Fegurð og fákar að Fjallabaki

Fáksferðin 2004 mun lifa í minningunni fyrir margra hluta sakir. Efst í huga eftir hverja ferð eru raunar alltaf hestarnir, samneytið við þá, hvernig þeir reyndust og hvað þeir gáfu manni. Þá eru það reiðleiðirnar sem oftast eru blanda af góðum götum og vondum, mjúkum og hörðum, og svo var enn í þetta sinn.

Eftirminnilegasta leiðin var frá Hvanngili í Bólstað undir Einhyrningi, leið sem ég hef ekki áður farið. Liggur hún um Álftavatn og Faxa, meðfram Torfakvísl, yfir Markarfljót að krossgötum í Króki, niður með Markarfljóti að Emstrubrú og þaðan í Bólstað undir Einhyrningi. Leiðin er nokkuð erfið, mikið riðið upp og niður bratta ása og fjöll, en útsýnið og fegurðin ógleymanleg. Þann dag hefði ég raunar kosið að geta farið ögn hægar til að njóta alls þessa betur.

Í þessari ferð var hins vegar einfaldlega ekki mögulegt að ríða hægt, a.m.k. ekki fyrir forreiðarmenn, og er þar komið að enn einu sem gerir Fáksferð 2004 eftirminnilega. Hún var nefnilega óvenju fjölmenn, 46 manns, þar af 3 með trússið, en öll hin ríðandi nema að nokkrir skiptust á um að vera á baki og að aka fylgdarbílum sem aðstoðuðu við áningu. Og hrossahópurinn var ekki smár, 176 talsins þegar flest var, og það var stórbrotin og grípandi sjón þegar hestalestin hlykkjaðist um hálsa og ása, upp og niður brekkur og á fleygiferð yfir vatnsmiklar ár. Þetta var óskaplega spennandi og skemmtilegt og í rauninni stórmerkilegt hvað allt gekk vel þrátt fyrir þennan mikla fjölda.

En það verður að segjast alveg eins og er að þetta er alltof stór hópur. Bæði verða lætin of mikil og hraðinn of mikill, sem þreytir hross og menn óþarflega mikið, auk þess sem hættara er við meiðslum t.d í áningu þar sem stundum slettist upp á vinskapinn og einn slær annan í látunum. Nokkrir hestar heltust á leiðinni, en jöfnuðu sig og nýttust áfram eftir að hafa fengið að hlaupa frjálsir með í 2 – 3 daga. Aðra þurfti að senda heim, en þó merkilega fáa, aðeins 5 af öllum þessum fjölda. Þá er þetta erfitt fyrir knapa, einkum forreiðarmenn sem ekki aðeins vísa veginn heldur þurfa einnig að reyna að halda aftur af lausu hrossunum. Þegar um slíkan fjölda er að ræða er forreiðin nánast eins og á flótta undan lausu hrossunum.

Þá er það vissulega svo að þetta er álag á land og náttúru, talsvert rót á áningarstöðum og erfiðara en ella að hindra laus hross í að hlaupa út úr lestinni. Að sjálfsögðu eru áningarstaðir valdir af kostgæfni á gróðurlausum svæðum, ef þess er nokkur kostur, og varast að ríða yfir viðkvæm gróðursvæði. Margt góðra reiðmanna á öflugum hestum hélt hins vegar vel utan um alla þætti og mikill kostur var að hafa fylgd tveggja jeppa sem víðast hvar slógu upp gerðum á 5 – 9 km. fresti til þess að áfangar yrðu ekki of langir og auðvelt yrði að stöðva í áningu. En slík var ferðin á hestalestinni að jeppafólkið mátti halda vel á spöðunum til að hafa við henni.

Ferðin tók 8 daga. Lagt var upp frá Leirubakka í Landsveit 18. júlí og riðið í Áfangagil, þaðan í Landmannahelli, þá Hólaskjól, Hvanngil, Bólstað undir Einhyrningi, Goðaland, þar sem gist var í 2 nætur, þaðan í Gunnarsholt og loks Leirubakka þar sem hringnum var lokað 25. júlí. Á þessum hring er farið bæði inn á Fjallabaksleið syðri og nyrðri og það verður að segjast eins og er að fegurðin að Fjallabaki er engu lík. Ég verð alltaf jafn heilluð þegar farið er um þetta svæði sem býður upp á andstæður í hrikaleik og ljúfri mýkt, silfurtærar ár og beljandi fljót, kuldalegan jökul, fagurgræna mosagróna ása og gilskorin fjöll. Veðrið lék við okkur allan tímann, var hlýtt og oft sól, en helst rigndi um nætur eins og til að rykbinda fyrir næsta dag. Þetta gat eiginlega ekki betra verið.