Framboðsloginn blaktir

Það er ekkert lát á spennandi uppákomum í landslagi stjórnmálanna um þessar mundir og langt frá því útséð með framboðsmálin fyrir vorið. Öryrkjar og eldri borgarar fara þó hljótt og virðast ekki enn vita hvernig bregðast skuli við þeim undarlegheitum að vera allt í einu komnir með tvo hópa sem stefna að framboði um sama málefni. En kannski tekst þeim að rifja upp sannleiksorðin um hvað verður um hina sameinuðu og hvað þá hina sundruðu. Það gildir raunar hið sama um þessa hópa og Framtíðarlandið, öll þessi samtök gera mun meira gagn með vinnu úti á akrinum, áminningum og aðhaldi heldur en að reyna að koma sér inn á Aþingi.

Á fundi Framtíðarlandsins 7. febrúar var samþykkt að bjóða ekki fram til Alþingis á vegum samtakanna og var það skynsamleg ákvörðun. En það er ekki þar með sagt að framboðsloginn hafi slokknað hjá þeim sem telja vænlegt að stefna á þing og er þess nú beðið hvað verður úr þreifingum þeirra. Augljóslega reynir Margrét Sverris að leggja út netin fyrir hægri grænt framboð með skilaboðum um að hún hafi áhuga á einhverju nýju og spennandi til hægri. Það hljómar að vísu einkennilega með tilliti til þess sem hún hefur sagt og gert síðustu árin. Hægristefnan hefur ekki verið fyrirferðarmikil í máli hennar eða greinaskrifum.

Athyglisvert er hversu margir hafa áhuga á að bjóða fram til Alþingis og er það að mörgu leyti hið besta mál. Það er lýðræðislegur réttur fólks, og við ræddum t.d. talsvert um þá hlið mála í nefndinni sem fjallaði um fjármál stjórnmálaflokkanna. Okkur var í mun að skerða ekki möguleika nýrra framboða, en eins og mál hafa þróast á undanförnum árum er kostnaðurinn við síkt óneitanlega nokkur þröskuldur. Það er hins vegar gulls ígildi að hafa eitthvað nýtt fram að færa. Ný framboð með eitthvað nýtt og merkilegt til málanna að leggja njóta gjarna þeirrar athygli fjölmiðla og áhuga almennings sem er þeim meira virði en fjárframlög.

Þau framboð sem hafa verið og eru enn til umræðu hafa þó tæpast það nýmeti upp á að bjóða sem dygði þeim til árangurs ef þau létu af verða. Mér hefur verið sagt að á fundum Framtíðarlandsins hafi hugmyndum um nýtt grænt framboð verið líkt við framboð Kvennalistans á sínum tíma. Þar er þó alls ólíku saman að jafna. Fyrir kosningarnar 1983 sátu aðeins 3 konur á Alþingi og höfðu aldrei skriðið yfir 5% markið á þeim bænum. Það var því brýnt að leggja til atlögu við þann fáránlega lýðræðishalla og breyta umræðunni í íslenskum stjórnmálum. Það var erindi Kvennalistans og augljóst á þeim tíma að það erindi gátu ekki gömlu hefðbundnu flokkarnir rekið. Þeir hvorki gátu það né vildu.