Það var dálítið magnað að sjá og heyra stjórnarformann Landsvirkjunar í sjónvarpsfréttum fimmtudaginn 5. desember. Rödd hans titraði, hann var sorgmæddur á svipinn og svei mér ef hann var ekki með skeifu. Hvers vegna? Jú, þessi valdamikli maður, stjórnarformaður Landsvirkjunar, með gjörvalla ríkisstjórnina á bak við sig og milljarða á milljarða ofan að ráðskast með var að kvarta undan mótmælendum Kárahnjúkavirkjunar.
Tilefni viðtalsins við Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformann Landsvirkjunar, var sú staðreynd að erlend fyrirtæki hafa undanfarna daga og vikur hvert á fætur öðru hætt við að gera tilboð í stíflu og aðrennslisgöng í stöðvarhús við Kárahnjúka vegna fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda Landsvirkjunar. Upphaflega ætluðu 5 samsteypur fyrirtækja að bjóða í verkin. Ein samsteypan heltist fljótlega úr lestinni og síðan hafa a.m.k. 3 fyrirtæki dregið sig út úr hinum samsteypunum. Ljóst er að annað hvort hefur þeim ekki litist á fjárhagsdæmið eða umhverfisþáttinn.
Og stjórnarformaður Landsvirkjunar er gramur og er ekkert að skafa utan af hlutunum. Fréttamaðurinn hefur eftir honum að hann segist vita til þess að andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar hafi unnið gegn málinu erlendis m.a. hjá þeim fyrirtækjum sem bjóða í gerð mannvirkja tengdum virkjuninni. Hann segir að hér innanlands hafi baráttan verið mjög hatrömm gegn framkvæmdum Landsvirkjunar og nánast öllum brögðum beitt. “Við erum að sjá dæmi um það að vísindamenn virðast vera tilbúnir að nánast að fórna starfsheiðrinum til þess að koma í veg fyrir framkvæmdir. Þannig að það er alveg rétt, það hefur verið hart barist á móti framkvæmdunum”, segir stjórnarformaðurinn og bætir svo við í vælutóni: “Við erum náttúrulega að vinna í umboði löglega kjörinna stjórnvalda landsins.”
Það er auðvitað hárrétt hjá stjórnarformanni Landsvirkjunar, þeir eru að vinna í umboði stjórnvalda. Þeir hins vegar búa í lýðræðisþjóðfélagi og verða að lifa við það að fólk neyti réttar síns til að hafa skoðanir og vinna þeim fylgi eftir megni. Þegar aðstöðumunurinn er hafður í huga er það beinlínis hlægilegt að sjá stjórnarformann Landsvirkjunar eins og skólastrák sem lagður er í einelti og heyra hann kveinka sér undan þeim sem beita sér gegn Kárahnjúkavirkjun, sem margir hagfræðingar telja fullkomið efnahagslegt glapræði. Og þeir Landsvirkjunarmenn vita það jafnvel og náttúruverndarsinnar að virkjunin sú hefði í för með sér hrikalegustu landspjöll sem nokkru sinni hefur verið efnt til hér á landi. Æ fleiri gera sér grein fyrir þessari vitfirringu, og það er þess vegna sem stjórnarformanni Landsvirkjunar er farið að líða illa eins og sást svo glöggt í sjónvarpsviðtalinu.