Enn ein eftirminnileg Fáksferð er að baki, sumarferð Fáks 2003. Við lögðum upp frá Kaldbak í Hrunamannahreppi um miðjan dag 17. júlí í um 25 stiga hita. Líklega átti hitinn sinn þátt í því hversu vel gekk að hafa hemil á lausu hrossunum, en þau eru oft óþekk í upphafi ferðar, eiga þá eftir að samlagast og læra að treysta fararstjórn.
Fyrsta daginn riðum við upp með gljúfrum Stóru-Laxár og náttuðum í Helgaskála. Næsta dag lá leiðin í Hólaskóg heldur leiðigjarnan veg, en hápunktur dagsins var Háifoss í Fossá efst í Þjórsárdal, einkar fallegur í djúpu gili. Og enn var hitinn slíkur að úlpan var bundin um mittið allan daginn. Í Hólaskógi er nýbyggður skáli með mjög góðri aðstöðu, m.a.s. sturtum, en það telst til munaðar í hestaferðum. Þriðji áfanginn var í Gljúfurleit og síðdegis þann dag dró loks úr hitanum sem verður líklega það sem kemur fyrst í hugann þegar ferðarinnar verður minnst. Hitinn fór ekki undir 20 stig fyrstu þrjá dagana og hélt talsvert aftur af mönnum og hestum.
Fjórða daginn héldum við í Bjarnalækjarbotna með viðkomu hjá fossinum Dynk í Þjórsá. Skálinn í Bjarnalækjarbotnum er ansi langt frá því að vera aðlaðandi, en umhverfið er skemmtilegt og götur þangað góðar. Fimmta daginn var stefnan tekin í dálitlum sveig til Kerlingarfjalla. Dagleiðin sú var löng og býsna ströng og nú voru menn og hestar fegnir að vera lausir við hitann, því að hvorki vott né þurrt, vatn né gras, var að fá mestalla leiðina. Þegar loksins sást í vatnsfall undir fjöllunum greikkuðu hestarnir sporin og var tilkomumikið að sjá hópinn dreifa sér og streyma niður brekkuna og svolgra í sig tært vatnið úr ánni. Þvílíkt sem þeir drukku, blessaðir klárarnir.
Ýmislegt hefur breyst í Kerlingarfjöllum síðan fyrir aldarfjórðungi þegar við vorum þar vikulangt með barnahópinn að skemmta okkur á skíðum. Nú festir ekki lengur nægan snjó til að hægt sé að renna sér þar á skíðum á sumrin. Nú heitir þetta hálendismiðstöðin í Ásgarði, húsum hefur fjölgað og aðstaðan breyst og batnað. Við hvíldum okkur og hrossin í einn dag sem var ágætt að öðru leyti en því að hestagerðið var of þröngt og þótt þeim væri séð fyrir nægu heyi og vatni voru þau ekki alveg ánægð og brutust út úr gerðinu seinni morguninn. Þá kom sér vel að einn nikótínfíkillinn þurfti að reykja naglann sinn eldsnemma og sá hvað gerðist. Hrossin náðust því fljótlega og tókst ekki að gera mikinn usla í grasi vöfðum brekkunum.
Frá Kerlingarfjöllum var stefnan markviss til byggða: Svínárnes, Helgaskáli, Kaldbakur. Veðrið var áfram milt og gott, en síðustu tvo dagana gerði hellirigningu í ferðalok. Það var því býsna niðurrigndur hópur sem safnaðist saman á Kaldbak síðdegis 25. júlí og gæddi sér á kaffi og tertum áður en kvaðst var með kossum og þökkum eftir einkar skemmtilega ferð um afréttir Skeiðamanna, Gnúpverja og Hrunamanna.
Okkar ágætu ferfættu vinir hvíla sig nú í heimahögum til næstu hestaferðar síðustu vikuna í ágúst.