Spítalavist

Í dag er 1. desember og a.m.k. háskólastúdentar og alþingismenn verja deginum til að minnast þess að þjóðin öðlaðist fullveldi þennan dag árið 1918. Undirrituð fagnar því tilefni einnig, en er þó öllu uppteknari af því að í dag eru nákvæmlega 4 vikur síðan ég steig fyrstu völtu sporin eftir mikla viðgerð á verkstæði Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi.

Fyrir allmörgum árum rann það upp fyrir mér að göngulag mitt var eitthvað að breytast og liðleiki að minnka. Ekki hafði ég þungar áhyggjur af því, afgreiddi málið sem hæglátlega aðvífandi elli, en jók þó heldur sundiðkun og teygjuæfingar til að vinna gegn hugsanlegum stirðleika. Og ekki kom til greina að draga af sér á skíðum eða blaki, hvað þá í hestamennskunni.

Allt kom þó fyrir ekki, grunsemdir jukust um að ekki væri allt með felldu og þegar verkir voru farnir að ræna nætursvefni varð ekki undan komist að leita álits sérfræðings. Dómur hans var sá að þetta ætti bara eftir að versna og á endanum yrði að skipta um mjaðmarlið. Blessaðir læknarnir, bæði heimilislæknar og sérfræðingur, gerðu sitt til að fresta þessari óhjákvæmilegu aðgerð og gera mér kleift að sinna sem lengst fullri vinnu og áhugamálum. Tvívegis fékk ég sterasprautur í liðinn sem gerðu gagn í nokkrar vikur, og ekki voru mér spöruð verkjalyf af ýmsu tagi.

Í hestaferðum síðasta sumars varð mér endanlega ljóst að fleiri slíkar færi ég ekki nema að undangenginni aðgerð. Bjóst við að nú tæki við margra mánaða bið, en ég var lánsöm og kallið kom fyrr en mig varði: 1. nóvember mátti ég koma til undirbúnings aðgerðar, og þar er nú ekki kastað til höndum. Við tók útfylling skjala af öllu mögulegu tagi, mælingar blóðs og blóðþrýstings, hjartalínurit, röntgenmyndatökur, viðtöl við lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraþjálfara og er ég nú hugsanlega að gleyma einhverju. Og slattakorn kostaði þetta allt saman eða hátt í 8 þúsund kr., því enn var ég ekki beint sloppin inn á spítalann þar sem allt er ókeypis – ennþá.

Um kvöldið og næsta morgun skrúbbaði ég mig hátt og lágt með sótthreinsandi sápu og síðan man ég lítið meira fyrr en þriðjudagurinn 2. nóvember var nánast að kvöldi kominn og ég rankaði við mér tengd slöngum og leiðslum við hina aðskiljanlegustu vökva, blóð, lyf og næringu. Mig rámar í þá hugsun mína, þar sem ég lá og horfði á blóðpokann á stöng til vinstri við mig, að vonandi væri þetta úr einhverri vel gerðri manneskju, helst úr góðum vini mínum sem ég vissi að brá sér til blóðgjafar örfáum dögum áður.

Það hressti sálartötrið að sjá stærðar blómvönd með hlýlegum batakveðjum frá vinnufélögunum á náttborðinu um kvöldið þegar mér var velt upp í rúmið á stofu 524. Ekki veitti af notalegum straumum frá góðu fólki þá daga sem í hönd fóru. Umönnun var góð, fumlaus, glaðvær og uppörvandi. Reyndar veigraði ég mér við því að þrýsta á bjöllu eftir aðstoð, ég vissi sem var að blessað fólkið hafði nóg að gera við að hagræða sjúklingum, gefa þeim lyf, hjálpa þeim á snyrtingu og styðja til sjálfshjálpar á alla lund. Og einhvern veginn fannst mér alltaf sem allir aðrir á 5. B hlytu að vera verr farnir en ég.

Í rauninni er stórmerkilegt að lesa sér til um þessa aðgerð sem felst í því að koma fyrir gervilið í slitinni mjöðm og ekki að undra þótt manni detti í hug viðgerð á verkstæði, þar sem varahluturinn “samanstendur af hágæða plastskál og stálkúlu á skafti sem er steypt föst með beinsementi í staðinn fyrir slitna liðinn”, eins og stendur í upplýsingabæklingi spítalans. Þetta er mikið inngrip og tekur tímann sinn fyrir líkamann að aðlagast þessum aðskotahlut, en setning í niðurlagi bæklingsins er uppörvandi: “Fáar aðgerðir skila jafn góðum árangri og gerviliðsaðgerð í mjöðm”. Trúlega lesa margir þessa setningu daglega meðan þeir eru að byggja sig upp.

Fram úr á fyrsta degi var dagskipanin á spítalanum og gekk nú ekki of vel, en svolitlir sigrar unnust á hverjum degi og ekki laust við afrekstilfinningu þegar gangurinn var stikaður á enda á þriðja degi eftir aðgerð. Dugnaðurinn skilaði sér í því að ég var send heim á fimmta degi eftir aðgerðina og verður að viðurkennast að mig langaði mjög að vera örlítið lengur í öruggum höndum þessa ágæta fagfólks á 5. B. En ég beit á jaxlinn þegar ég sá ástandið á deildinni og þörfina fyrir rúmið mitt og þó þau hefðu verið fleiri.

Deildin hinum megin við holið var lokuð, enda spítalanum gert að spara. Innst á ganginum lá ungur strákur allur vafinn og skrámaður eftir bílslys, og á miðjum ganginum lá fullorðin kona sem hafði dottið við að koma sér úr strætisvagni, tvíbrotin á læri og illa haldin af kvölum í baki. Hún fékk rúmið mitt.