Baráttan um virkjun eða ekki virkjun við Kárahnjúka tekur á sig ýmsar myndir og atburðir líðandi stundar bera með sér að forsvarsmenn Landsvirkjunnar hafa gjörsamlega tapað allri dómgreind. Fremstur fer Jóhannes Sigurgeirsson stjórnarformaður og sérlegur fulltrúi Framsóknar. Nú nægir honum ekki lengur að sífra yfir pirrandi náttúruverndarsinnum, heldur vílar hann ekki fyrir sér að ráðast að einstökum vísindamönnum sem hafa leyft sér að komast að öðrum niðurstöðum en honum eru þóknanlegar.
Ríkisútvarpið brást að mínu mati við umfjöllun þessa sérstaka máls. Jóhannes Sigurgeirsson vó að starfsheiðri vísindamanna í fréttum Sjónvarpsins að kvöldi fimmtudagsins 5. desember, en það var ekki fyrr en í kvöldfréttum á sunnudag sem einum þeirra gafst kostur á að svara til um málið og fréttastofan gerði ekkert til að varpa ljósi á málið að öðru leyti. Í tilefni af þessu lagði ég fram eftirfarandi bókun á fundi útvarpsráðs í morgun.
“Ég tel það mjög alvarlegt hvernig forsvarsmenn Landsvirkjunar hafa komist upp með að vega ítrekað opinberlega að starfsheiðri vísindamanna og hreinlega farið með rangt mál án þess að þeim hafi gefist á sama hátt kostur á að svara fyrir sig eða að fréttamenn grafist fyrir um sannleikann í málinu. Er ég þá m.a. að vitna til endurtekinna fullyrðinga stjórnarformanns Landsvirkjunar þess efnis að Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor, fari rangt með tölur um vatnsborðssveiflu Hálslóns. Staðreyndin er sú að tölurnar, sem sanna málflutning Þóru Ellenar Þórhallsdóttur, er að finna á heimasíðu Landsvirkjunar. Það er mjög alvarlegt að vega að starfsheiðri vísindamanna með þeim hætti sem forsvarsmenn Landsvirkjunar hafa gert. Ég tel að fréttamenn hafi brugðist þeirri skyldu sinni að leiða sannleikann í ljós.”
Athugasemd minni var vísað til forstöðumanns fréttasviðs.