Landsvirkjun eins og frekur krakki

Landsvirkjun virðist sérstaklega uppsigað við vernduð svæði þessa lands. Henni er nú að takast með sérlegum stuðningi ríkisstjórnar og meirihluta Alþingis að umbylta náttúrunni norðan Vatnajökuls og þar með töldu friðuðu svæði Kringilsárrana. Henni virðist einnig ætla að takast að troðast inn í friðlandið í Þjórsárverum. Og nú hefur hún lagt til atlögu við Laxársvæðið í Suður-Þingeyjarsýslu sem er verndað með sérstökum lögum. Landsvirkjun er ekkert heilagt. Hún er eins og frekur krakki sem hættir ekki að suða og tuða um nammi og dót þar til foreldrarnir láta undan og kaupa sér frið. Foreldrarnir í þessu dæmi, ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, eru því miður einstaklega undanlátssamir og hafa ekki minnsta áhuga á uppeldi þessa frekjudalls enda sjálfir illa haldnir af frekju og tillitsleysi.

Vonandi verður hægt að stöðva nýjustu fyrirætlanir Landsvirkjunar sem fram koma í drögum að matsáætlun vegna hækkunar stíflu í Laxárgljúfri, en frestur til að skila inn athugasemdum um hana rann út í dag, 11. júlí. Vegna langþráðra sumardaga er hætt við að fáir hafi brugðist við á þessu stigi, en fari málið lengra gefast tækifæri á síðari stigum.

Sjálf rankaði ég við mér á síðustu stundu og sendi eftirfarandi athugasemd:

Landsvirkjun

Háaleitisbraut 68

103 Reykjavík

Seltjarnarnesi 10. júlí 2003

Efni: Drög að tillögu að matsáætlun vegna hugmynda um hækkun stíflu efst í Laxárgljúfri í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu.

Undirrituð hefur kynnt sér drög að tillögu að áætlun um mat á umhverfisáhrifum vegna hækkunar stíflu í Laxá í Aðaldal og gerð inntakslóns sem sökkva mundi landi beggja vegna Laxár upp eftir Laxárdal.

Það sætir undrun að þessar hugmyndir skuli enn skjóta upp kolli á skjön við þrjátíu ára gamalt samkomulag um að ekki verði af frekari virkjunarframkvæmdum á þessu svæði.

Eins og réttilega er bent á í drögunum gilda um þetta svæði lög nr. 36/1974 um verndun Mývatns og Laxár. Samkvæmt þeim er hvers konar mannvirkjagerð og jarðrask óheimil á 200 m breiðum bakka meðfram Laxá báðum megin nema leyfi Umhverfisstofnunar komi til. Þar eru einnig ákvæði um að breytingar á hæð vatnsborðs stöðuvatna og rennsli straumvatna séu óheimilar nema til verndunar og ræktunar þeirra.

Það verður að teljast nánast óhugsandi að Umhverfisstofnun leyfi fyrirhugaðar framkvæmdir sem ganga svo algörlega í berhögg við lög um verndun Mývatns og Laxár.

Undirrituð telur þær röksemdir afar veikburða sem settar eru fram í drögunum til stuðnings þessum fyrirætlunum. Þær geta ekki með nokkru móti réttlætt fyrirhugaðar framkvæmdir á þessu sérstæða og sérstaklega lögverndaða svæði.

Undirrituð leggur til að Landsvirkjun leggi þessar hugmyndir endanlega á hilluna og leiti annarra ráða til að leysa vanda við rekstur Laxárvirkjunar.

Virðingarfyllst,

Kristín Halldórsdóttir

kt. 201039-4529

Fornuströnd 2

170 Seltjarnarnesi