Þvílíkt ólán að ekki tókst að skipta um ríkisstjórn. Ekki bara vegna þess að tími var kominn á ferska vinda og aðrar áherslur en þjóðin hefur mátt búa við síðustu þrjú kjörtímabil, heldur ekki síður vegna þess að vinnubrögð leiðtoga stjórnarflokkanna bera þess glöggt vitni að þeir eru búnir að sitja of lengi. Þeir eru farnir að hegða sér eins og þeirra sé valdið langt umfram eðlileg mörk. Og kannski er þjóðin þegar orðin svo vön þessum stjórnarháttum að hún nenni ekki að bregðast við. Heldur ekki fjölmiðlarnir. Því er ver.
Þeir lofuðu miklu, Davíð og Halldór, í ákafa sínum að halda völdum og þeir runnu saman alls hugar fegnir að loknum kosningum. Þeim nægðu örfáir dagar til að ráða ráðum sínum og svo skýrðu þeir glaðhlakkalegir frá niðurstöðunum. Furðulegast var að hlusta á Davíð segja frá hvernig hann ráðstafar fólki í embætti í áföngum og eftir hentugleikum, einum í sendiráð í París, öðrum í embætti forseta Alþingis. Og brosmildir fjölmiðlamenn jánka bara og flýta sér á skrifstofur sínar til að segja þessar makalausu fréttir án þess svo mikið sem ýja að því að nokkuð sé athugavert við ráðstafanir af þessu tagi. Vita þeir ekki að það er Alþingi Íslendinga sem kýs sér forseta? Sjá þeir ekkert athugavert við það að nýkjörnum alþingismanni með ráðherranafnbót sé vippað bara si sona til Parísar. Var kjósendum nokkuð sagt frá því?
Í aðdraganda alþingiskosninga fyrir 16 árum setti Kvennalistinn stjórnmálamenn og –fræðinga úr jafnvægi með því uppátæki sínu að boða stólaskipti á næsta kjörtímabili. Kvennalistinn hafði þá átt 3 fulltrúa á Alþingi í 4 ár eftir framboð í 3 kjördæmum. 1987 voru boðnir fram listar í öllum kjördæmum og tvær þeirra sem setið höfðu þingið í 4 ár leiddu hvor sinn lista. Með hliðsjón af þeirri hugmyndafræði að ekki væri ætlunin að hlaða undir atvinnumennsku í stjórnmálum var því lýst yfir að við þessar “vönu” myndum víkja fyrir frambjóðendum í næstu sætum að hálfnuðu kjörtímabili.
Blessaðir karlarnir í öllum gömlu flokkunum fengu heldur betur fyrir hjartað. Þvílík ósvífni af þessum kerlingum! Atlaga við lýðræðið, sagði einhver. Stenst varla kosningalögin, sagði annar. Stangast á við stjórnarskrá, sagði enn einn. Lærðir menn og prófessorar voru kallaðir til álitsgjafar og létu hafa sig í að draga í efa réttmæti þessara yfirlýsinga og gera þetta athæfi tortryggilegt á allan hátt. “Það er nauðsynlegt að rétt yfirvöld láti þetta mál til sín taka, svo að ekki skapist réttaróvissa”, sagði leiðarahöfundur Mogga alvöruþrunginn. Mér, sem lenti í opinberum rökræðum vegna þessa máls, varð mæta vel ljóst hvað olli þessum viðbrögðum. Þetta var ógnun við starfshætti gömlu flokkanna og skapaði hættu á því að kjósendum þætti þetta góð leið til að þurfa ekki að þola sömu karlana í þingsætum sínum áratugum saman.
Auðvitað tókst þeim ekki að hindra okkur í að viðhafa þessi vinnubrögð, sem ég er enn sannfærð um að voru tilraunarinnar virði. Ég man að í öllum þeim umræðum sem sköpuðust um þetta tiltæki benti ég á þá staðreynd að margoft hefðu þingmenn ekki setið nema hluta þess kjörtímabils sem þeir buðu sig fram til. Munurinn væri aðeins sá að þeir hefðu ekki lýst þeirri ætlan sinni yfir fyrirfram, heldur gripu tækifærið ef þeim bauðst öruggara og betur launað djobb, t.d. bankastjóra eða sendiherra. Enginn prófessor hafði gert athugasemd við slíkt athæfi. Og núna, árið 2003, hvarflar ekki að nokkrum fjölmiðli né álitsgjafa að fetta fingur út í ráðsmennsku stjórnarherranna. Og Morgunblaðið hefur ekki nokkrar áhyggjur af neinni réttaróvissu.
Sjálf tel ég þessa framkomu lítilsvirðingu við lýðræðið.