Þessa baráttu verður að heyja

“Nú er þetta búið”, sagði kunningi minn í sundlauginni í morgun, “við erum búin að tapa og ég skrifa víst aldrei greinina sem ég ætlaði að skrifa og var m.a.s. kominn með þessa fínu fyrirsögn: Álæði. Það rímar svo skemmtilega við t.d. málæði og brjálæði.”

Ég verð að viðurkenna að mér hefur ekki verið rótt síðan á föstudag þegar Landsvirkjun og Alcoa munduðu sína penna og skjalfestu ætlun sína um hrikalegustu framkvæmdir og náttúruspjöll af mannavöldum fyrr og síðar hér á landi. Og ekki bætti kunningi minn úr með orðum sínum. Samt verður þessu ekki trúað fyrr en hver einasta vörn er brostin.

Bandaríska risafyrirtækið Alcoa vill reisa álverksmiðju á Reyðarfirði og kaupa rafmagn af Landsvirkjun frá risavirkjun við Kárahnjúka. Mánuðum saman hafa náttúruverndarsinnar unnið gegn þessum áformum með öllum tiltækum ráðum, þ.e.a.s. þeir eru fyrst og fremst að mótmæla Kárahnjúkavirkjun og þeim geigvænlegu náttúruspjöllum sem hún hefði í för með sér. Fæstir velta álverinu í sjálfu sér svo mikið fyrir sér nema að því leyti sem það er forsendan fyrir Kárahnjúkavirkjun.

Hópur fólks hefur mótmælt á Austurvelli og víðar í hádeginu dag hvern. Margir fundir hafa verið haldnir þar sem náttúruunnendur, náttúruvísindamenn, hagfræðingar og listamenn hafa frætt fundarmenn, sýnt myndir og lýst skoðunum. Geysifjölmennur og vel heppnaður baráttufundur var haldinn í Austurbæjarbíói í nóvemberbyrjun til verndar Þjórsárverum. Athyglisverðar auglýsingar birtust ítrekað í sjónvarpi með þeim boðskap að allir töpuðu á Kárahnjúkavirkjun. Mörg þúsund kort með áskorun um verndun hálendisins voru send þingmönnum, borgarfulltrúum, stjórnarmönnum Landsvirkjunar og fleirum. Sólstöðuhátíð var haldin á Austurvelli laugardaginn fyrir jól þar sem listamenn lögðu lóð á vogarskálarnar fyrir verndun hálendisins og forkunnar fagrar myndir töluðu sínu máli af stóru tjaldi. Hálendisblaðið, vel unnið, málefnalegt, fræðandi og fallegt blað kom út í desember. Mikill fjöldi greina um hálendismálin, Kárahnjúkavirkjun og Þjórsárver hefur litið dagsins ljós síðustu vikur og mánuði. Og enn á að reyna að sýna öræfunum samstöðu með baráttufundi miðvikudaginn 15. janúar.

Það skelfilega er að stóriðju- og stórvirkjanasinnar hlusta ekki á rökin, heldur bregðast við með lítilsvirðingu og sleggjudómum. Raunar er ég handviss um að þeim er alls ekki rótt vegna alls þessa andófs. Það hefur haft gríðarlega mikil áhrif og vakið marga til umhugsunar. En ráðherrar eru því marki brenndir að geta ekki skipt um skoðun hvað sem í skerst. Þeir hafa keyrt málið áfram með offorsi og hvatt Landsvirkjunarmenn til hryðjuverkanna í náttúrunni norðan Vatnajökuls, þar sem þeir hófu alls kyns framkvæmdir meðan ferli málsins var langt frá því lokið. Allt er gert til að búa svo um hnútana að ekki verði við snúið að kosningum loknum.

Og þjóðin hefur aldrei fengið að segja sitt álit. Þetta var ekki kosningamál 1999. Og nú á að tryggja að það verði ekki kosningamál í vor. Vera má þó að sumir flokkanna verði látnir gjalda afstöðu sinna manna á Alþingi þegar atkvæði voru greidd um Kárahnjúkavirkjun.

Margir undrast þrautseigju náttúruverndarsinna í þessu máli, sumir dást að henni, öðrum gremst. Baráttan er háð gegn gjörvallri ríkisstjórninni og gælufyrirtæki hennar, gegn miklum meirihluta Alþingis og gegn risastóru alþjóða fyrirtæki. Baráttan er háð við samansúrruð völd og gríðarlega fjárhagslega hagsmuni.

Útlitið er ekki bjart í augnablikinu. En þessa baráttu verður að heyja. Hana verður að heyja til varnar íslenskri náttúru og fyrir hönd afkomenda okkar. Að öðrum kosti gæti a.m.k. sú sem þetta skrifar ekki horft með góðri samvisku í augu barnabarna sinna.