Nú hafa Vinstri grænir birt framboðslista sína í öllum sex kjördæmum. Sá síðasti var samþykktur á fundi kjördæmisráðs í Suðvesturkjördæmi í gærkvöldi.
Ljóst er að verkefni uppstillinganefndar var nokkuð snúið og hefði kannski orðið einfaldara og auðveldara ef sú sem þetta skrifar hefði sýnt áhuga og vilja til að leiða listann eins og raunin var fyrir fjórum árum. Ég hins vegar var þeirrar skoðunar og er það svo sannarlega enn að það væri verkefni og tækifæri fyrir nýjan frambjóðanda og nýtt fólk án þess að ég sé þar með að lasta okkur sem stóðum í baráttunni fyrir fjórum árum. Ég taldi það einfaldlega farsælast fyrir flokkinn og líklegt til að hleypa meira lífi í starfið, sem hefur óneitanlega verið fremur dauflegt í okkar ágæta kjördæmi á þessum fjórum árum sem liðin eru frá kosningunum 1999. Við því er ekki mikið að segja, það eru gjarna örlög þingmannslausra kjördæma. Það kom svo í ljós að mikill áhugi reyndist með félagsmanna á skipan listans og ekkert einfalt að velja í efstu sætin. Þar þarf að taka tillit til margra þátta, svo sem kynferðis, aldurs, búsetu, menntunar og starfa. Það tók uppstillinganefndina marga fundi og mikla vinnu að komast að niðurstöðu sem allir áttu að geta sætt sig við.
Framboðslistann skipa að þessu sinni eftirtalin:
1. Jóhanna B. Magnúsdóttir umhverfisfræðingur, Mosfellsbæ
2. Þórey Edda Elísdóttir verkfræðinemi, Hafnarfirði
3. Ólafur Þór Gunnarsson læknir, Kópavogi
4. Sigmar Þormar félagsfræðingur, Kópavogi
5. Jón Páll Hallgrímsson ráðgjafi og varaformaður Regnbogabarna, Hafnarfirði
6. Oddný Friðriksdóttir viðskiptafræðinemi, Kópavogi
7. Anna Ólafsdóttir Björnsson sagnfræðingur, Bessastaðahreppi
8. Sigurður Magnússon matreiðslumaður og form. Fél. matreiðslumanna, Hafnarfirði
9. Þóra Sigurþórsdóttir leirlistakona, Mosfellsbæ
10. Jens Andrésson vélfræðingur, Seltjarnarnesi
11. Anna Tryggvadóttir nemi, Seltjarnarnesi
12. Gestur Svavarsson íslenskufræðingur, Hafnarfirði
13. Guðbjörg Sveinsdóttir hjúkrunarfræðingur, Kópavogi
14. Ólafur Gunnarsson véltæknifræðingur, Mosfellsbæ
15. Ásdís Bragadóttir talkennari, Bessastaðahreppi
16. Dagur Kári Pétursson kvikmyndagerðarmaður, Danmörku
17. Indriði Einarsson stærðfræðinemi, Garðabæ
18. Svanur Halldórsson leigubifreiðastjóri, Kópavogi
19. Kristján Jónasson jarðfræðingur, Seltjarnarnesi
20. Kolbrún Valvesdóttir garðyrkjumaður, Kópavogi
21. Arnþór Helgason framkvæmdastjóri ÖBÍ, Seltjarnarnesi
22. Kristín Halldórsdóttir fyrrverandi alþingiskona, Seltjarnarnesi.
Mér líst vel á þennan lista. Ég er glöð og ánægð með að hér skuli vera konur í tveimur efstu sætunum og tel það flokknum til framdráttar að mál skuli hafa skipast með þeim hætti. Ég þekki Jóhönnu B. Magnúsdóttur og hennar verk, hún býr að mikilli og verðmætri þekkingu og reynslu, m.a. á sviði umhverfismála og ferðaþjónustu, hún kann allt um sjálfbæra þróun og með henni er gott að vinna. Ég veit það af eigin reynslu. Þóreyju Eddu þekki ég ekki persónulega, en hef heyrt margt gott um hana, og þjóðin veit hvers hún er megnug með stöngina í höndunum. Hún stekkur nú stangarlaus inn á vettvang stjórnmálanna, baráttuglöð og vinnufús. Ég fagna hennar innkomu, það er flokknum mikilvægt að fá til liðs svo unga konu sem er til alls líkleg. Önnur sæti eru einnig vel skipuð og sérstakt ánægjuefni hversu margt ungt fólk er á listanum, allt niður í 18 ára í 11. sætinu. Það er ljóst að mesta álagið verður á þeim tveimur, Jóhönnu og Þóreyju Eddu, í þeirri baráttu sem framundan er. Okkar hinna er að axla þá ábyrgð að styðja þær með ráðum og dáð. Vinstri grænir í SV-kjördæmi hafa allt að vinna í komandi kosningum. Það munaði sáralitlu að við fengjum okkar fulltrúa á þing í kosningunum 1999. Með samstilltu átaki og sannri baráttugleði ættum við að eiga a.m.k. einn fulltrúa í þingflokki Vinstri grænna á næsta kjörtímabili, jafnvel tvo. Að því munum við stefna.