Þjóðin vill fá að kjósa um Kárahnjúkavirkjun

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur ein stjórnmálasamtaka barist óskipt og einarðlega fyrir verndun og viðgangi íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum svo sem framast er unnt. Vinstri grænir hafa þess vegna staðið nánast einir gegn áformum núverandi ríkisstjórnar og Landsvirkjunar um stórvirkjanir á hálendi Íslands bæði í Þjórsárverum sunnan Hofsjökuls og við Kárahnjúka norðan Vatnajökuls. Vinstri grænir vilja vinna að uppbyggingu þjóðgarða og öðrum kostum sem stuðla að nýtingu náttúruauðlinda á sjálfbæran hátt og af fullri virðingu og tillitssemi við viðkvæma og dýrmæta náttúru landsins. Það er í rauninni sorglegt umhugsunarefni hversu hægt gengur að opna augu margra landsmanna fyrir þeirri ábyrgð sem okkur er falin gagnvart náttúrunni og um leið þeim gjöfum sem hún færir okkur ef við stöndum við okkar hlut.

Baráttan um Kárahnjúkavirkjun hefur verið löng og hörð og sér ekki fyrir endann á henni þrátt fyrir gríðarlegan aflsmun og þrátt fyrir endalaus svik af hálfu stjórnvalda sem láta hervirki Landsvirkjunar til undirbúnings virkjanaframkvæmdum óátalin þvert á áður gefin loforð um að ekkert yrði gert fyrr en skrifað hefði verið undir samninga þar um. Lýðræðissinnar gagnrýna þá valdníðslu stjórnvalda að ætla að ráðast í mestu virkjanaframkvæmdir Íslandssögunnar án þess að leyfa þjóðinni að segja álit sitt í kosningum.

Vinstri grænir hafa unnið þrotlaust að því innan og utan Alþingis að varpa ljósi á alla þætti málsins og reyna að sannfæra stjórnvöld um réttmæti þess að landsmenn fái að segja sitt um þessar framkvæmdir. Tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun samhliða alþingiskosningunum í maí er nú til meðferðar í þingnefnd og ætlunin að fá hana aftur inn á þingfund til afgreiðslu á næstu dögum. Verður fróðlegt að sjá þingmenn allra flokka opinbera lýðræðisást sína við atkvæðagreiðslu um tillögu Vinstri grænna.

Þingflokkur VG ákvað að kanna vilja landsmanna til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið og fékk Gallup til verksins. Niðurstöður könnunarinnar var kynnt fjölmiðlum í gær og vakti mikla athygli, en ekki virðast þeir þó skynja mikilvægi málsins eins og þeir unnu úr því. E.t.v. trufla almennar stjórnmálaskoðanir að einhverju leyti þá afgreiðslu.

Í könnuninni var spurt tveggja spurninga:

1.

Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvægustu málefni þjóðarinnar?

2.

Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun?

Niðurstöður könnunarinnar eru afdráttarlausar:

1.

79% svarenda eru hlynntir þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvægustu málefni þjóðarinnar, 15% eru andvígir og 7% svara hvorki né. 2. 64% svarenda eru hlynntir þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun, 30% eru andvígir, en 6% svara hvorki né.

Þegar litið er til afstöðu svarenda með tilliti til stuðnings við stjórnmálaflokka kemur í ljós afgerandi stuðningur meðal stuðningsmanna allra stjórnmálaflokka við þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvægustu málefni þjóðarinnar, minnstur þó meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks, mestur meðal stuðningsmanna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Meiri munur kemur fram í svörum við spurningunni um Kárahnjúkavirkjun. Stuðningsmenn Vinstri grænna eru að miklum meiri hluta fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjuna, stuðningsmenn Samfylkingarinnar eru henni frekar hlynntir, en fylgjendur stjórnarflokkanna umtalsvert síður.

Ýmsar aðrar greiningar á niðurstöðum könnunarinnar skila forvitnilegum upplýsingum. Þannig eru konur talsvert hlynntari þjóðaratkvæðagreiðslu en karlar og yngra fólk fremur en eldra. Þessi munur kemur sérstaklega fram þegar spurningin snýst um Kárahnjúkavirkjun.

En hvernig sem litið er á hinar ýmsu greiningar er niðurstaðan ein og ljós: ÞJÓÐIN VILL FÁ AÐ KJÓSA UM KÁRAHNJÚKAVIRKJUN.