Orðaslagur á Alþingi

Þessa dagana er orðaslagur á Alþingi um eina merkustu stofnun landsins, sjálft Ríkisútvarpið. Alþingismenn komu beint í þá orrahríð úr fundahléi jólanna og henni er ekki ætlað að ljúka fyrr en mælendaskrá er tæmd í málinu og atkvæðagreiðslu endanlega lokið. Margir vilja tala og það mikið, en ekki er líklegt að Þorgerður ráðherra víki að þessu sinni eftir margar tilraunir til að koma málinu í höfn.

Málþóf, málþóf, segja ráðherra og stjórnarþingmenn og fjölmiðlar bergmála hróp þeirra. Sú ásökun hljómar alltaf þegar tekist er á um mikil ágreiningsmál á þingi og andstæðingar máls nýta sér rétt sinn til ræðuhalda eins og þeir frekast geta. Málþófsheitið á stundum rétt á sér, en það er ofnotað að mínu mati. Þegar allt hefur verið reynt til þrautar í nefndarstarfi er hljóðneminn í ræðustóli Alþingis oft eina leiðin til að hafa hugsanlega áhrif á málalok. Löng ræðuhöld um mál á lokastigi geta virst tilgangslaus nema í því skyni að tefja, en yfirleitt þjóna þau þeim tilgangi fyrst og fremst að vekja sem mesta athygli á málinu og koma upplýsingum og skilaboðum út í samfélagið. Breytingar á rekstrarformi og starfsháttum Ríkisútvarpsins, útvarpi allra landsmanna eins og gjarna er sagt, varða okkur öll.

Það er athyglisvert að skoða gögn málsins á Alþingisvefnum, en af þeim verður ekki annað séð en að hægt hefði verið að ná sáttum um helstu ágreiningsatriðin, ef vilji hefði verið til þess. En það er einmitt viljinn sem vantar. Auðvitað er ástæða þess að stórum hluta sú að framundan eru kosningar og mikið í húfi. Menntamálaráðherra fer mikinn þessa dagana, hún skrifar nánast daglega undir samninga um eitt og annað og lofar fjárframlögum upp í ermar næstu ráðherra svo að milljörðum skiptir. Og hún ætlar að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi hvað sem tautar og raular. Það er sannfæring margra að það þýði aðeins eitt: Ríkisútvarpið verður fyrr eða síðar einkavætt.

Ein þýðingarmesta menningarstofnun þjóðarinnar fer á markað! Það er hryggileg niðurstaða og vonandi hafa andstæðingar málsins þrek til að skrá þá forsmán rækilega í Alþingistíðindi.