Glampandi sól og glimrandi færi

Flugvélin sem flutti okkur frá ítalska skíðabænum Madonna lenti í slyddunni á Keflavíkurflugvelli laugardagskvöldið 3. febrúar, en eiginlega er ég ekki ennþá andlega lent, þótt ég sé búin að renna yfir öll dagblöðin frá því við fórum utan. Efni þeirra var ótrúlega fjarlægt og óspennandi þessa dagana í skíðabænum góða, helst þó að handboltinn sækti á hugann, enda samferðafólkið býsna upptekið af gengi Íslendinganna í HM.

Vikudvölin í Madonna var öldungis frábær, glampandi sól og glimrandi færi frá morgni til kvölds alla dagana. Þó höfðu veðurguðirnir verið sparir á snjókomuna þennan veturinn, það snjóaði myndarlega á þessum slóðum snemma í desember, en síðan ekki fyrr en í vikunni áður en við komum þangað. En það dugir alveg þeim sem annast brekkurnar í Madonna, því þar eru snjóframleiðslutæki í hundraðavís, enda byggist nánast öll atvinna og afkoma bæjarins á skíðamennsku og reyndar einnig á gönguferðum um fjöll og dali á sumrin. Þarna eru hrikaleg fjöll og feiknarleg náttúrufegurð, bærinn fremur lítill og fallegur og skemmtilegur til dvalar.

Þessa vikuna voru um 100 Íslendingar í bænum á aldrinum 2ja til 78 ára og mikil gleði í brekkunum. Evert fararstjóri leysti hvers manns vanda og tók okkur í tíma ef vilji og þörf var fyrir hendi. Hann reyndi að kenna þá list að láta skíðin líða með okkur í gegnum beygjurnar án fyrirhafnar og svei mér ef árangurinn var ekki bara orðinn nokkuð góður að lokum. Við í litla hópnum mínum vorum farin að svífa um brekkurnar með útrétta arma eins og englar með vængi, en það verður að virðurkennast að í bröttustu brekkunum breyttist a.m.k. minn engill í einhverja undarlega veru með furðulegan fótaburð og allt að einn metra milli hægri og vinstri. Datt mér þá í hug:

Að skemmta mér á skíðum

finnst mér skuggalega gaman

Vil þó helst að vinstri og hægri

haldi betur saman.

Það er eins og mig rámi eitthvað í harðsperrur og einn og einn marblett ef grafið er djúpt í minnið, en allt annað var svo mikil skemmtun og endurnæring líkama og sálar að hugsanleg óþægindi eru einfaldlega gleymd og grafin.