Á morgun, 11. júní, rennur út frestur til að skila athugasemdum inn til Skipulagsstofnunar við skýrslu Landsvirkjunar um mat á umhverfisáhrifum vegna Norðlingaölduveitu. Mikilvægt er að sem flestir gefi sér tíma þessa dýrmætu vordaga til að fletta matsskýrslunni og tjá hug sinn til þessara áforma sem ógna tilvist Þjórsárvera. Það hefur undirrituð þegar gert og sent Skipulagsstofnun eftirfarandi athugasemdir:
Skipulagsstofnun
Laugavegi 166
150 Reykjavík
Seltjarnarnesi 8. 6. 2002
Efni: Athugasemdir við skýrslu Landsvirkjunar um mat á umhverfisáhrifum vegna Norðlingaölduveitu sunnan Hofsjökuls í Þjórsárverum.
Ég undirrituð, Kristín Halldórsdóttir, leyfi mér hér með að gera athugasemdir við skýrslu Landsvirkjunar um mat á umhverfisáhrifum vegna Norðlingaölduveitu sunnan Hofsjökuls í Þjórsárverum. Ég hef kynnt mér efni skýrslunnar eftir föngum, en einnig aflað mér upplýsinga víða, m.a. á vettvangi Náttúruverndarráðs sem fjallaði um málið á nokkrum fundum síðasta árið sem það starfaði. Fékk ráðið m.a. til fundar við sig fulltrúa VSÓ Ráðgjafar og Landsvirkjunar, fulltrúa frá Náttúruvernd ríkisins og Þóru Ellen Þórhallsdóttur grasafræðing sem hefur manna mest stundað rannsóknir í Þjórsárverum á síðustu árum.
Margt er athugunarvert í matsskýrslu Landsvirkjunar og m.a. eftirfarandi:
• Sérstaka athygli vekur að þrátt fyrir leit er ekki að finna í skýrslunni tilvísun til þeirrar skerðingar sem þegar er orðin á þessu svæði vegna fyrri framkvæmda. Þá staðreynd verður að hafa í huga að Þjórsárver hafa þegar verið stórlega skert með 1. – 5. áfanga Kvíslaveitu. Norðlingaöldulóni er ekki á bætandi.
• Einkennilegar eru þær skilgreiningar sem Landsvirkjun hefur uppi í skýrslunni á stigum umhverfisáhrifa, þar sem talað er um lítil, nokkur, talsverð eða mikil áhrif. Í sumum tilvikum er viðurkennt að áhrifin kunni að verða óafturkræf! Hins vegar er forðast að nota skilgreiningu laga um mat á umhverfisáhrifum, þ.e. umtalsverð umhverfisáhrif sem þá eru um leið óafturkræf.
• Með tilliti til langvarandi og yfirgripsmikilla rannsókna Þóru Ellenar Þórhallsdóttur vekur undrun hversu lítið skýrsluhöfundar leyfa sér að gera úr hættunni á vindrofi og áfoki. Sú niðurstaða gengur þvert á upplýsingar Þóru Ellenar á fundi með Náttúruverndarráði fyrir rúmu ári. Í skýrslunni er talað um einfaldar fyrirbyggjandi mótvægisaðgerðir, en þær eru ekki frekar skýrðar.
• Mikla athygli vekur sú niðurstaða skýrslunnar að líftími Norðlingaöldulóns verði tiltölulega mjög skammur, lónið myndi hálffyllast á um 100 árum nema gripið yrði til mótvægisaðgerða. 100 ár eru örskammur tími í aldanna rás og mótvægisaðgerðir eru óskýrðar eins og fyrri daginn.
• Engin raunveruleg tilraun er gerð til þess að meta ástand svæðisins og þróun út frá svokölluðum núll-kosti. Hins vegar er fjallað um áhrif núll-kosts á hagkvæmni orkuvinnslu og að sjálfsögðu komist að þeirri niðurstöðu að þau verði neikvæð þar sem eingöngu er tekið mið af fjárhagslegum forsendum.
• Í nýgerðri bráðabirgðaskýrslu um tilraunamat Faghóps I vegna Rammaáætlunar um greiningu virkjunarkosta er Norðlingaöldulón talið hafa í för með sér umtalsverð óæskileg og óafturkræf umhverfisáhrif. Aðeins Kárahnjúkavirkjun og virkjun á öllu vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum voru taldar hafa meiri umhverfisáhrif. Þessar staðreyndir virðast ekki hafa truflandi áhrif á áform Landsvirkjunar um Norðlingaölduveitu frekar en á hinum svæðunum og sannast hér enn og aftur að umhverfisþáttur virkjanaframkvæmda vegur létt í mati Landsvirkjunar.
• Í lokakafla skýrslu Landsvirkjunar eru niðurstöður dregnar saman og er þar lítið gert úr umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Í lokaorðum er sagt að Landsvirkjun telji “…að matsskýrslan sýni að framkvæmd komi ekki til með að hafa umtalsverð neikvæð áhrif á umhverfið og að nýting og verndun Þjórsárvera geti farið saman”.
Undirrituð hafnar algjörlega þessari niðurstöðu Landsvirkjunar.
Þjórsárver eru víðfeðmasta og tegundaríkasta hálendisvinin á Íslandi. Sérstaða og tilvist þessa svæðis felst í samspili margra þátta við ákveðnar aðstæður. Þar er stærsta og fjölbreyttasta freðmýri landsins með tilliti til búsvæða og lífvera. Þar eru flæðiengjar, tjarnastararflóar, gulstararflóar, brokflóar, flár með rústum og tjörnum, mela-, heiða- og háfjallagróður. Þetta er einstök gróðurvin í hálendi Íslands og gegnir mikilvægu hlutverki sem búsvæði og fræbanki fyrir nærliggjandi svæði. Í Þjórsárverum er stærsta varpland heiðagæsar í heiminum og eru fræðimenn á einu máli um að svæðið hafi úrslitaáhrif á tilvist og viðhald heiðagæsastofnsins. Landslag er stórbrotið, fjölbreytt og fagurt víðerni með Hofsjökul og ekki síst Arnarfell hið mikla sem einstakan bakgrunn. Þeim sem áð hefur í hlíðum Arnarfells hins mikla á góðum degi gleymist ekki sú stund. Slíka stund hefur undirrituð tvívegis upplifað.
Þjórsárver voru lýst friðland árið 1981 og tekin á Ramsarskrá árið 1990 sem alþjóðlega mikilvægt votlendi einkum með tilliti til fuglalífs. Slíkt er náttúruverndargildi Þjórsárvera að þau má fyrir hvern mun ekki skerða meira en orðið er. Réttara væri að stækka friðlandið eins og lagt hefur verið til. Þetta er tvímælalaust einstakt svæði á heimsmælikvarða sem ber að varðveita til framtíðar.
Með tilliti til þess sem að framan segir leggur undirrituð eindregið til að Skipulagsstofnun leggist gegn áformum Landsvirkjunar um Norðlingaölduveitu.
Virðingarfyllst,
Kristín Halldórsdóttir
201039-4529
Fornuströnd 2
170 Seltjarnarnesi