Vinstri-grænir fór sína árlegu sumarferð 6. – 8. ágúst sl. og mun hún áreiðanlega lifa lengi í minni ferðalanga. Stórbrotin náttúran lék þar aðalhlutverk auk þess sem máltækið góða “maður er manns gaman” sannaðist rækilega. Við vorum 70 sem fórum inn að Langasjó á laugardaginn í 2 vel búnum fjallabílum og 1 jeppa sem Björn og Þuríður lögðu til þegar í ljós kom að hvert sæti var fyllt í rútunum. Hilmar Gunnarsson og Broddi sonur hans sátu hvor í sinni rútu og miðluðu okkur bæði fræðslu og skemmtun og Þorsteinn Ólafsson fræddi jeppafólkið.
Veðrið hefði vissulega mátt vera blíðara inn við Langasjó, en okkur tókst þó að sjá og skynja þá ægifegurð og mikilfengleik sem umhverfið þarna býr yfir. Það gekk á með hryðjum roks og rigningar þegar við komum inn að Sveinstindi og í reynd varla hundi út sigandi. Eftir hetjulegar tilraunir til að njóta útsýnisins var því smalað í bílana og ekið í átt að Vatnajökli norðvestan með Langasjó alla leið upp á Breiðbak og þótti ýmsum leiðin allháskaleg. Þangað komin gátum við séð yfir á Tungná og glitt í Veiðivötn. Síðan var aftur ekið að Sveinstindi við suðvesturenda Langasjávar og hafði þá verulega ræst úr veðri svo að hægt var að ganga þar um og upp á hóla til að njóta útsýnisins sem er vægast sagt magnað. Má búast við að margir verði til þess að renna aftur inn að Langasjó til að njóta þessarar stórbrotnu náttúru í betra veðri og skyggni.
Öllum sem þrek og þor hafa er ráðlagt að ganga á Sveinstind þaðan sem er víðsýnt mjög og sagt að ætla til þess 1 – 3 stundir samanlagt. Tveim galvöskum félögum, þeim Steingrími J. og Þorvaldi Erni, fannst ómögulegt annað en að þreyta uppgöngu á Sveinstind þótt tíminn væri naumur og þeir runnu skeiðið beinustu leið upp á 25 – 30 mínútum! Þar biðu þeir þess stutta stund að vindur hreinsaði tindinn og sáu þá vítt um veröld alla.
Um kvöldið reiddu 2 konur úr sveitinni, þær Elísabet og Guðveig, fram firnagott holugrillað lambalæri með öllu tilheyrandi og jók það enn á gleði ferðalanga sem spiluðu og sungu og fóru með gamanmál eftir því sem andinn innblés. Entust reyndar sumir betur en aðrir fram eftir nóttu, en við nefnum engin nöfn.
Á sunnudagsmorguninn skildu leiðir, þar sem margir voru á eigin bílum. Langferðabíllinn fór hins vegar Fjallabaksleið nyrðri og skorti nú ekkert á birtuna og víðsýnið. Var sérlega gaman fyrir mig að fara víða sömu leiðir eða nálægt sem sem við riðum í Fáksferðinni skömmu áður. Stansað var víða á góðum útsýnisstöðum, komið við í Landmannalaugum og við Ljótapoll. Margir voru að kynnast þessu svæði í fyrsta sinn og mikil ánægja að ferðalokum.