gærdagsins – á Austurlandi sé ofar allri náttúruvernd. Hvernig getur nokkur manneskja fallið fyrir málflutningi þeirra um verndun Geldinganess og að það eigi að vera fyrir fólkið? Þetta er það sem kallað er að tala tungum tveim og sitt með hvorri.