Kárahnjúkamálið er efst á baugi þessa dagana hjá náttúruverndarsinnum og ekki að undra eftir vel heppnaða aðgerð á Austurvelli í dag. Frétt um hvað til stæði barst sem eldur í sinu með tölvupósti í gær og morgun og það nægði til að draga fjölda fólks að fótskör Jóns Sigurðssonar um hádegisbilið.
Elísabet Jökulsdóttir skipulagði lifandi keðju frá Jóni að dyrum hins nýja skála Alþingishússins og þannig voru á annað þúsund kort með áskorun um þjóðgarð í stað Kárahnjúkavirkjunar handlönguð til Maríu Ellingsen sem afhenti þau Halldóri Blöndal þingforseta. Kortin sýna myndir af náttúrunni sem fer undir vatn ef virkjunin verður að veruleika. Þingforseti tók vel á móti þessu uppreisnarliði, gekk á röðina og heilsaði fólki með handabandi þar til honum hefur líklega orðið ljóst að það tæki hann alltof langan tíma að heilsa öllum fjöldanum, þá sneri hann við og stillti sér upp til móttöku í dyrum skálans. Að lokinni þessari athöfn tóku fjallabílstjórar við og þeyttu flautur sínar góða stund og fólkið á vellinum klappaði og hrópaði “Aldrei, aldrei Kárahnjúkavirkjun! Verjum, verjum Þjórsárver.” Síðar fór einhver hópur með kortabunka til forseta Íslands og því næst til borgarstjóra og borgarfulltrúa.
Það stórkostlega við alla þessa baráttu gegn náttúruspjöllum á hálendinu, sem staðið hefur frá því seint í ágúst, er hvernig allar þessar margvíslegu aðgerðir hafa sprottið beint upp úr grasrótinni og orðið að veruleika fyrir samstillt átak sem hefur í rauninni þarfnast lítillar skipulagningar. Fólki bara dettur eitthvað í hug og framkvæmir hugmyndir sínar með dyggum stuðningi hópsins eftir getu hvers og eins.
Upphaflega beindist baráttan eingöngu gegn náttúruspjöllunum, en síðustu vikur hefur umræðan snúist æ meira um fjárhagslega þætti málsins og það er að mörgu leyti gott vegna þess að sú umræða hefur meiri áhrif á ráðamenn, hún bítur meira, menn eiga erfiðara með að hrekja þau rök og hún virðist vera farin að ná allrækilega til þeirra sem láta sig lítt varða náttúru landsins, en þeim mun meira efnahags- og atvinnumál. Eitt finnst mér þó gleymast um of í allri þeirri umræðu, úr því menn endilega vilja hafa þessi fjárhagslegu rök, og það er arðsemi þess að vernda náttúruna. Virkjanasinnar liggja á því lúalagi að setja dæmið upp sem annað hvort Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði eða vaxandi atvinnuleysi og versnandi þjóðarhagur. Þannig er þetta bara alls ekki.
Hver er sérstaða Íslands? Hvað vegur þyngst í samkeppninni um athygli umheimsins og markar undirstöðu ekki bara þjóðarvitundar, heldur einnig atvinnulífs og útflutnings bæði þjónustu og vöru af margvíslegu tagi? Það er fyrst og fremst sérstæð náttúra landsins, hreinleiki og óbeisluð náttúruöfl. Þetta er það sem ferðamenn sækjast eftir og þetta er það sem selur vörurnar okkar, hvort sem það eru matvæli eða eitthvað annað. Þetta er það sem Ísland er þekkt fyrir.
Með því að vanvirða náttúruna og leggja hana í fjötra, skerða víðernin, þagga niður í fossum og gljúfrum, kaffæra einstæðar jarðmyndanir og háfjallagróður, er verið að saga undan okkur greinina sem þjóðin situr á.
E. s. Ekki var ég par ánægð með kvöldfréttir fréttastofu útvarpsins sem sagði ítarlega frá samningabröltinu milli Alcoa og allra hinna og spurði bæjarstjóra Fjarðabyggðar um ánægju hans og hamningjusemi, en nefndi ekki einu orði aðgerðir náttúruverndarsinna um sama leyti. Fréttastofa sjónvarpsins stóð sig ólíkt betur að þessu sinni.