Íslandsklukkan í Efstaleiti

Ég fórnaði heilu sunnudagssíðdegi og þar með samvistum við hestana mína til þess að geta sótt málþing Bandalags íslenskra listamanna um Ríkisútvarpið 14. apríl sl. Og sé ekki eftir því. Loksins gaf að heyra kröftug andóf gegn nöldrinu yfir afnotagjöldunum og síbyljunni um sölu Rásar 2 og nauðsyn þess að gera RÚV að hlutafélagi. Þarna voru flutt mörg góð framsöguerindi og sum aldeilis bráðskemmtileg. Þó var erfitt að átta sig á raunverulegum vilja hins nýja menntamálaráðherra, Tómasar Inga Olrich, sem annað veifið talaði um nauðsyn þess að hafa öflugt Ríkisútvarp og hitt veifið að reka það í formi hlutafélags. Aðeins útvarpsstjóri, Markús Örn Antonsson, reyndist sammála honum um rekstur RÚV í formi hlutafélags, því flestir aðrir sem til máls tóku lögðu áherslu á menningarhlutverk RÚV sem ekki samrýmist sjónarmiðum arðsemi og gróða. Segja má að mál flestra framsögumanna hafi kristallast í einni setningunni sem lesa má í svolitlum bæklingi sem fylgdi málþingsgögnum og höfð eftir Þórarni Eyfjörð leikstjóra: “Það er blátt áfram skylda þeirra sem finnst íslensk menning andartaks virði að standa vörð um sterkt ríkisútvarp.” Erlendi gesturinn, John Barsby, forseti breska blaðamannsambandsins virtist á sama máli.

Steinunn Sigurðardóttir, Hörður Áskelsson og Þorvaldur Þorsteinsson lífguðu upp á framsögurnar með hnyttnum samlíkingum og svolítilli fortíðarþrá. Hörður líkti Ríkisútvarpinu við Íslandsklukkuna og lýsti áhyggjum af hljómnum í klukkunni í Efstaleiti, hann heyrðist æ verr í gegnum sívaxandi skarkala. Þorvaldur varpaði því fram að þjóðin hefði aldrei fengið að kynnast því sem Ríkisútvarpið hefði getað verið, það hefði aldrei fengið að vera alvöru ríkisútvarp og sjónvarp. Steinunn dvaldi við gamla daga þegar allir fylgdust með framhaldssögum og leikritum og hún óskaði útvarpsráði í orðsins fyllstu merkingu út í hafsauga, þ.e. til Kolbeinseyjar. Í staðinn vill hún fá fagráð og ýmsir tóku í sama streng án þess að það væri frekar rætt eða útfært.

Því miður runnu boðaðar pallborðsumræður gjörsamlega út í sandinn. Þeir sem báðu um orðið virtust ekki hafa áttað sig á að framsöguerindum væri lokið og fluttu margra mínútna ræður hver á fætur öðrum. Aðeins útvarpsstjóri og John Barsby fengu örfáar spurningar hvor, aðrir málshefjendur sátu og börðust við syfju meðan sjálfskipaðir ræðumenn möluðu. Sjálf brann ég inni með fyrirspurnir sem ég hefði gjarna viljað fá reifaðar í pallborði. Önnur laut að hinu fyrirlitna útvarpsráði, sem ýmsir vilja feigt og fá fagráð í staðinn. Fróðlegt væri að fá útfærslu á þeirri hugmynd, þ.e. hvernig menn hugsa sér slíkt fagráð, hverjir eigi að tilnefna í það, hvert hlutverk þess ætti að vera o.s.frv. Hin varðaði síaukna kostun efnis í útvarpi og sjónvarpi. Ég hef miklar áhyggjur af vaxandi þunga á kostun, sem rýrir að mínum dómi gildi og trúverðugleika hins kostaða efnis, og hefði gjarna viljað heyra sjónarmið þeirra sem í pallborði sátu, bæði listamannanna og hins erlenda gests.

En þótt pallborðið væri bæði leiðinlegt og misheppnað situr eftir í huganum ánægja og feginleiki með þetta framtak BÍL. Fundarsalurinn var þéttsetinn og þarna gafst fundargestum færi á að skrá sig stofnfélaga í samtökum sem fengið hafa nafnið “Velunnarar RÚV”. Málþingið og hin nýstofnuðu samtök gefa tilefni til bjartsýni og vonar um betri hljóms í klukkunni í Efstaleiti.

“Ríkisútvarpið á að vera hornsteinn, en ekki myllusteinn”, segir Matthías Johannessen í bæklingi BÍL. “Það á að hafa metnað, ekki bara afþreyingarmetnað. Það á ekki að eltast við einkaljósvaka. Það á ekki að græða, það á að rækta.” Og Matthías endar með svofelldum orðum: “Það kostar að vera Íslendingur, hefur verið sagt. Og við eigum að hafa þrek til að taka þeirri áskorun”.