Hin hliðin á kosningabaráttunni

Merkilegt hvað tíminn flýgur þegar mikið er að gera. Síðast hef ég skrifað hér í minnisbók 7. mars sl. Þá var kosningabaráttan að komast á skrið og ekki að sökum að spyrja, allur tími fór í það starf eins og venjulega og nú fékk ég að kynnast því hinum megin frá, ef svo má að orði komast. Allar götur frá 1983 hef ég verið á kafi í framboðsmálum og 4 sinnum leitt lista í Reykjaneskjördæmi, sem nú hefur fengið nafnið Suðvesturkjördæmi og misst frá sér Suðurnesin. Í þetta sinn fékk ég að verma heiðurssætið og stundaði baráttuna frá höfuðstöðvum í Reykjavík.

Það var býsna fróðlegt að kynnast þessari hlið baráttunnar sem fólst í margháttaðri þjónustu við öll kjördæmin. Steinþór Heiðarsson var kosningastjóri á landsvísu og sá m.a. að mestu leyti um auglýsingar og útgáfumál. Við unnum reyndar náið saman og lögðum starfinu um allt land allt það lið sem við máttum. Það var í mörg horn að líta og hefði ekki veitt af a.m.k. tvöföldum mannskap, en stakkinn þarf að sníða eftir vexti og fjárhagurinn leyfði ekki meira. Auk útgáfumála og auglýsinga þurfti að halda ótal fundi með kosningastjórum og frambjóðendum, sjá til þess að kosningaskrifstofurnar fengju nóg af bæklingum, barmmerkjum og flöggum, ýta á eftir hönnun og halda utan um reikninga. Mikill tími fór í að taka við erindum af öllu mögulegu tagi, m.a. beiðnum um fulltrúa á fundi og tryggja að þeim væri sinnt, svo og fyrirspurnum af margvíslegu tagi. Eftir kosningar var svo ótal margt að ganga frá sem virðist ætla að endast fram eftir sumri.

Þá var ekki síður merkilegt að kynnast því hvernig er að vera umboðsmaður framboðslista og vera viðstödd talningu atkvæða. Hingað til hefur ekki hvarflað að mér að vantreysta atkvæðatölum og að rétt og eðlilega sé staðið að formlegri hlið kosninga. Nú leyfi ég mér að efast um að nægilega vel sé staðið að málum.

Ekki síst virðist mér deginum ljósara að framkvæmd kosninga utan kjörfundar sé verulega ábótavant og nauðsynlegt að gera bragarbót þar á. Kosningarétturinn er hverjum manni mikilvægur og ber að tryggja að allir fái neytt þess réttar eins og frekast er unnt. Reyndin virðist önnur og verða bæði dómsmálaráðuneytið og utanríkisþjónustan að taka sig á í því efni. Íslendingar erlendis fá ekki nægilega góðar upplýsingar í tæka tíð og talsvert virðist á skorta að embættismenn kunni að ganga frá atkvæðum eins og lög bjóða. Hið sama á raunar við um embættismenn hér heima og eru þess dæmi að handvömm við frágang hafi orðið til þess að atkvæði hafi verið dæmd ógild.

Um eftirlit með talningu atkvæða hef ég ýmislegt að athuga og tel eftir þessa reynslu öldungis óhugsandi annað en að mistök verði og að tölum hljóti að skakka í einhverjum mæli. Því væri eðlilegt að setja einhvern þann varnagla í kosningalögin að skylt sé að endurtelja ef litlu munar á atkvæðatölum flokka, hvort sem er í kjördæmi eða yfir landið allt. Þá er satt að segja furðulegt að yfirkjörstjórnir hafi slíkt vald að þær geti úrskurðað á mismunandi hátt um gild og ógild atkvæði. Þannig hefur komið í ljós að ein aðferð var sums staðar úrskurðuð gild, en annars staðar ógild. Gilti það a.m.k. bæði um merkingar utan á kjörseðli og um bókstafinn V sem úrskurðaður var Vinsri grænum í 4 kjördæmum en ógildur í tveimur! Já, ekki er öll vitleysan eins.