19. júní er mikill merkisdagur þótt ekki þyki ástæða til að gefa gjörvallri þjóðinni frí til að halda upp á hann með verðugum hætti. En ég lít nánast á það sem skyldu mína að lyfta huga og sál þennan dag, hugsa til formæðra okkar og fyrirrennara og gleðjast yfir því sem áunnist hefur í réttindabaráttu kvenna síðustu 100 árin eða svo. Þó finnst mér alltaf ögn óþægilegt hvað þessi barátta er lokuð bók fyrir mörgum sem kunna ekki einu sinni skil á því að þennan dag, 19. júní árið 1915, staðfesti Danakonungur nýja stjórnarskrá Íslendingum til handa með kosningarétti og kjörgengi kvenna. Að vísu var það ekki fyrr en 5 árum síðar að síðustu leifunum af misræmi milli kynja var útrýmt, en 19. júní 1915 var stærsta skrefið stigið og því er sá dagur hafður í heiðri.
Síðan þessum mikilvæga áfanga var náð fyrir 88 árum hefur margt og mikið áunnist í baráttunni fyrir jöfnum rétti og jafnri stöðu kynjanna. Á ýmsu hefur þó gengið og alls ekki alltaf jafn skemmtilegt og uppörvandi. Kvennabaráttan er í rauninni eins og vatnið sem birtist okkur í ótal myndum. Hún rís og hnígur, en hún þornar aldrei upp. Stundum er hún eins og beljandi fljót í vorleysingum, stundum eins og ljúfur lækur, jafnvel kyrrlátt stöðuvatn sem gárast öðru hverju í svolítilli golu.
Mér er skiljanlega nærtækast að hugsa til áranna í Kvennalistanum sem voru bæði ótrúlega skemmtileg og árangursrík. Kannski eru margir búnir að gleyma hvernig ástandið var í aðdraganda kosninganna 1983. Þá voru þingmenn 60 talsins – þar af þrjár konur og þær höfðu aldrei verið fleiri í einu allar götur síðan konur fengu loks kosningarétt og kjörgengi. Aðeins 12 konur í það heila höfðu til þessa verið kjörnar á Alþingi, sú fyrsta árið 1922 og þá af sérstökum kvennalista. Það þóttu því undur og stórmerki þegar 9 konur náðu kjöri í kosningunum vorið 1983. Prósentutala kvenna á Alþingi Íslendinga jókst í einu vetfangi úr 5% í 15%. Konum fjölgaði síðan um hverjar kosningar þaðan í frá og skipuðu 37% þingsæta fyrir síðustu kosningar, en þá kom bakslagið og hlutfallið lækkaði í 30%. En árangur Kvennalistans fólst í fleiru en fjölgun kvenna á Alþingi og í sveitarstjórnum. Áherslur breyttust í stjórnmálunum og umræðan breyttist í samfélaginu. Fordæmi Kvennalistans hafði áhrif langt út fyrir vettvang stjórnmálanna.
Þessa stundina er talsvert rok og jafnvel fossaföll í kvennabaráttunni. Það er mikil ólga í konum sem birtist m.a. í nýstofnuðu Femínistafélagi og starfsemi þess félags og ekki síst á póstlistanum feministinn.is. Þar skvettist upp úr farveginum og gusurnar ganga. Þar er rætt um fegurðarsamkeppni, foreldraréttinn, staðalímyndir, kvenfjandsamlegar auglýsingar, klám, kosningabaráttu og kvenframbjóðendur, heimskulegar heimsbókmenntir o.fl. o.fl. Femínistarnir hafa stofnað hópa um hin ýmsustu málefni og þær fleygja ekki bara hugmyndunum fram í hrönnum, heldur framkvæma þær líka. Allar miða þær að því að vekja athygli á stöðu mála og nauðsyn þess að breyta og bæta. Og það tekst vegna þess að aðferðirnar eru áleitnar og nýstárlegar.
Bleiki liturinn er einkennislitur femínistanna og hann setur svo sannarlega svip á daginn í dag. Allir femínistar voru hvattir til að skarta bleiku í tilefni dagsins og undirrituð er hálf skömmustuleg yfir því að hafa ekki getað grafið eitt einasta snifsi í bleikum lit út úr skápum sínum eða skúffum til að sýna samstöðu. Mér fannst ég næstum þurfa að fara með veggjum í fjólubláu peysunni minni, en auðvitað skiptir hið innra meira máli en hið ytra og því lét ég mér nægja að dást að öllum hinum í bleiku bolunum og hugsa svo til genginna baráttukvenna.
Mér finnst hreinlega frábært að fylgjast með þessu ólgandi fjöri og hugmyndaflugi í femínistunum. Þarna er krafturinn og aflvakinn í kvennabaráttunni um þessar mundir og ótrúlegt annað en að upp spretti eitthvað sem skilar okkur enn fram eftir vegi. Þetta minnir óneitanlega á fyrstu árin okkar í Kvennalistanum.