Fréttastjóri Sjónvarps

Umfjöllun um ráðningu fréttastjóra Sjónvarps í stað Boga Ágústssonar, sem nýlega var ráðinn í nýja stöðu yfirmanns fréttasviðs, gekk ekki alveg átakalaust fyrir sig á fundi útvarpsráðs í morgun og óvenju langt mál er um hana ritað í fundargerð. Þar er birt í heilu lagi greinargerð Mannafls um úrvinnslu umsókna, en niðurstaðan af þeirri vinnu er að 3 umsækjenda uppfylli best hæfniskröfur, þ.e. Elín Hirst, Logi Bergmann Eiðsson og Sigríður Árnadóttir þannig upp talin í stafrófsröð. Einnig eru birt ítarleg meðmæli Boga Ágústssonar, forstöðumanns fréttasviðs, með Elínu Hirst í starf fréttastjóra Sjónvarps. Að lokinni umræðu í útvarpsráði voru greidd atkvæði sem féllu þannig að fjórir greiddu Sigríði Árnadóttur atkvæði, en þrír Elínu Hirst. Upphófust þá bókanir þeirra sem vildu gera grein fyrir afstöðu sinni.

Þrír fulltrúar sjálfstæðismanna, þau Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, formaður útvarpsráðs, Þórunn Gestsdóttir og Anna Kristín Jónsdóttir lögðu fram eftirfarandi bókun:

“Í tilefni af umsögn útvarpsráðs um umsækjendur í starf fréttastjóra Sjónvarps óska undirrituð eftir að fært verði til bókar eftirfarandi:

Að mati okkar uppfylla þrír umsækjendur hæfniskröfur. Það eru þau Elín Hirst, G. Pétur Matthíasson og Logi Bergmann Eiðsson. Við mat á umsækjendum er einkum þrennt sem mestu máli skiptir. Menntun, reynsla af starfi í sjónvarpi og stjórnunarreynsla. Allir ofangreindra umsækjenda hafa umtalsverða reynslu af starfi við sjónvarp. Tvö þeirra, Elín og G. Pétur hafa lokið háskólaprófi og tvö þeirra, Elín og Logi hafa reynslu af stjórnun í sjónvarpi. Bæði eru þau nú varafréttastjórar Sjónvarpsins. Elín hefur þó umtalsvert meiri stjórnunarreynslu enda fyrrverandi fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Með vísan til ofangreinds teljum við Elínu best uppfylla hæfniskröfur í starf fréttastjóra Sjónvarpsins og munum mæla með ráðningu hennar.”

Bókun mín var svohljóðandi:

“Meðal umsækjenda um starf fréttastjóra Sjónvarpsins eru nokkrir ágætlega hæfir einstaklingar sem ekki er alveg einfalt að velja á milli. Sérstakt ánægjuefni er að í þessum hópi eru þrautreyndar fréttakonur með mikla stjórnunarreynslu og gefst nú tækifæri til að rétta nokkuð hlut kvenna í stjórnunarstörfum hjá Ríkisútvarpinu. Þegar nú Bogi Ágústsson, fréttastjóri Sjónvarpsins til margra ára, hefur verið gerður að yfimanni alls fréttasviðs Ríkisútvarpsins er rétt að líta til þess að aukið og bætt samstarf fréttastofanna er meginmarkmiðið með þeim skipulagsbreytingum sem nú er verið að gera á fréttasviðinu. Í ljósi þess tel ég farsælast að fela Sigríði Árnadóttur, með margra ára reynslu af stjórnunarstöðum og mikil og góð tengsl á fréttastofu Útvarpsins, hlutverk fréttastjóra Sjónvarps og styð hana til þess starfs.”

Gissur Pétursson, fulltrúi Framsóknarflokksins, lagði fram eftirfarandi bókun:

“Við stofnsetningu fréttasviðs og ráðningu sérstaks framkvæmdastjóra þess var að því stefnt að auka samstarf fréttastofu Sjónvarps og Útvarps. Til að tryggja að það samstarf gangi vel og snurðulaust fyrir sig er nauðsynlegt að treysta samgang milli deildanna með því að starfsmenn eigi kost á verkefnum sem hæfa hæfni þeirra og kunnáttu á báðum stöðum. Meðal umsækjenda um starf fréttastjóra Sjónvarps er Sigríður Árnadóttir, varafréttastjóri Útvarpsins. Sigríður hefur um langt árabil verið einn af traustustu fréttamönnum Útvarpsins og getið sér afar gott orð fyrir fagmennsku og óhlutdrægni í stöfum sínum. Hún hefur jafnframt mikla reynslu af stjórnunarstörfum á fréttastofu. Ríkisútvarpið væri vel að því komið að fá að njóta starfskrafta hennar sem fréttastjóra Sjónvarpsins fyrir utan hversu vel það mun styrkja þær skipulagsbreytingar á fréttasviði sem unnið hefur verið að innan stofnunarinnar.”

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Mörður Árnason og Anna Kristín Gunnarsdóttir tóku undir bókanir okkar Gissurar. En málinu er ekki þar með lokið. Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri hefur síðasta orðið, en reyndar búast flestir við að hann muni hlýða rödd Sjálfstæðisflokksins nú sem endranær.