Tölvunotkun landans hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum og ærin fyrirhöfn að hanga í skottinu á þróuninni. Enn eru þó margir sem eru harðákveðnir í því að láta þessa byltingu gjörsamlega framhjá sér fara og mjög margir láta sér nægja að nota tölvuna nánast eingöngu til ritvinnslu. Þetta merkilega tæki býður upp á mikla möguleika og ótal hliðar, það tengir saman fólk á annan og auðveldari hátt en áður fyrr og er frábært til öflunar upplýsinga og gagna. En það er líka útbært á alls kyns óþarfa og óheppilegt efni, jafnvel andstyggilegan sora. Og það reynist mörgum óhóflegur tímaþjófur.
Ég hef aldrei verið sérlega dugleg að ferðast um Netið, hvað þá að leita uppi allar heimasíðurnar og bloggsíðurnar, sem einar og sér gætu fullnægt lestrarþörfinni á hverjum degi. Sjálf kom ég mér upp þessari síðu minni fyrir 8 árum þegar ég var að demba mér út í enn eina kosningabaráttuna og þóttist vera að svara kröfum nútímans. Og þótt ekki sé lengra síðan voru ekki ýkja margir stjórnmálamenn farnir að nota þessa tækni, enda var það býsna kostnaðarsamt á þeim tíma. Nú úir og grúir af þessum síðum, enda hentugar til að koma upplýsingum á framfæri.
Síðuhaldarar eru misjafnlega duglegir að bæta í sarpinn og liggur enda misjafnlega mikið á hjarta. Sjálf hef ég tekið þetta í rokum, enda ekki litið á mínar færslur sem ómissandi inn í daglegar umræður, hef meira notað þær til að geyma eitthvað sem mig langar að muna eða fá svolitla útrás fyrir tilfinningar þegar þannig blæs vindurinn. Því brá mér ögn í brún þegar vinur minn Ögmundur, einn ástríðufyllsti síðuhaldari landsins, birti í fyrradag þessa fínu mynd af okkur Víkingi Leóssyni, barnabarni Dreyra frá Álfsnesi, og mælti með minnisbókinni minni til lestrar. Ég ætti kannski að fara að vanda mig!
Af þessu tilefni eyddi ég dágóðum tíma í ferðalag um Netheima og skannaði ótal heimasíður einstaklinga af mjög ólíku tagi. Margar þessara síðna eru bara illa skrifað bull, sem meiðir svo sem engan. Verra er þegar fólk notar miðil sem þennan til að meiða og særa í skjóli nafnleyndar. En svo eru margar síður bráðskemmtilegar heim að sækja, fallega upp settar og skemmtilegar aflestrar jafnvel hjá bláókunnugu fólki. Óneitanlega er þó forvitnilegra að skanna síðurnar hjá kunnuglegu fólki, og ein þeirra www.this.is/lilja er komin á fastalistann hjá mér, síðan hennar Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur sem er alltaf full af athyglisverðum pælingum, oft býsna djúpum.
Athyglisvert er svo að skoða heimasíður þingmanna, sem sumir eru mjög iðnir við kolann. Þriðjungur þingmanna hefur ekki séð ástæðu til að koma sér upp heimasíðu og eftirtektarvert að í hópi síðuleysingja eru 4 flokksformenn, aðeins formaður Frjálslyndra er með síðu, en sinnir henni reyndar lítið. Sumar síðurnar hafa fengið að rykfalla allt upp í 4 – 5 ár, þær eru ekki heimsóknar virði og sama má segja um margar aðrar þótt þeim sé oftar sinnt. Nokkrar eru hins vegar vel virkar, en afar misjafnar og aðeins örfáar þannig að maður nenni að skoða þær reglubundið. Hins vegar má bóka að yfirleitt er mikið fjör á síðunum hjá Össuri og Ögmundi.