Stóriðja, knattspyrna og kvenfrelsi

“Það er svo gaman á fundum í VG að við ættum bara að prófa að selja aðgang að flokksráðsfundum okkar!” sagði vinstri græn kona að norðan og uppskar bæði hlátur og lófatak. Orð hennar og viðbrögð fundarmanna eru lýsandi fyrir vel heppnaðan og skemmtilegan flokksráðsfund 19. og 20. janúar sl. Andrúmsloftið á fjölsóttum fundinum einkenndist af glaðværð, bjartsýni og baráttugleði. Sá tónn sem þar var sleginn lofar sannarlega góðu um framgöngu vinstri grænna á næstu vikum.

Félagar undirbúa nú komandi landsfund og kosningabaráttu af fullum krafti og ræddu starfið í helstu málaflokkum á flokksráðsfundinum. Í flestum málaflokkum er stefnan vel undirbyggð og mótuð, en nauðsynlegt er að sofna aldrei á verðinum og bregðast við nýjum aðstæðum. Nú er t.d. stór hópur félaga að endurskoða hið ágæta rit um sjálfbæra þróun sem unnið var að fyrir 6 árum og ætlunin að gefa það út í handbók á næstunni. Þá eru vel virkir starfshópar um innflytjendamál, fjölskyldumál, heilbrigðismál, kvenfrelsismál og landbúnaðarmál, og fleiri slíkir hyggjast láta til sín taka á landsfundinum 23. – 25. febrúar nk.

STÓRIÐJUSTEFNUNNI MÓTMÆLT

Stóðiðjustefnan var að sjálfsögðu til umfjöllunar, enda víða unnið af kappi að undirbúningi álbræðslu og tilheyrandi virkjanaframkvæmdum. Um þau efni var samþykkt eftirfarandi ályktun sem Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi VG í Hafnarfirði hafði frumkvæði að:

“Í ljósi þeirra víðtæku afleiðinga sem stóriðjustefna undanfarinna ára hefur haft fyrir landið allt og íbúa þess er ljóst að afdrifaríkar ákvarðanir á þessu sviði geta ekki verið einkamál einstakra sveitarfélaga. Stóriðjustefnan og virkjanaframkvæmdir í þágu stóriðju eru á kjörseðlum landsmanna 12. maí.

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur engan veginn nægjanlegt að láta aðeins kjósa um afmarkaða skipulagsþætti s.s. deiliskipulag lands í einstaka sveitarfélögum eins og nú stendur til í Hafnarfirði vegna álbræðslunnar í Straumsvík.

Flokksráðsfundurinn leggst gegn fyrirhugaðri stækkun álbræðslunnar í Straumsvík, áformum um byggingu álbræðslu í Helguvík og við Húsavík, virkjunum í neðrihluta Þjórsár og Jökulsánum í Skagafirði, jarðvarmavirkjunum á Reykjanesskaga, Hengilsvæðinu og í Þingeyjarsýslum.

Ákvarðanir um byggingu og stækkun álbræðslu og virkjanaframkvæmdir í þágu stóriðju munu hafa veruleg áhrif á náttúru Íslands, umhverfi og efnahag um landið allt. Það er ekki einkamál sveitarfélagsins Hafnarfjarðar, Norðurþings, Reykjanesbæjar eða annarra að taka einhliða ákvörðun um virkjanakosti eða um nýtingu auðlinda fjarri sinni heimabyggð. Ákvarðanir sem binda hendur þjóðarinnar á öðrum sviðum ógna stöðugleika efnahagslífsins og breyta náttúru, ásýnd og ímynd lands.”

BLÓMSTRANDI HUGSJÓNIR KVENFRELSIS

Athyglisvert er hvernig hugsjónir kvenfrelsis blómstra nú sem aldrei fyrr innan hreyfingarinnar. Á fyrstu árum hennar gætti nokkurrar tortryggni og jafnvel andúðar sumra félaga gagnvart kvenfrelsismálum og þurfti að hafa talsvert fyrir því að fá fólk til að hlusta á þessi sjónarmið og ræða þau. Þó hafa þau frá upphafi átt sinn sess í stefnuyfirlýsingu og málefnahandbók og ýtarlega var farið yfir sviðið í sérstökum bæklingi sem saminn var fyrir landsfund 2001 og gefinn út fyrir kosningarnar 2003. Okkur sem unnum að þessum málum þótti viðtökurnar ekki beinlínis leiftrandi af skilningi og áhuga.

En nú er öldin önnur og allt annar blær yfir umræðum. Viðhorfsbreytingin stafar e.t.v. ekki síst af því að karlar hafa komið til liðs við málstaðinn af einlægni og þekkingu og ekki á neinn hallað þótt Atli Gíslason og synir hans séu nefndir til sögunnar. Á flokksráðsfundinum stýrði Gestur Svavarsson hópnum sem fjallaði um kvenfrelsismálin og kynnti niðurstöður í fundarlok. Og Stefán Pálsson lagði fram tillögu að eftirfarandi ályktun sem fundurinn samþykkti fúslega og fagnandi:

“Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn 19.-20. janúar 2007 fagnar því að kona hafi í fyrsta skipti boðið sig fram til formennsku í Knattspyrnusambandi Íslands.

Knattspyrna hefur fram til þessa verið eitt helsta vígi karlmennskunnar og innan knattspyrnusambandsins hefur ríkt óviðunandi misrétti milli karla og kvenna. Framboðið er til marks um að konur gera tilkall til þess að þeirra íþróttaiðkun sé jafnmikils metin og karla. Til þess þurfa konur að koma að ákvarðanatöku og stefnumótun innan íþróttahreyfingarinnar.

Þessum tímamótum í frelsisbaráttu kvenna fagnar flokksráðsfundur Vinstri grænna.”