Sumarferð Fáks lauk í Skógarhólum á Þingvöllum föstudaginn 26. júlí sl. Á ýmsu gekk þessa 10 daga sem ferðin stóð og það tekur tímann sinn að venjast hversdagslífinu á nýjan leik. Hófatakið dynur enn í eyrum að ekki sé nú minnst á hrotukór knapanna um nætur sem varið var í fjallaskálum, gömlum bæjarhúsum eða félagsheimilum. Maður saknar þess jafnvel að þurfa ekki að velta fyrir sér alvarlegum vandamálum að morgni dags eins og þeim hvort reiðskórnir og úlpan séu orðin þurr, hvort veðrið kalli á síðar nærbuxur, ull og flís, og hvaða hest maður eigi að taka fyrsta legginn.
Ferðin hófst 17. júlí að Súlunesi í Melasveit. Hellirigning var þegar Fáksmenn tíndust í hlað og hrollur í á annað hundrað hestum sem voru auk þess órólegir innan um þennan fjölda ókunnugra hesta. Það var því eins og við manninn mælt að í stað þess að lesta sig pent og virðulega í upphafi hentist stóðið út um öll tún og sjávarbakka og virtist hluti hrossanna hreinlega ætla að leggja til sunds yfir álinn til Akraness. Ekki er hægt að segja að settlega hafi verið riðið þennan daginn, en allt hafðist þetta að lokum og um nóttina bitu þeir haga á Ytri-Skeljabrekku.
Næsta dag var riðið að Skjólbrekku og gekk vel í ágætu veðri og engar víðáttur til að trylla lausu hrossin. Daginn eftir tóku þau hins vegar heldur betur til fótanna um grasi gróna víðlenda bakka á leiðinni í Álftanes, þaðan svo um frábærar fjörur langleiðina að Álftárósi þar sem þeim var komið í haga. Leiðsögumaður okkar, Sigursteinn í Skjólbrekku, var svolítið gáttaður á fjörinu í þessum hestum okkar og minnist ég þess þegar þeir stöðvuðust loks á girðingu á bökkunum að hann vatt sér af baki og sagði: “Ja, þetta var fljótfarinn áfangi!”
Fjórða daginn var svo farið á fjöru út í Hjörsey, riðið um hana, heilsað upp á húsfreyjuna á þessari þriðju stærstu eyju við Ísland og fákarnir teknir til kostanna í fjörunum á bakaleiðinni. Eftirminnileg heimsókn þótt skyggni væri lítið.
Fimmta daginn var riðið upp í Grímsstaði þar sem alltaf er jafn fallegt og gott að koma. Það setti skugga á daginn að einn knapanna fékk óþyrmilega á baukinn þegar hesturinn hans rykkti upp hausnum svo að losnaði um tennur og urðum við að sjá af félaga okkar í bæinn til aðgerðar sem vonandi verður til þess að hann haldi öllum sínum tönnum. Þennan dag súldaði og rigndi jafnvel nokkuð svo að allir ofnar og naglar á Grímsstöðum voru vel þegnir. Merkilegt hvað þetta gamla hús tekur við mörgu fólki og hvað það þolir þegar mannskapurinn syngur og stappar og dansar svo að gólf svigna.
Sjötta daginn riðum við sérlega fallega leið inn að Langavatni í yndislegu veðri sem hafði góð áhrif á lausu hrossin, það vill alltaf koma í þau sperringur í þræsingi. Skálinn við Langavatn er ágætur þótt hann sé of lítill fyrir svona stóran hóp, en margir höfðu meðferðis tjöld og leystu málið þannig. Verra var að hestagerðið er mestan part útvaðin drulla.
Við höfðum ekki nóg að éta fyrir hestana við Langavatn og ætluðum að beita þeim vel og lengi á fyrsta grasbala morgunin eftir áður en við héldum yfir heiði með stefnuna á Munaðarnes. Það var hins vegar einhver tryllingur í lausu hrossunum sem brutust skyndilega út úr hringnum og þeyttust til baka einstigið eftir skriðunum sem þau komu daginn áður. Upphófst þá mikill eltingaleikur meðfram vatni, inn dali, upp hóla og hæðir, þar sem hrossin skiptust í hópa og náðust sum aftur að Langavatni, en önnur urðu ekki stöðvuð fyrr en þau höfðu ætt nánast alla dagleið gærdagsins til baka. Þrír knapanna eltu þau alla þá leið og verður hreysti og dugnaður hesta þeirra lengi í minnum hafður. Ekkert símasamband var til þeirra sem biðu með hin lausu hrossin inn við Langavatn og fór því nokkur hópur til að rekja slóðir um dali og hóla og freista þess að koma til liðs þremenningunum með strokuhestana. Of langt er að rekja allt sem gerðist þennan dag, en væntanlega verður hann upprifjunar- og umtalsefni ferðafélaganna í þessari Fáksferð um ókomin ár. Og víst er að ýmsir voru orðnir svangir og þreyttir þegar sest var að í félagsheimilinu við Þverárrétt nær miðnætti um kvöldið.
Leiðin frá Þverárrétt að Húsafelli er fjölbreytt og skemmtileg og sérstaklega fallegt að ríða inn Kjarrárdal, en einnig síðasta legginn að Húsafelli þar sem farið var um giljadrög og skóglendi.
Níunda daginn hvíldu menn og hestar í Húsafelli, en þann tíunda var stefnan tekin á Skógarhóla á Þingvöllum um 50 km. leið eftir Kaldadal. Var það glæsileg sjón að sjá hópinn koma í hlað á Skógarhólum, hrossin loksins farin að lesta sig fallega og knapar kátir og hressir.
Og nú eru blessaðir klárarnir okkar komnir í góðan haga að endurnærast fyrir næstu ferð, sem verður á Löngufjörum í ágústlok. Áreiðanlega líður þeim vel, en stundum velti ég fyrir mér: Skyldi ég hafa ofþreytt Prúð í Hjörseyjarferðinni? Gekk ég of nærri Víkingi daginn sem við fórum í björgunarleiðangur um fjöll og dali? Var ferðin yfir Síðufjallið full strembin fyrir Prinsinn? Og aumingja Kári sem lenti hvað eftir annað í hörku eltingarleik við óþæga hesta auk þess sem hann tók sjálfur strikið með strokuhestunum sem ruku alla leið frá Langavatni í Hraundal daginn þann. Ég er reyndar handviss um að þeir skemmtu sér allir vel ekki síður en ég.