Hvað er það sem fær sæmilega upp alda og tiltölulega dagfarsprúða konu á sínum efri árum til að ögra lögum og reglum, takast á við laganna verði um fána borgar og þjóðar, syngja baráttusöngva og hrópa eins og lungun leyfa slagorð gegn áformum stjórnvalda, steytandi hnefann æst og reið? Rangindi, heimska og ofbeldi þeirra sem ráða, vanmáttur gagnvart kúgun og lítilsvirðingu, allt kallar þetta á slík viðbrögð, en fyrst og fremst er það ást og virðing gagnvart dýrmætri náttúru og djúpstæð sannfæring um að með heimskulegum ákvörðunum sé verið að eyðileggja að eilífu þær þjóðargersemar sem okkur hefur verið trúað fyrir.
Það er svo mikið um að vera þessa dagana að það gefst varla tími til að skrásetja viðburðina. Hæst ber baráttufundinn mikla í Borgarleikhúsinu sl. miðvikudag, 15. janúar, undir yfirskriftinni “Leggjum ekki landið undir – björgum þjóðarverðmætum.”
Ekki var nóg með að stuðningsfólk þjóðarverðmætanna troðfyllti húsið, það hreinlega yfirfylltist og margir urðu frá að hverfa. Sjálf lenti ég í því að standa allan tímann upp á endann án þess að geta hallað mér neins staðar upp að né tylla mér í tröppu, til þess gafst hreinlega ekki nokkur sentimetri. Dagskráin tók tvo og hálfan tíma og mér varð ekki svefnsamt langt fram eftir nóttu vegna þreytuverkja í baki og fótum. En það var þess virði því dagskráin var hreint út sagt frábær. Hvert einasta atriði fól í sér rökstuðning við málstaðinn og kallaðist bæði á við skynsemi og tilfinningar. Stemningin reis hátt og sum atriðin voru svo áhrifamikil að tárin hlutu að renna. Eitt hið áhrifamesta var þegar Diddú söng á sinn yndislega hátt um svanasöng á heiði meðan myndir frá Kárahnjúkasvæðinu runnu yfir skjáinn og sýndu okkur alla þá stórkostlegu blöndu fegurðar og hrikaleika sem þar er að finna.
Daginn eftir söfnuðust mótmælendur hundruðum saman við Ráðhúsið til að sýna hug sinn vegna umræðu og atkvæðagreiðslu um ábyrgðir Reykjavíkurborgar vegna Kárahnjúkavirkjunar. Þar var svolítið ólíkur bragur á mannsöfnuðinum en á baráttufundinum kvöldið áður. Samkenndin var hin sama, en nú hafði reiði tekið við af angurværðinni. Við örkuðum gegnum Ráðhúsið, yfir brúna og eftir Vonarstræti, kyrjandi slagorð á fullum styrk. Við hlóðum táknræna vörðu til varnar víðernunum, við drógum þjóðfánann og borgarfánann í hálfa stöng og stympuðumst við embættismenn og lögreglu, við sungum og hrópuðum slagorð og áheyrendapallarnir voru þéttsetnir allan tímann sem umræðan stóð. Þar stóðu menn og hömpuðu fánum með slagorðum, það var púað á meðmælendur virkjunar og klappað fyrir hinum. Í upphafi var reynt að hafa hemil á mannskapnum, því samkvæmt reglum má enga háreysti hafa þar í frammi, en loks gáfust forseti og laganna verðir upp á því og létu pú og klapp óátalið.
Það var býsna séstakt að sjá þrjá lögreglubíla við Ráðhúsið allan daginn og lögregluþjóna við öllu búna. Þeim leist augljóslega ekki á blikuna og hver veit nema þeir hafi haft táragas í skottinu ef þörf yrði á hörku. Og víst er að ýmsir voru gripnir óþreyju að láta frekar til sín taka.
Margir hafa hneykslast á þessum “ólátum” eins og mótmælaaðgerðirnar þennan dag hafa verið kallaðar. En í rauninni má undrast eða þakka fyrir eftir aðstæðum að þær urðu ekki hatrammari. Menn verða að reyna að skilja líðan þessa fólks sem skynjar sig beitt þvílíku ofríki, ofbeldi og ranglæti að það hlýtur að brjótast út á einhvern hátt. Margir úr þessum hópi hafa mánuðum saman mótmælt á friðsamlegan hátt án þess að fjölmiðlar hafi séð ástæðu til að gera þeirri þrautseigju verðug skil og ráðamenn hafa komist upp með að rakka mótmælin niður og sýna baráttufólkinu lítilsvirðingu. Var ekki bara kominn tími til að sýna fullan styrk?