Á þessum tíma fyrir réttum 20 árum voru konur í óða önn að skrifa nýjan kafla í sögu íslenskra stjórnmála. Tvær konur höfðu árið áður verið kjörnar í borgarstjórn Reykjavíkur af lista Kvennaframboðs og aðrar tvær í bæjarstjórn Akureyrar. Framundan voru kosningar til Alþingis og allt á suðupunkti í þessari nýju stjórnmálahreyfingu. Átti nú þegar að stíga næsta skref og bjóða fram kvennalista til Alþingis? Við þekkjum svarið. Ævintýrið sem breytti mörgu í íslenskum stjórnmálum var rétt að hefjast.
Síðan er mikið vatn til sjávar runnið og enda þótt vissulega örli á ýmsu úr hugmyndafræði Kvennaframboðs og síðar Kvennalista í stjórnmálum nútímans hefur a.m.k. einn meginþáttur algjörlega verið fyrir borð borinn. Það var hin stefnufasta áhersla á málefni á kostnað persóna. Persónupólitík var eitur í beinum kvennalistakvenna og gegn henni beindust bæði skráðar og óskráðar reglur. Kvennalistakonur kusu sér aldrei formann, þær skiptust algjörlega meðvitað og markvisst á um að koma fram í fjölmiðlum og tala fyrir málefnum hreyfingarinnar og þær settu sér reglur um hámarks tíma sem hver kjörinn fulltrúi gæti setið á Alþingi eða í sveitarstjórn. Markmiðið var að búa ekki til atvinnustjórnmálamenn og þeim tókst að halda þeirri stefnu til streitu lengi vel.
Mér hefur oft orðið hugsað til þessara frjóu og skapandi tíma nú síðustu daga þegar gjörvallur stjórnmála- og fjölmiðlaheimurinn hefur snúist um eina persónu, okkar gömlu góðu kvennalistakonu, Ingibjörgu Sólrúnu. Hún var önnur tveggja kvenna sem settust í borgarstjórn árið 1982 og sat þar næstu 6 árin, kom síðan á þing fyrir Kvennalistann 1991 og sat þar til ársins 1994 þegar hún var boðin fram sem borgarstjóraefni R-listans. Alla tíð síðan hefur hún verið persónugervingur þess samstarfs allra annarra flokka í Reykjavík en Sjálfstæðisflokksins og það svo mjög að margir eiga bágt með að nefna nöfn annarra borgarfulltrúa en hennar. Þannig er komið fyrir þeirri hugsjónavinnu gegn persónupólitíkinni sem stunduð var með misjöfnum árangri þó á dögum Kvennalistans.
En Kvennalistinn stóð líka í margra huga fyrir úthugsaða hugmyndafræði og heiðarleg vinnubrögð og allt þetta fékk okkar ágæta Ingibjörg Sólrún í nesti með sér inn í borgarstjórastarfið. Nú er hún bendluð við svik og óheiðarleika í garð kjósenda og í garð samstarfsaðila sem fólu henni hlutverk sameiningartáknsins og létu sér ekki til hugar koma að njörva þyrfti hvert hugsanlegt framtíðarspor niður í skrifaðan sáttmála. Sínum augum lítur hver á silfrið og ég trúi því að hvorki svik né óheiðarleiki hafi verið í huga Ingibjargar Sólrúnar þegar hún tók umdeilt skref til framboðs fyrir nokkrum dögum.
Þegar Össur tók frumkvæðið úr höndum Ingibjargar Sólrúnar og upplýsti í fjölmiðli að hún tæki 5. sæti annars framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík þá vissi ég ekki frekar en margir aðrir hvaðan á mig stóð veðrið og enn síður eftir að Ingibjörg Sólrún lét draga út úr sér jáyrði um málið. Ég trúði ekki eigin eyrum og geri það í rauninni ekki enn nú þegar sú niðurstaða blasir við að hún mun hætta sem borgarstjóri. Hvað liggur að baki þessum óviturlegu vinnubrögðum þeirra Össurar?
Ingibjörg Sólrún er meira en í meðallagi greind og klók og hlaut að gera sér grein fyrir viðbrögðum samstarfsfólks í R-listanum. Þau eru að minni hyggju afskaplega skiljanleg þótt ég vildi óska að þau hefðu verið öðru vísi og leitt til annarrar niðurstöðu en nú blasir við. Vissulega hefur Ingibjörg Sólrún brugðist trausti þeirra sem fólu henni fararstjórn R-listans og hafa staðið þétt að baki hennar. Í viðbrögðum þeirra felst ekki ótti eins og þau Össur vilja vera láta, heldur fyrst og fremst réttlætiskennd, vonbrigði og auðvitað nokkur reiði og reyni nú hver að setja sig í þeirra spor. Sá veldur miklu sem upphafinu veldur.
Nú er það að sönnu enginn héraðsbrestur þótt Ingibjörg Sólrún stígi upp úr stól borgarstjóra og ég skil vel að hún sé orðin þreytt á stöðunni. Alltof algengt er að menn hangi of lengi í starfi sem þeir eru orðnir leiðir á og baráttuglöð kona eins og Ingibjörg Sólrún vill keppa að nýjum vinningum. Hún er metnaðarfull, hugmyndarík og rökföst og á sannarlega erindi í landsmálin algjörlega burtséð frá afstöðu hennar til einstakra mála sem mér hugnast vissulega ekki alltaf. En mikið vildi ég að þau vettvangsskipti hefðu borið öðru vísi að.
Að mínu viti snýst allt þetta mál fyrst og fremst um trúnað og traust og því miður hafa slík hugtök og meiningin að baki þeirra beðið hnekki. Nú eru margir reiðir og sárir, aðrir vonsviknir og leiðir. Við skulum vona að málefnin hafi sigur að lokum.